18.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

Rannsókn kjörbréfa

Sigurður Kristjánsson:

Ég hafði gert ráð fyrir, að hæstv. forseti mundi bera þetta mál þannig upp, að hægt væri að greiða atkv. um það. Nú er svo með mig, að það er fjarri mínu skapi að greiða atkv. með því, að lygasaga sú, sem hv. þm. V. Húnv. dró upp úr vasa sínum og enginn veit, hvernig er þangað komin, fari til n. til rannsóknar. Ég mun því ekki greiða atkv. um gildistöku þessarar kosningar, ef jafnframt á að greiða atkv. um slíka smán sem það er fyrir Alþ., að þessi lygasaga fari til þingnefndar og sé þar rannsökuð. Ég vil því alvarlega skora á hæstv. forseta að bera kosninguna hreinlega upp hér og þá síðan, hvort menn vilja gera meiri eða minni sóma þessarar lygasögu.