01.02.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Þóroddur Guðmundsson:

Herra forseti. — Formaður fjvn., hv. þm. Ísaf., talaði mikið um það í ræðu sinni, að það hefði verið gott samkomulag í fjvn. Ég gat ekki skilið þetta öðruvísi en svo, að hann vildi segja, að við þessir tveir, sem gerðum ágreining í n., hefðum verið þeim að mestu leyti sammála í meiri hl., en komið svo aftan að þeim á eftir. Ég var hissa á þessari ásökun og hefði þó kannske ekki þurft að vera það, því að ég sé í flokksblaði hv. þm. í fyrradag, að verið er að gefa í skyn, að ekki hefði verið mikill ágreiningur í fjvn., heldur komi nú þessir 2 þm. aftan að n. og geri uppsteytu eftir á. Ég hefði nú ekki tekið þetta svo alvarlega frekar en annað, sem stendur í þessu blaði, en þegar formaður n. endurtekur þetta hér á þ., get ég ekki stillt mig um að segja ofurlítið nánar frá því, hvernig þessu er varið.

Það er gott og blessað að fá vinsamleg og góð ráð, og hv. þm. Ísaf. var að gefa okkur sósíalistunum góð ráð, sérstaklega hv. 6. landsk. þm., og sagðist vona, að seinna, þegar hann hefði fengið meiri reynslu og starfað meira í nefndum, mundu ekki henda hann svo óvenjuleg vinnubrögð. Það, sem hann var sérstalega að vita, var það, að það hafði verið skýrt frá því, sem gerðist í n. Það hefur aldrei verið samþ. í fjvn., að það væri leyndarmál, sem þar fór fram, eða að óheimilt væri að segja frá því, sem bar á góma, en ef það hefði nú verið einhver regla, að ekki mætti á neitt minnast, vil ég spyrja þennan hv. þm.: Af hverju skýrir hann þá frá afstöðu einstakra manna í n. og segir þar rangt frí? Það kom fram mikill skoðanamunur í n., og við tveir, sem gerðum ágreining í bókun, segjum, að við séum algerlega andvígir því, að fjárlagafrv. sé lagt svona fram, og líka að við séum ósamþykkir ýmsu, sem gerðist í n. Þetta veit formaðurinn, að er rétt, en af hverju kemur hann þá nú og gefur allt annað í skyn? Ég get ekki stillt mig um að setja það í samband við það, að við höfum fyrst orðað okkar ágreining á dálítið annan hátt, en hann lagði sig í framkróka til þess að fá okkur til að breyta orðalaginu. Okkur datt ekki í hug, að þetta væri af neinni undirhyggju, og við létum það eftir honum að breyta orðalaginu. Eins og orðalagið er nú, er hægara að snúa út úr því, en með þessu orðalagi kemur samt skýrt fram okkar afstaða, og formaðurinn hefur ekki undan neinu að kvarta. — Ég held, að ég hafi þá svarað ásökun hans. Ég vil aðeins geta þess til viðbótar um það, sem hv. formaður sagði, að hann treysti því, að samkomulag mundi nást um þýðingarmikil atriði, eins og t.d. áætlun teknanna, að það er mín skoðun, að slíkt samkomulag sé útilokað og hyldýpi sé staðfest á milli skoðana nm.

Ég vil minnast á út af ummælum hv. 1. þm. Rang., að fyrst þegar það var borið upp í n. að kasta frv. óköruðu inn í þ., var það fellt með jöfnum atkv., en einn nm. sat hjá. Það var unnið í n. fram eftir nóttu og gert fundarhlé til að nm. gætu fengið sér hressingu. En rétt fyrir fundarhlé fór fram þessi atkvgr. Eftir hléð var málið tekið upp að nýju. Ég ætla ekki, að hugir manna hafi breytzt mjög við, að þeir fengu sér brauðbita, en allt um það var auðséð, að eitthvað hafði gerzt á þessari stuttu stund. Hinn kempulegi 1. þm. Rang. var allt annað en hetjulegur ásýndum þegar hann kom úr hléinu og fór að fitja upp á því, að rétt væri að taka þetta aftur til athugunar. Lét hann nú skína í, að hann hefði skipt um skoðun og var eldrauður í framan og stamandi að gera grein fyrir því, en allir nm. vissu, að faðir Jónas var búinn að tala við drenginn, enda féllu orð um það, að annaðhvort þm. N.-M. eða 1. þm. Rang. mundu nú hafa fengið skammir.

Ég held tvímælalaust, að meiri hl. nm. sé þeirrar skoðunar, að eðlilegast hefði verið, að frv. hefði verið afgreitt frá n. hálfu og komið svo þannig afgreitt til 2. umr. í þ. Þetta er ekki heldur nema sjálfsagt. Það sjá allir, að málið væri betur búið undir umr., ef fjvn., sem skipuð er öllum flokkum, væri búin að gera sitt ýtrasta, safna öllum gögnum og vinna úr þeim. Margir þm. mundu vilja koma með brtt., þó að n. hefði afgreitt frv. eins vel og hún gat, t.d. um aukin framlög til verklegra framkvæmda í kjördæmi sínu. Ef þær væru felldar við 2. umr., mundu þeir gjarnan vilja bera þær fram við 3. umr. með lækkuðum upphæðum, sem frekar næðu samþykki. Ég hef heyrt þm. úr bæði Framsfl. og Sjálfstfl. segja, að þeir hefðu viljað eiga kost á þessu. En það var sótt af svo mikilli frekju og offorsi að kasta málinu svona inn, og innan flokkanna hefur það sjálfsagt verið sótt af sömu frekju, þannig að flokksmenn hafa verið hlunnfarnir og bundnir til að vera með þessu. Þetta er í rauninni ekkert einstakt og hefur kannske oft komið fyrir áður, en ég verð að segja, að mig furðar því meir á framkomu hv. þm. Ísaf. sem hann hefur alltaf haldið því fram, að hann væri andvígur þessari aðferð. Ekki hafði flokkur hans bundið hann. Hvað vakti fyrir honum? Var hann af öðrum stórpólitískum ástæðum bundinn hv. þm. S.-Þ.? Það kann að vera svo og kemur þá síðar í ljós. En hvað vakti fyrir þm. S.-Þ. að berja þetta í gegn?

Hæstv. fjmrh. kom á fund n., og hún ætlaði að fræðast af honum, en fór í geitarhús að leita ullar, því að hann sagði n. ekkert, sem hún vissi ekki áður. Hann taldi, að hann geti ekki fellt sig við, að tekjuliðurinn hækkaði nema um 3–4 millj. kr. Hæstv. fjmrh. sagðist ekki sjá sér fært að taka við fjárlagafrv. með tekjuhalla. Mér skildist, að hann mundi þá ekki verða ráðh. áfram, ef þingið afgreiddi frv. þannig. En hann virtist ekki vera með því að hækka tekjuáætlunina um meira en í mesta lagi 3–4 millj. Ef hún yrði ekki hækkuð meira, þá yrði útkoman sú, að skera þyrfti niður fé til vísinda, skóla, menntamála og annarra framkvæmda.

Ef nm. hafa verið hæstv. ráðh. sammála um þetta, þá er ekkert eðlilegra en þeir vildu engar umr. um frv., því að það er ekki þægilegt að verja það, að ekki sé hægt að hækka tekjuáætlunina um meira en 3–4 millj., og því helzta ráðið að keyra frv. í gegn umræðulaust. Rök þeirra, sem vildu aðeins ræða frv. við 3. umr., voru þau, að svo margar brtt. kæmu fram, að eina ráðið væri að ræða þær ekki fyrr en við 3. umr., svo að n. hefði tíma og tóm til að afgreiða þær hjá sér og gæti betur orðið sammála um þær brtt., sem hún vildi mæla með.

Það má vera, að þessi eining hafi vakað fyrir þeim, sem hvöttu til þessarar aðferðar og trúðu á samkomulagið í n. En það er bezt, að ég noti tækifærið, af því að ekki hefur skort á, að okkur sósíalistum hafi verið gefin ráð, og gefi alþýðuflokksmönnum og framsóknarmönnum það ráð að gera sér það ljóst strax, að þeir þurfa ekki að ímynda sér, að við látum okkur nægja þá samvinnu að nudda eitthvað lítils háttar til málamynda, þegar stefnumál okkar eru brotin og að engu höfð, eins og Alþfl. hefur gert í viðskiptum sínum við Sjálfstfl. t.d. oft og tíðum, og síðan reynt að telja sjálfum sér og öðrum trú um, að allt hefði þó orðið enn þá verra, ef þeir hefðu ekki haft hönd í bagga með því, hversu mjög sem þeir hafa brotið stefnumál sín.

Sósíalistar munu aldrei sökkva í þetta fen. Um hið góða samkomulag í fjvn. er sitt hvað að segja, og ætla ég aðeins að drepa á eitt af því, er þar kom fram og sýndi vel skoðanamuninn í n.

Ég tek dæmi af handahófi. T.d. rekstrarstyrkur til sjúkrahúsanna á Akureyri, Ísafirði og á Seyðisfirði, 100 kr. á hvert rúm. Einhverja uppbót átti svo að veita til sjúkrahússins á Siglufirði. Við sósíalistar vorum andvígir því að styrkja þessi sjúkrahús sérstaklega. Hinir nm. báru fyrir sig rök frá landlækni, þar sem hann kallaði fjórðungssjúkrahús á Akureyri, Ísafirði og á Seyðisfirði og taldi þau mikilvægari en önnur. Það sjá allir, að þessi svokölluðu fjórðungssjúkrahús eru ekkert annað en nokkurs konar ,,fiks Idé“. Það er engin ástæða til að styrkja sjúkrahús á Seyðisfirði fram yfir t.d. sjúkrahús á Siglufirði, þar sem 4–5–falt fleiri íbúar eru, og auk þess dvelst þar fjöldi manns yfir sumarið af öllu landinu, svo að sjúkrahúsið annar þá oft ekki eftirspurninni. Það væri frekar að taka tillit til þessarar sérstöðu. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í þetta atriði, en bendi á, að þetta er ekkert annað en hlutdrægni, sem ketalur fram í þessu.

Við sósíalistarnir vorum báðir því fylgjandi, að veitt yrði fé til byggingar leikfimihúss fyrir Menntaskólann á Akureyri. Um þetta voru skiptar skoðanir. Hinir nm. bentu á, að til væri leikfimihús á Akureyri, og voru andvígir þessari fjárveitingu.

Alþýðusambandið sótti um 10000 kr. styrk til fræðslustarfsemi. Fjvn. kleip 2000 kr. af þessari upphæð. Þetta virðist þó óþarfi, einkum þegar litið er til þeirra upphæða, sem veittar eru búnaðarfélaginu og bændum í sama skyni. Um þetta voru einnig skiptar skoðanir í n.

Þá verð ég að segja, að mér kom einkennilega fyrir sjónir, er beiðni kom úr einu framsóknarhéraði um styrk til að gera kirkju eða byggja hana upp víst. En svo háttar til, að kirkja er á næsta bæ, sem er í ca. 2 km fjarlægð, er mér sagt af kunnugum. Ekki virðast menn nú heittrúaðir þarna, að geta ekki sótt kirkju ekki lengri veg. En nú er dýrt að byggja, og þetta er því hugsunarháttur, sem ekki á samleið með neinum verkalýðssinna. Ég þarf ekki að taka það fram, að við sósíalistar vorum á móti þessari ráðstöfun, en hún var samþ.

Verkamannafélagið á Siglufirði hefur komið sér upp sjóði til styrktar veikum verkamönnum. Atvinnurekendur þar á staðnum hafa lagt fé í þennan sjóð, og síldarverksmiðjurnar hafa ákveðið að gera það einnig, og ein þeirra, Rauðka, hefur þegar gert það. Þetta félag fór fram á 2500 kr. styrk frá ríkinu árlega. Þá kom það í ljós, að önnur verkamannafélög fengu ekki svo háa styrki, svo að ég fór milliveg og stakk upp á 1000 kr. Frá þessu var ekki gengið í n., en formaður hennar virtist þessu hlynntur og vildi láta það bíða og forða því þannig frá bana, unz betur blési.

Þá vildum við styrkja betur Samband bindindisfélaga í skólum og regluna. Og um fleira voru skiptar skoðanir. Eitt er það enn þá, það var sú ráðstöfun að kaupa 30 refi af Andakílshreppi. Þetta virðist fyrirtæki, sem er að flosna upp eins og fleiri bú, og það kom fram í bréfi, að þeir mundu snúa sér að annarri framleiðslu, sem betur væri styrkt. Ég skal ekki dæma um þetta, enda held ég, að þessi kaup hafi í rauninni áður verið um garð gengin, aðeins eftir þetta formsatriði. En þetta er þó dálítið merkilegt mál vegna skilyrða þeirra, er seljendurnir setja. Þeir áskilja sér rétt að fá að kaupa búið aftur, hvenær sem þeim þóknast, á sama verði og þeir seldu það. M.ö.o., ef seinna kynni að verða arðvænlegra að reka það, þá á ríkið að afsala sér því í hendur fyrri eigenda, en meðan allt er þar í ræfildómi, þá er sjálfsagt að ríkið reki það. Ég var ekki viðstaddur, er þetta var afgreitt. Ég gerði fyrirspurn út af þessum skilyrðum, og lýsti formaður n. því þá yfir, að honum hefði sézt yfir þau, og kvaðst vera á móti þessu svona, og hið sama sögðu fleiri. En ekki fékkst það moð nokkru móti, að seljendurnir yrðu að falla frá skilyrðum þessum. Nú hefur formaður n. lýst því yfir, að fella þurfi niður skilyrðin, en allir hv. þm. sjá, að þetta hefði þá þurft að taka fram í samþykkt fjvn. Og ef svo er, sem mig grunar, að raunverulega hafi verið búið að ganga frá þessum kaupum áður, hvernig er þessu þá farið? Nokkuð er það, að ekki fékkst það inn í samþykktina, að seljendurnir þyrftu að falla frá skilyrðum sínum.

Mér finnst andinn í fjvn. yfirleitt vera sá, að gert sé upp á milli sveita og kaupstaða, og þá einkum, ef í hlut eiga kjördæmi nm. Og við vitum það, að þm. sveitanna hafa lengi sýnt málum kaupstaðanna tómlæti og sumir næstum ofsóknir. Ég nefni engin nöfn, en tek dæmi. Einum hv. þm. finnst það sæmilegt, að það taki 7–8 ár fyrir Siglufjörð að komast í vegasamband á sama tíma og veitt er stórfé til vega í hálfgerðum eyðisveitum. Svona er þetta. Það er oft verið að þenja vegi um sveitir, þar sem aðeins 5–10 fjölskyldur búa, en sömu menn, sem að þeim fjárveitingum standa, geta svo aftur verið á móti því að koma stærstu kaupstöðum í vegasamband. Um Siglufjörð vita allir, að af þeim kaupstað hefur þó ríkið haft meiri tekjur en nokkrum öðrum utan Rvíkur, þótt hann hafi orðið út undan með fjárframlög frá ríkinu aftur á móti.

Það er öllum hv. þm. ljóst, að nú eru miklir fjárausturstímar. Tekjur ríkisins eru nú 60–80 millj. kr. fyrir árið, sem var að líða, og verða sennilega meiri næsta ár. Það er því ekki óeðlilegt, að meiri kröfur séu gerðar til þess, að nú sé eitthvað gert. Það er sanngirniskrafa á veltutímum. Og hvaða kröfur gera menn þá helzt? Margir óttast, að á næstunni geti orðið atvinnuleysi, og forsjáll maður stingur upp á því, að eitthvað verði gert til að forða því, og lagt verði til hliðar og lagt í verklegar framkvæmdir. Þá að fé verði varið til vísinda, skóla, menntamála og til að minnka dýrtíðina. Sumir hv. þm. hafa bent á það, að ekki verði hinar raunverulegu tekjur ríkisins minni, þó að þær verði áætlaðar lágt. Að vísu er þetta satt, en hins vegar má einnig með sanni segja, að réttast sé að áætla þær sem næst sanni, svo að menn viti, hvar þeir standa, þegar verið er að bruðla með fé ríkisins. Það hefur nú t.d. sýnt sig, að með einni þál. var hent út 20–30 millj. í verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir með mikilli óforsjálni. Margir hv. þm. mundu endurtaka atkvgr. sína um þetta mál. En þó er nú svo, að þessi afgreiðsla er spor, sem hræðir þá, er hafa ábyrgðartilfinningu, og kennir þeim að athuga málin betur, þegar verið er að veita almannafé, athuga fyrst, hve háar upphæðirnar kunna að verða, og áætla tekjurnar, sem ráðstafa á, sem næst sanni.

Það hafa komið fram brtt, við þetta nál., og er það eðlilegt. E.t.v. verður þó eitthvað af þeim tekið aftur til 3. umr. En ég álit rétt, að þær komi þá fram aftur, þótt nú fari ekki fram atkvgr. um þær.

Um brtt. á 18. gr. vona ég, að verði þó greitt atkv. við þessa umr. En ég segi eins og er, að ég er hræddur um, að það verði vandræði fyrir fjvn. að starfa saman að afgreiðslu þeirrar gr.

Það kynni að verða fjvn. töluvert mikil hjálp, þegar búið er að greiða atkv. um þessar till. við 2. umr. Þegar ymprað hefur verið á því í fjvn. að taka ákvarðanir um þau mál, sem meiri hl. n. er ekki með, þá er eins og menn hafi litið hver í augu annars, eða eins og talað væri um snöru í hengds manns húsi. Það er eins og menn hafi viljað hliðra sér hjá því að taka nokkrar ákvarðanir um þessi mál. Það vita allir þm., að hvernig sem um breytingartillögurnar fer, þá eiga menn rétt á, að þær séu afgreiddar við 2. umr.

Ég hef leyft mér að flytja hér 2 brtt. Önnur er um það, að tillag til Öxnadalsheiðarvegar verði hækkað úr 80 þús. kr. í 180 þús. kr. Þetta er mjög fjölfarinn vegur milli suður- og norðurlands, og það er ekki vansalaust að hafa þann veg í því ástandi, sem hann er nú. Ég held það hafi að mestu verið einróma álit fjvn., að það bæri að taka upp ríflegt framlag til þessa vegar, og það töluvert miklu ríflegra en áætlað er á fjárl. Ég hef stungið hér upp á því framlagi, sem ég álit þurfa til að ljúka við veginn, eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér.

Þá höfum við háttv. 7. landsk. (KA) flutt brtt. um það, að hækkað væri framlag til bókasafns verkamanna, sem vegamálastjóri hefur umráð yfir, úr 2 þús. kr. í 10 þús. kr. Þegar bækur eru svo dýrar sem nú er, verða ekki keyptar margar bækur fyrir 2 þús. kr. Þegar góðar bækur bundnar kosta nú um og yfir 100 kr., og miðað við upphæð þá, sem fer til vegamála, er 10 þús. kr. ekki mikil fjárfúlga, en gæti samt orðið til þess, að vegamálastjóri gæti gert bókasafnið sæmilega úr garði, og þyrfti enginn að sjá eftir því.

Um þær brtt., sem hér hafa komið fram, ætla ég ekki að ræða mikið. Háttv. flutningsmenn gera sjálfsagt grein fyrir þeim. En ég get ekki stillt mig um að benda á, að fleiri en við Sósíalistar hafa séð sér fært að koma fram með brtt. við 2. umr. Það gleður mig, að ekki hefur tekizt að handjárna menn svo í Sjálfstfl. og Framsfl. hér við 2. umr., að þeir hafi ekki komið með þær brtt., sem þeim hefur leikið hugur á.

Öll þessi óvenjulega meðferð fjárl. og þetta óvenjulega starf fjvn. er lærdómsríkt. Á sama tíma og Framsfl. og Alþfl. eru að tala um samstarf við okkur og látast vera að vinna að því að koma á þriggja flokka vinstri stjórn í landinu, þá leitast þessir flokkar við að bræða sig saman við Sjálfstfl. um afgreiðslu á þessu fjárlagafrv. Ég skal ekki segja neitt um það, hvort þetta er fyrir það, að einhverjir samningar séu komnir á milli þessara flokka. En á sama tín1a sem þetta gerist, bendir Morgunblaðið á það, að það sé útilokað, að nokkurt samstarf muni geta tekizt með þessum þremur vinstri flokkum, og telur sig færa rök fyrir því, að það sé útilokað fyrir Alþfl. og Sjálfstfl. að hafa samstarf við Sósíalista. Ég skal ekki spá neinu um það, hvort þeir vita meir en þeir segja og þeir séu búnir að fá einhver góð loforð hjá þessum flokkum. En dálítið er það einkennilegt, að á sama tíma sem Framsfl. og Alþfl. látast vera að leita samstarfs við Sósfl., skuli þeir koma fram gagnvart Sósfl. eins og raun ber vitni við afgreiðslu á þessu fjárlfrv. Ég vil endurtaka það til þeirra, að ef þeir búast við að geta haft samstarf við okkur, með því móti að við hlaupum frá öllum einstökum stefnumálum gegn því, að einhverju smávægilegu sé kastað í okkur í staðinn, en það séu þeir sem öllu ráði, þá taka þeir algerlega feil á okkur. Og það er bezt fyrir þá sjálfa, að þeir geri sér það ljóst strax.