11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram nokkrar brtt. við fjárlagafrv., sem fyrir liggur, ásamt nokkrum frv. þm. Áður en ég kem að þeim brtt., verð ég að víkja að einni brtt. hv. fjvn. Er það 54. brtt., við 16. gr., um það, að styrkur til Sambands sunnlenzkra kvenna falli niður. Það mun vera af einhverjum misgáningi hjá hv. fjvn., að hún leggur til, að þessi liður falli niður. Mér hefur að vísu verið sagt af hálfu n., að hún hafi flutt til þann lið og fært upphæðina á 58. liðinn, þ.e. „til Sambands sunnlenzkra kvenna, enda haldi það uppi námskeiðum fyrir húsmæður og húsmæðraefni“, eins og 58. liðurinn hljóðar um. Samband sunnlenzkra kvenna hefur um langt skeið haldið uppi slíkum námskeiðum og mun gera það framvegis meðan nokkur tök eru til, en því er algerlega haldið utan við fyrri liðinn. Hann er til allt annarra nota, og hentar ekki að blanda því saman. Mér finnst líka, að hv. fjvn. hafi missýnzt þar í fleiru, því að hún tvöfaldar tillög til annarra félaga, sem eru alveg sambærileg hvað starfsvið áhrærir, en við þessa liði báða, sem ég nefndi, bætir hún aðeins 100 kr., og skildist mér á einum hv. nm., sem mun hafa átt drjúgan þátt í þessu, að þar verði þær að búa við; og það kann nú að vera þakkar vert. En þó hygg ég, að bæði sá hv. nm., sem sagði mér þetta, og reyndar hv. fjvnm. allir aðrir, hafi ætíð sýnt meiri höfðingslund í framkomu sinni og gestrisni heldur en í þessari till. Og hygg ég nú, að þegar ég er búinn að upplýsa málið, þá taki fjvn. þessa till. sína aftur, 54. brtt., en láti seinni liðinn eigi að siður standa, því að þá er í hóf stillt og betur að farið og hv. fjvn. fremur sæmandi afgr eiðslan á þessu með því móti.

Þá kem ég að brtt., sem ég hef leyft mér að bera fram ásamt ýmsum hv. þm. Það er þá fyrst XV1I. liður á þskj. 410, þar sem ég er meðflm. hv. samþm. míns (EE), sem er fyrsti flm. þeirrar brtt. Liður þessi er um framlag til nokkurra brúa. Ég veit, að hv. 2. þm. Árn. gerir því máli full skil, og fer ég þess vegna ekki mikið út í þá brtt. Þess vil ég þó geta, að þessar brýr eru á vatnsföllum, þar sem að liggur þjóðvegur. Það er búið að byggja vegi sums staðar að þessum vatnsföllum, sem lagt er hér til, að brýr komi á, sums staðar nokkuð langa, eins og t.d. í Hrunamannahreppi, og Litla-Laxá eyðileggur umferð eftir veginum, svo að hann kemur að litlum notum nema um hásumarið, en bílar komast venjulegl ekki nema að Laxá. En nú er lagður vegur miklu lengra, og það er því mjög bagalegt fyrir menn, sem búsettir eru þar í sveit, að fá ekki brú á ána.

Um brúna á Hvítá hjá Iðu er það að segja, að Hvítá er stórt vatnsfall, sem klýfur læknishéraðið í tvennt, og stundum er áin gersamlega ófær á vetrum, og má fara nærri um, hve óþægilegt er, að ekki er hægt að vitja læknis yfir um ána, þó að líf liggi við. Hv. 2. þm. Rang. minntist á þetta mál nokkru frekar, og ætla ég því ekki að fjölyrða meira um það.

Þá flytjum við enn fremur, hv. 2. þm. Árn. og ég, aðra brtt., þá XX. á sama þskj., um framlag til ferjuhalds, að fyrir 7000 komi 7100, og í því skyni, að 100 kr. bætist við grunnstyrk ferjumannsins á Iðu, sem er ekki annað en sanngirniskrafa. Mundi þetta verða til samræmingar við það, sem aðrir fá, sem ferja yfir vatnsföll. Við brtt. berum við fram aths. um þetta, til þess að ekki komi til greina misskilningur um það, til hvers þessi viðbót er ætluð.

Þá er ég meðflm. að brtt. nr. XXXI á sama þskj., sem er um, að til leikfimishúss Menntaskólans á Akureyri verði veittar 55 þús. kr. Við flytjum þessa brtt. margir, og ég ætla aðeins að segja örfá orð um hana. Nú um nokkurra vetra skeið hefur leikfimikennsla Menntaskólans á Akureyri fallið gersamlega niður. Leikfimishús skólans er ónothæft, og skólameistarinn telur sér ekki hent, að nemendur Menntaskólans fái leikfimiskennslu í öðru húsnæði heldur en skólans sjálfs. Og hann telur það svo miklu varða, að hann hefur sagt við mig og vafalaust fleiri hv. þm., að í skólastjórnartíð sinni verði það ekki, að sínir nemendur verði sendir til leikfimisnáms í öðru húsnæði en skólans sjálfs. Skólameistarinn er tvímælalaust einhver mesti skólamaður þessa lands. Og ég ætla, að það sé trygging fyrir því, þegar hann hefur svo sterk orð, að nemendur sínir skuli ekki sækja nám í húsnæði annarra stofnana, þá hafi hann þar mikið til síns máls og óhætt sé að leyfa honum að ráða þar tilhögun um kennsluna. Ég vænti því, að hæstv. Alþ. verði við þessum tilmælum skólameistarans. Mér er meira að segja ekki grunlaust um, að það kunni að flýta fyrir því, að hann láti af sínu starfi, ef Alþ. fellst ekki á þessar óskir hans. Það er ekkert vafamál, að þeim unglingum, sem nám sækja í þennan skóla, er leikfimishús öldungis nauðsynlegt, og það er skólameistaranum alveg ljóst. En af því má þá líka sjá, að úr því að hann lætur nemendur sína ekki sækja nám sitt annað, hve ríka áherzlu hann leggur á það, að skólinn eigi sitt eigið leikfimishús.

Þá er ég meðflm. ásamt nokkrum öðrum hv. þm.brtt. um framlag til bændaskóla Suðurlands, um að byrjunarframlag til hans verði nú ákveðið á fjárl. 100 þús. kr., sem vonandi verður samþ. Og þó að ekki verði hafnar framkvæmdir á þessu ári til byggingar hans, þá virðist mér sjálfsagt, að þessi fjárveiting verði samþ. til skólans og féð geymt.

Þá hef ég flutt brtt. á sama þskj., nr. XXXVII, ásamt þeim hv. 2. þm. Árn. og hv. þm. Vestm., um, að styrkur til skóla Árnýjar Filippusdóttur verði hækkaður úr 5000 kr. í 7000 kr. Þessi merkiskona hefur stjórnað skóla sínum með hinum mesta myndarskap, og hann er meira en fullskipaður, því að um hann sækja miklu fleiri stúlkur en komast þar að. Hann starfar mikið af árinu, með námskeiðum meðal annars. Og ég hef þær spurnir af því skólahaldi, að skólinn gangi prýðilega og stúlkurnar sæki þangað bæði hagnýta menntun og mikinn fróðleik. Ég vonast eftir, að hv. þm. samþ. þessa brtt. Árný hefur lagt í mikinn kostnað til að stækka skóla sinn og hefur í hyggju að stækka hann enn.

Hún hefur raflýst skólahúsið og varið til þess miklu fé, og nú er í ráði að stækka skólann. Þetta væri aðeins lítill viðurkenningarvottur fyrir fórnfýsi hennar í starfi.

Þá ber ég fram brtt. um hækkun styrks til Bókmenntafélagsins. en hún er ekki komin fram enn þá, og læt ég því bíða að tala fyrir henni.

Enn ber ég fram XLIV. brtt. á 410 þskj. ásamt fimm mönnum öðrum um að hækka styrkinn til Fræðafélagsins til að gefa út jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns úr 1000 kr. í 15000 kr. Það er nú langt síðan byrjað var að gefa út þetta rit. Það er eitt gagnmerkasta rit okkar, og er þá mikið sagt. Mun nú vera búið að gefa út 9 bindi af því, og ef til vill 10, en eftir eru þá 3 eða 4. Með 1000 króna styrk á ári mundi það líklega taka tvo áratugi að ljúka verkinu, og teldi ég það ekki vansalaust þjóðinni. Upplagið hefur verið mjög lítið, ég held ekki neina um 300 eintök, vegna þess, hve Fræðafélagið hefur haft úr litlu að spila, og nú er svo komið, að þrjú fyrstu bindin eru uppseld. Það væri Alþ. til sæmdar að sýna nokkra rækt við útgáfu þessa rits, sem fjöldi manna hér á landi þráir að sjá. Að vísu nær ekki jarðabókin yfir landið allt, vegna þess að nokkuð glataðist af handritinn, eins og kunnugt er, og þann skaða fáum vér aldrei bætt, en tínt mun hafa verið saman úr öðrum ritum ýmislegt efni til að bæta þetta upp eftir föngum. Handritið mun vera að öllu leyti búið til prentunar. Þeir, sem að þessu hafa unnið, hafa lagt allt kapp á að ljúka verkinu og sýnt með því skilning á nauðsyn þess að flýta fyrir útkomu ritsins.

Hv. þm. A.-Húnv. hefur mælt fyrir LVI. brtt. á 410. þskj., sem hann er aðalflm. að, en ég flyt með honum ásamt tveim hv. þm. öðrum. Till. er um framlag til raforkusjóðs, 500000 kr. Þar í ég engu að bæta við það, sem hann sagði.

Þá á ég brtt. á sama þskj. LXXIX, um, að séra Guðmundi Einarssyni á Mosfelli í Grímsnesi verði Veitt nokkur ritlaun, er hann lætur af prestskap. Hann hefur nú verið lengi prestur og rækt það starf sem önnur af kostgæfni. Heilsa hans er þannig orðin, að hann mun ekki geta þjónað lengur og mun verða að hætta næsta vor. Hins vegar er hann slíkur eljumaður, að hann mun eiga bágt með að hafast ekkert að. Hann er merkur fræðimaður og hefur fengizt nokkuð við ritstörf, og leikur honum hugur á að fá að halda þeim áfram, meðan heilsa endist. En efnahagur hans er slíkur, að afkoma mun verða erfið, nema hann fái nokkra viðbót við þau litlu eftirlaun, er honum verða ætluð. Ég teldi vel til fallið að veita honum nú þennan viðbótarstyrk og gera honum þann v Ég hugarhægra og auðveldara að starfa. Ég efast ekki um, að hann mundi stunda verk sitt með kostgæfni, og gæti eflaust orðið að því nokkur ávinningur. Hv. Alþ. hefur oft sýnt skilning á svipuðum málum, og vona ég, að það felli ekki þessa till.

Þá er LXXXV. brtt. á sama þskj. um, að Vilborgu Ingimarsdóttur kennara verði endurgreitt tillag, er hún hefur greitt til lífeyrissjóðs embættismanna og barnakennara, og er þetta viðbót við 89. till. á 387. þskj. um sams konar endurgreiðslu til nokkurra manna, sem þar eru upp taldir. Hún var kennari á Húsavík árin 1926–1940, en lét síðan af kennslustörfum. Stendur eins á um hana og þá menn, er látið hafa af störfum í þjónustu ríkisins og hv. fjvn. leggur til, að fái endurgreitt tillag það, er þeir hafa greitt í lífeyrissjóð.

Ég hef þá með nokkrum orðum drepið á þessar till. mínar. Ég ætla ekki að ræða um till. annarra eða fjárl. í heild, enda munu margir eiga eftir að taka til máls.