11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Bjarni Ásgeirsson:

Ég á hér örfáar brtt. Ég ætla þá að byrja á þeirri, sem ég flyt ásamt öðrum á þskj. 411, það er um stofn- og rekstrarlán fyrir Handíðaskólann.

Það vill nú svo vel til, eins og frsm. þessarar brtt. ræddi um, að henni fylgir ýtarleg grg., o5 þótt sá siður sé sjaldgæfur, þegar um brtt. við fjárl. er að ræða, þá ætti það ekki að spilla fyrir.

Ég skal vera fáorður um þessa brtt. Ég segi aðeins það, að þessi skóli hefur þegar komið að svo miklu gagni, að hann hefur sannað tilverurétt sinn og á tilkall til sama stuðnings og aðrir skólar.

Þá er það brtt. á þskj. 410, VIII. liður, til ljóslækningastofu í Borgarnesi. Hún hefur verið þar undanfarið og notið 1000 króna styrks úr ríkissjóði, en nú er henni ekkert ætlað. Nú hafa mér borizt óskir um, að þessi styrkur yrði veittur eins og verið hefur, og hef ég átt tal um þetta við landlækni. Hann mælir með því, að þetta framlag fái að haldast óbreytt.

Þá er XXXIV. liður á sama þskj., 1000 króna styrkur til Skallagrímsgarðs í Borgarnesi, eins og verið hefur undanfarið. Þetta er skrautgarður, sem kvenfélagið í Borgarnesi hefur haldið uppi, og er hann á þeim stað, sem Skallagrímur er grafinn. Það vill nú svo vel til, að garður þessi er hinn hentugasti fyrir skemmti- og skrautgarð fyrir kauptúnið, og hefur verið varið miklu fé til að prýða hann undanfarin ár. Væri vel til fallið að halda að nokkru leyti uppi minningu Skallagríms á Borg, um leið og hjálpað væri til að styð ja þessa viðleitni. Líkt mætti eflaust segja um mörg önnur kauptún.

Þá er brtt. á sama þskj., XL. liður. Þótt ég sé ekki einn flm. þeirrar till., þá vil ég láta í ljós, að ég tel ærna þörf þeirrar hækkunar, sem þar er farið fram á.

Þá er XXXVI. brtt. á þskj. 419. Nýbýlastjórn hefur gefið þá skýrslu, að fyrir áramót hafi verið búið að sækja um byggingastyrki fyrir eigi minni upphæð en 400 þúsund. Í frv. er aðeins veitt 250 þúsund.

Nú höfum við hv. þm. A.-Húnv. farið fram ú, að varið verði allt að 100 þús. kr. til verðlagsuppbótar á endurbyggingastyrki til sveita, ef framlagið á 16. gr., 9. b. hrekkur ekki til.

Þó að þetta sé raunar allt of lítið framlag, þá tel ég mikinn styrk að brtt. hv. þm. Barð. um að framlag til bygginga á ríkisjörðum hækki um 100 þús., og væri þá hægt að veita af þeim lið til bygginga á ríkisjörðum og þjóðjörðum, en af endurbyggingastyrknum hefur orðið að taka undanfarin ár til þessara bygginga einnig, þar eð ríkið hefur vanrækt að byggja á jörðum sínum, þótt því sé það eiginlega skylt samkv. ábúðarlögunum.

Þá á ég LXVIII. brtt. á þskj. 410, 2000 kr. framlag til Ungmennasambands Borgarfjarðar til þess að gera vegabætur að íþróttamótsstað sambandsins við Ferjukot. Þessi staður er vel valinn, en sá galli er á, að að honum liggur þröngt einstigi, sem er hin mesta glæfrabraut.

Ég held ég hafi aldrei farið það óhræddur. Á aðra hönd er hár hamar, en Hvítá á hina hönd. Auk þess er þarna svo kröpp beygja, að bílar geta ekki mætzt þar. Þarna er þó mikil umferð að sumri til, og ég tel hreinustu mildi, að aldrei skuli hafa orðið slys þarna. Ég lofaði sjálfum mér því síðast er ég fór þarna um að sækja um styrk til þess að breikka þessa braut, ef ég slyppi lifandi.

Þá kem ég að stærstu brtt. minni, að veilt séu verðlaun 1. flokks refum á haustsýningu, mest 100 kr. fyrir hvert dýr, gegn því skilyrði, að verðlaunadýrin séu sett á vetur til undaneldis. Ég verð að fara nokkrum orðum um þetta, af því að mér finnst ekki gæta nægilega mikils áhuga á Alþ. fyrir framtíð þessarar atvinnugreinar. Á sviði loðdýraræktarinnar gætum við þó helzt orðið samkeppnisfærir á heimsmarkaðinum. Ekkert land stendur okkur þar framar um loftslag, og auk þess fellur okkur til mikið af ágætu loðdýrafóðri, einkum hestakjöti, sem er mjög ódýrt, auk 2. og 3. flokks kindakjöts, sem fellur til á hverju hausti og er mjög hentugt refafóður.

En við erum enn á eftir öðrum þjóðum með þennan atvinnuveg, sem árum saman hefur verið starfræktur erlendis. En það segir sig sjálft, að nú er hann þar að mestu í rústum, og verður þar að byrja á nýjan leik að stríðinu loknu eins og um margt annað. Ef við gætum á þessum tíma í millitíðinni bætt stofninn, þá stæðum við allra þjóða bezt að vígi til að framleiða skinnavöru, sem er eftirsóttust allra varna í tízkuklæði og kjólklæði. En þessi eftirsótta tízkuvara er dýrari en flestar aðrar, og mættum við búast við, að þetta yrði hin álitlegasta atvinnugrein, ef við kæmum upp 1. flokks stofni. Einnig skapaðist beint og óbeint markaður við þetta fyrir 2. og 3. flokks kjöt, og gæti það orðið stórt atriði fyrir okkur.

Ég er sannfærður um, að þetta gæti orðið arðvænlegur og blómlegur atvinnuvegur, sem gæti aflað okkur mikils gjaldeyris í framtíðinni.

En það á að bæta stofninn á þessu dauða tímabili. Það verður aftur gert bezt með því að setja aðeins á vetur 1. flokks dýr, og væri það gert, þá er ég sannfærður um, að við mundum fljótt eignast úrvalsstofn.

Nú sem stendur á þessi atvinnugrein erfitt uppdráttar, svo að hinn litli vísir að henni mun hrynja í rústir, ef ekkert er aðhafzt. Það má ekki verða þjóðarinnar vegna, sem á hér mikla möguleika fólgna í útflutningsverðmætum.

Við verðum því að leggjast á eitt til þess að styrkja og bæta stofninn.

Ég vil enn minnast hér á eina till. Þar er lagt til að heimila að verja 750 þús. kr. til að koma á bifreiðaferju yfir Hvalfjörð. Ég hygg, að það hefði verið óhætt að bíða með þetta, unz fyrir lægju upplýsingar, sem hægt væri að reiða sig á. Þetta mál hefur hingað til verið mjög lítið rætt, og er því djarft að bera fram till. um jafnmikil útgjöld sem þessi að órannsökuðu máli. Mér er það vel kunnugt, að það þyrfti meira en smáræðis upphæð til þessa fyrirtækis, ei það ætti að koma að notum. Þarna er geysimikið útfiri, og þyrfti því að smíða mjög stórar bryggjur báðum megin fjarðarins, og þær mundu kosta það mikið fé, að ég efast um, að sú upphæð, sem hér er lagt til, að verði lögð fram, nægi til hafnargerðar öðrum megin fjarðarins. Á firðinum er líka stundum mikið hafrót, og þarf því að búa vel um hafnargarðana, ei ferjan á að koma að fullum notum. Ég tel það mjög óráðlegt að fara að koma þarna upp löngum hafnargörðum auk ferjunnar sjálfrar. Málið verður áreiðanlega tryggilegar leyst á annan hátt, annað hvort með því að fara leiðina inn fyrir Hvalf jörð eða með því að bæta samgöngurnar á sjó frá Rvík til Borgarness og Akraness og veita ferðamannastraumnum þar um, en ég tel ferjuna yfir Hvalfjörð óheppilegustu leiðina.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég minnast aðeins á eina brtt., sem hv. þm. Barð. gerði að umræðuefni, en það er till. um að koma upp hrossaræktar stöð á Bessastöðum. Ég hef heyrt, að ýmsum þykir þessi till. hin mesta fjarstæða. En þessi jörð er einmitt mjög vel fallin til slíkrar starfsemi. Bessastaðanes er mjög heppilegt til útigöngu fyrir stóðhross, enda hefur það áður verið mjög notað til slíks. Staðurinn hefur einnig þann kost að vera mjög nærri Rvík, en þangað liggja leiðir manna alls staðar að af landinu, og þeir, sem vilja kynnast þessari starfsemi, eiga því hægara með að gera það þarna en annars staðar, sé tekið jafnt tillit til allra landsmanna. Auk þess verður nú hvort sem er að reisa nýjar byggingar á Bessastöðum, því að þær, sem fyrir eru, þykja ekki henta staðnum í sinni nýju mynd. Það mætti því nota tækifærið og byggja þar nú einnig hús yfir hrossaræktarstöðina, þar sem hvort sem er hefur verið ákveðið, að henni skuli komið upp. Ég sé ekkert á móti því, að búið sé á setri æðsta manns landsins, þar sem svona stöðvar eru erlendi, taldar með virðulegustu stofnunum landbúnaðarins, og ef það yrði hér rekið með þeim myndarskap, sem til er ætlazt. Hv. þm. Barð. gat þess, að bændur á Álftanesi hefðu notað Bessastaðanes til sumarbeitar fyrir kýr sínar. Nú upp á síðkastið munu bændur þar almennt hafa haft kýr sínar heima og beitt þeim á ræktað land, þar sem þeir hafa ekki talið það borga sig að kaupa beit fyrir þær, og mun hér því engu spillt. Ég held að ég hafi ná minnzt á þær brtt. sem ég á, og þótt ástæða væri til þess að minnast á fleiri, annaðhvort með eða móti, mundi það ekki bera mikinn árangur að tala um það yfir tómum stólunum, því að þótt þeir mundu ef til vill vera á mínu máli, ef þeir gætu talað, þá munu þeir ekki geta sannfært þá, sem á þá setjast, þegar til atkvæðagreiðslunnar kemur.