12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Gísli Jónsson:

Það er ákaflega athyglisvert á þessu þingi, að það hefur engin stjórn leitt þingið, og þess vegna hefur fjvn. verið það vald í þinginu, sem hefur verið leiðandi í fjármálum, og þá fyrst og fremst form. n., Finnur Jónsson, Og það kom ákaflega glöggt fram hjá honum hér í kvöld, að hann afsakaði allar sínar misgerðir með sínum pólitíska lit. Og ég vil aðeins vekja athygli þeirra fáu þm., sem hér eru eftir í salnum, á því, sem er árangur af þessu starfi, en það er 2 millj. kr. hækkun á útgjöldum fjárl. frá því úð sú hæstv. ríkisstj. skilaði fjárlagafrv. sínu. Hv. form. fjvn. telur þessa stjórn hafa verið hina eyðslusömustu ríkisstj., sem setið hafi við völd. Er það eins og tákn tímanna um það, hvernig fara mundi, ef þessir vinstri flokkar stæðu saman um stjórn ríkisins, þessir flokkar, sem unnið hafa saman eins og ein keðja í fjvn. þetta tímabil, þegar þeir hafa ekki haft neinn dragbít, til þess að stöðva ferðina í eyðslu átt. Þeir hafa ekki fundið neinar nýjar tekjulindir, en hækkað tekjuliðina til þess að sýna á pappírnum engan halla á fjárl. Aðrar leiðir hafa þeir ekki fundið.

Þegar einn af þessum háttv. þm., eins og 6. landsk. (LJós), leyfir sér að halda fram, að það sé alveg öruggt, að útflutningsgjaldið af togurum sé miklu meira en áætlað er, þá hefur honum ekki dottið í hug að kynna sér það, að miklu meira en helming af þessari 11/2 millj., sem greitt var í þetta útflutningsgjald frá því í ágúst, verður ríkissjóður að greiða það aftur, af því að hann hefur tekið það ranglega af þessum skipum. Útflutningsgjaldið hefur verið fyrst og fremst reiknað eftir l. frá 1935, en ekki eftir l. frá 1941, sem á að reikna það eftir. Eins og gjaldið hefur verið reiknað, hefur það verið 25 þús. kr. á skip, en ætti ekki á sama skip að vera meira en 5–8 þús. kr., — hvernig sem reiknað er, — ef eftir réttum l. er farið. Þessi tekjulind verður því ekki til þess að byggja fyrir neina vegi, ekki einu sinni norður í Vestur-Ísafjarðarsýslu.

Ég held það sé athugunarvert fyrir framtíðina, hvort það sé ekki rétt að breyta algerlega um starfsaðferð í fjvn. Ég get ekki ímyndað mér, að háttv. þm. þoli slíkt einræði framvegis, sem þar hefur átt sér stað, án þess að rísa á móti því. Það hefur verið tekin upp sú starfsaðferð í samvn. samgm., sem hefur verið form. n., háttv. 10. landsk. (GSv), til stórrar prýði. Hann hefur — með þeim erfiðleikum, sem hann hefur átt við að stríða, viðvíkjandi því að fá tekna inn alls konar þjóðvegi og brýr, — með alveg sérstökum skilningi og lipurð, komizt að samkomulagi við alla háttv. þm. um það, að þessu yrði deilt réttlátlega niður á kjördæmin. Ég held, að það væri ágætt nýmæli, að þingið yrði skipað þannig í framtíðinni, að hver einasta n. hefði með þau mál að gera, sem heyrðu undir hana, ekki aðeins ýmis ákvæði viðvíkjandi þeim, heldur líka að langmestu leyti fjárframlögin til þessara mála. því hvaða vit er í að láta sjútvn. ákveða eitthvað um hafnarmannvirki og vitabyggingar og láta svo fjvn. koma og gera þetta allt öðruvísi heldur en sjútvn. vildi vera láta? Ég er viss um, að ekki hefðu komið 10 eða 11 millj. kr. hækkunartill. á síðustu stundu, — sem mér virðist fjvn. hugsa sér að láta samþ. þegjandi og hljóðalaust, — ef þessi háttur hefði ekki verið hafður á. Og einmitt hefði þurft að gæta þessa nú, þegar enginn fjmrh. hefur aðstöðu til þess að setja bremsur á þann hraða, sem háttv. formaður fjvn. hefur farið niður sóunarbrekkuna á þessu þingi.

Ég vil þá aðeins nota tækifærið hér til að reka til bal:a þær fullyrðingar, sem háttv. þm. Ísaf. (FJ) notaði hér í sambandi við veginn til Barðastrandar. Hann talaði um, að ég ætti að snúa mér til samflokksmanna minna í fjvn. Það væri óverðskulduð árás á þá, sem ég talaði um í sambandi við, að ekki hefði verið meira réttlæti í þeim málum, og einnig á fyrrverandi fjmrh. En í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda a, að að vísu hafði fyrrv. fjmrh. ekki tekið upp framlög til þessara vega, eins og nú hefur verið fallizt á. En hvað tók fjmrh. mikið upp vegna vegar yfir Rafnseyrarheiði? Ekki eina krónu. Og hvað lagði svo vegamálastjóri til um þann veg? Að ekkert yrði lagt til hans. En vegamálastjóri lagði til, að 100 þús. kr. skyldu verða lagðar í Barðastrandarveg, og það var háttv. þm. Ísaf. kunnugt um. Svo leyfir hann sér að segja, að upplýsingar liggi fyrir frá vegamálastjóra um það, að þessi vegur kosti 1 millj. og 300 þús. kr., þegar staðreyndin er, að þar vestra kostaði á s.l. sumri kr. 18,50 hver metri, á móti því, að á vegum á Suðurlandsundirlendinu kostaði kr. 30 hver metri. Þegar formaður fjvn. leyfir sér að koma með svona rökleysur bara til þess að breiða yfir misfellur og misrétti milli héraða, þá gengur það langt fram yfir það, sem sæmilegt er fyrir mann sem slíkt vald hefur. Þessum vegi voru áætlaðar 160 þús. kr. 1941, og svo getur háttv. form. n. reiknað vísitöluhækkun síðan, en upp í 1 millj. og 300 þús. kr. kemst hann aldrei. Ég vil minna á skoðun hans og ummæli um byggingu á ríkissjóðsjörðum. Það var tekið vel í þau mál af form. Búnaðarfélags Íslands, háttv. þm. Mýr. (BÁ), svo og öðrum, sem hér hafa um það rætt. En háttv. form. fjvn. taldi ekki mikla ástæðu til að hækka þetta framlag. Hann álitur rétt, að ríkið eigi jarðirnar. En ef það er hans skoðun, hvers vegna vill þá ekki háttv. fjvn. leggja fram sómasamlega fúlgu til þessara mála? því að það getur ekki hvort tveggja verið rétt, að ríkissjóður eignist þessar jarðir, annaðhvort smátt og smátt eða allar í einu, og geri svo ekki skyldu sína um að hýsa þær, eins og hverjum jarðeiganda ber. Það væri sannarlega nauðsynlegt, eins valdamikill maður og háttv. þm. Ísaf. er á þessu þingi, að hann vildi skríða inn í einhverja af þeim kofum, sem eru á ríkissjóðsjörðum í Barðastrandarsýslu, til þess að sjá hvernig búið hefur verið undanfarið að þeim mönnum, sem þar búa. Svo þegar þessir menn leggja til, að byggt verði fjós á Álftanesi, þá má kosta 7500 kr. hver bás, — þá skil ég ekki hvernig þessir menn hugsa. því að það finnst mér ganga út yfir öll takmörk sanngirni, þegar fjvn. leggur til, að byggt verði fjós á kostnað ríkisins fyrir 150 þús. kr. yfir 20 kýr, þ.e. 7500 kr. á kú. Hvernig ættu bændur landsins að búa, ef básar þeirra kostuðu 7500 kr. fyrir beljuna?

Það hefði verið ástæða til að minnast hér á margt fleira, m.a. þann styrk, sem óskað er eftir, að veittur verði fyrir Húsavík. Það sýnir einmitt, hve nauðsynlegt þetta fyrirkomulag er, sem ég benti á, að það þyrfti að komast á samvinna milli fjvn. annars vegar og annarra n. þingsins hins vegar. Það er alveg nýlega búið að ganga frá breytingum á hafnarlögum fyrir Húsavík. Og þá voru færð að því gild rök, sem háttv. formælendur málsins felldu sig við og viðurkenndu, að það væri enginn greiði gerður Húsavík með því að leggja fram fé til þessarar hafnar. Staðurinn getur ekki staðið undir því að gera höfn á þann veg, heldur aðeins viturlegri byggingu, og með þeim skilningi voru l. afgr., að þetta mannvirki yrði ekki gert, fyrr en það þætti nokkurt vit í því að leggja í þann kostnað. Svo koma fram till. um, að sjálfsagt sé að leggja stóra fúlgu í þetta, einmitt nú á þessum tímum, meðan verkið yrði mjög kostnaðarsamt. Og ef þessi till. hefði komið fram við 2. umr., þá hefði hún farið í gegnum fjvn., einmitt á sama hátt og þær till., sem fóru það bara fyrir það, að þær komu nógu snemma fram. Byggi ég þetta á upplýsingum frá einum nm.

Það eru ýmsir aðrir liðir fjárl., sem ég hefði viljað benda á í sambandi við ýmsar till., m.a. Hvalfjarðarferjan. Ég var einn af þeim mönnum, sem skrifuðu undir þetta skjal, sem vitnað var í, þar sem farið var fram á rannsókn á því máli. En mér er fyllilega ljóst, eftir að hafa kynnt mér þetta mál hjá þeim mönnum, sem hafa haft þessa rannsókn með höndum, að það er ekkert vit í að svo stöddu að leggja fé í það fyrirtæki.

En fjvn. er svo stór upp á sig, að hún hefur ekki getað beygt sig undir það, — sem líklega flestar aðrar n. þingsins hafa gert, — hvorki að taka á móti þm. til viðtals, eftir munnlegri beiðni, né þótt þeir hafi sent beiðni um það í ábyrgðarbréfi til fjvn., svo að þeir gætu verið alveg vissir um, að n. hefði fengið kröfu um það, að þm. fengju að tala við þessa háttsettu og valdamiklu nefnd.

Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í að ræða um þessi mál, því að ég geri ráð fyrir, að afl atkvæða ráði nú um fjárl. Það hefur ekki oft verið hlustað á rök í þessari háttv. fjvn., og sízt er þess að vænta, að þau hafi nokkuð gildi, þegar fjvn. hefur lokað að fullu og öllu dyrunum. Það getur vel verið, að form. fjvn. taki til máls á eftir mér, en ég mun ekki kveða mér hljóðs aftur við þessa umr. og ekki tefja næturtíma þm., þótt mikil ástæða væri til að finna að mörgu í sambandi við þetta mál.