15.01.1943
Neðri deild: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

110. mál, ráðstafanir og tekjuöflun vegna dýrtíða og erfiðleika atvinnuveganna

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Eins og sjá má, er þetta framlenging á eldri l. Eins og segir í aths. við frv., þá hefur heimild sú, sem ríkisstj. var veitt í 3. gr. laga nr. 98 1941 til að fella niður aðflutningsgjöld af kornvörum, lækka tolla af sykri og hækka um helming tolla af áfengi og tóbaki, niður fallið um síðustu áramót. En þar sem það mundi hafa áhrif til hækkunar á þær vörur, ef þessi heimild væri ekki höfð áfram í I. og framkvæmd niðurfelling þessara gjalda af nauðsynjavörum þessum henni samkv., þá er ætlazt til, að þessi heimild fáist nú.

Ég vildi mælast til þess við hv. þd., að þetta mál gæti fengið heldur fljóta afgreiðslu, vegna. þess að tollafgreiðsla þessara varna, sem hér um ræðir, hefur þegar tafizt nokkuð, og er æskilegast, að sú töf yrði ekki úr hófi fram.