10.04.1943
Efri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

176. mál, samflot íslenzkra skipa

Frsm. minni hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. — Sjútvn. hefur haft þetta mál til athugunar og orðið á einu máli um það, að rétt sé að setja l. um samflot íslenzkra skipa, sem sigla milli Íslands og annarra landa. N. hefur einnig verið á einu máli um það, að rétt sé að koma þessum lagaákvæðum þannig fyrir, að þau komi að sem fyllstum notum, án þess þó, að að því sé stefnt að baka sjávarútveginum tjón eða sérstakt óhagræði með lagasetningunni. Um þessi grundvallarsjónarmið er sjútvn. sammála. Hið eina, sem n. greinir á í þessu sambandi, er það, hvernig þessu skuli fyrir komið, í einu atriði sérstaklega. Ég get þess vegna alveg sparað mér að ræða um nauðsyn þessara l., um það er enginn ágreiningur í þinginu, og mér skilst, að menn séu sammála um nauðsyn þess að setja um þetta l.

Það er tekið fram í grg. hæstv. ráðh. fyrir þessu frv., að frv. og reglugerðin, sem prentuð er með því, sé samið í samráði við fulltrúa stéttarfélaga sjómanna og útgerðarmanna. Sjútvn. hefur kynnt sér þetta atriði og rætt um það við fulltrúa þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, og það hefur upplýstst, að þeir, sem sérstaklega hafa samþykkt eða komið sér saman um þetta frv., það eru fulltrúar sjómannafélaganna í Rvík, Hafnarfirði og á Patreksfirði, svo og fulltrúar togaraútgerðarmanna og félag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda. En hins vegar liggur ekki fyrir sérstök samþykkt á þessu frv. frá útgerðarmönnum, sem ráða yfir fiskkaupaskipum eða línuveiðabátum. Það hafa þess vegna skipzt sjónarmið um þetta í n. Vegna þess að fulltrúar frá verulegum hluta af þeim einstaklingum, sem þetta varðar, voru búnir að koma sér saman um afgreiðslu málsins, var ekki ástæða til þess fyrir n. að fara að breyta neinu í því samkomulagi. Ég hef þess vegna ekki viljað ganga inn á það, að nein efnisbreyt. yrði gerð á frv. að svo miklu leyti sem það tekur til botnvörpuskipa. Ég skal hins vegar játa, að eins og frá reglug. og frv. er gengið, þá eru þar á nokkrir gallar, að því leyfi sem málið snýr að fiskkaupaskipum. Fiskkaupaskipin hafa þá aðstöðu, að það kynni að verða óþægilegt fyrir þau að þurfa í hvert skipti að leita eftir því til Rvíkur, er þau þurfa að fá undanþágu frá samfloti. Hvort sem undanþágur verða veittar eða ekki, hefði ég fyrir mitt leyti getað fallizt á það, að af þessu kynnu að stafa óþægindi fyrir útgerðarmenn þessara skipa. Mér er þess vegna ljóst, að það er nauðsyn á því að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að hægt sé að veita og afgreiða undanþágur fyrir útgerðarmenn þessara skipa, án þess að stöðvun þurfi að verða vegna þess, að það þyrfti að fá samband við n. í Rvík. Ég geri ráð fyrir því, ef fulltrúar frá fiskkaupaskipunum hefðu komið nær þessu en raun varð á, þá mundi hafa verið fyrir þessu séð í frv. eða reglugerðinni. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að þessi á,alli á frv. stafar af því, að þessir aðilar hafa ekki haft umboðsmann með fullt umboð til þess að taka þátt í undirbúningi þessa máls. Mér er það líka ljóst, að erfiðleikar eru á því að ganga frá því, hvernig þessar n. úti á landi, sem eiga að afgreiða þessar undanþágur, eigi að vera skipaðar. Ég er sammála meiri hl. n. í því, að það þurfi að vera menn í öllum þeim höfnum landsins, sem heimild hafa til þess að afgreiða þessi skip til utanlandssiglinga, menn, sem geta, ef ekki er hægt að hafa samband við n. í Rvík, afgreitt þetta mál upp á sitt eindæmi. En ég held, að það þurfi að athuga það vel, áður en frá því er gengið, hvernig þessi n. eigi að vera skipuð. Ég teldi rétt, að það væri gert í samráði við útgerðarmenn og fulltrúa sjómanna, hvernig þetta atriði yrði afgreitt. Ég fyrir mitt leyti hefði talið það næga tryggingu í þessu efni, ef aftan við 2. gr. frv. kæmi sú viðbót, að fyrir því yrði séð í reglugerð, að beiðni um undanþágur væri hægt að afgreiða án tafar á þeim stöðum í landinu, sem hefðu heimild til þess að afgreiða þessi skip. Mér finnst þetta nokkuð mikið vandamál og tel því ekki rétt að flana að neinu í því sambandi. Mér finnst sú till., sem meiri hl. hefur komið með til lausnar á þessu atriði, einmitt benda til þess, hvað hætt er við því, að menn geti leiðzt út í að afgreiða málið á óheppilegan hátt, ef þetta er ekki nægilega athugað. Eins og frá till. meiri hl. n. er gengið, er þetta mjög óheppilegt. Meiri hl. leggur til, að skipaðir séu 2 menn á hverjum stað til þess að hafa þessi mál með höndum, annar sé fulltrúi sjómanna, hinn fulltrúi útgerðarmanna, og þessu er ég út af fyrir sig sammála. En svo bætir meiri hl. því við, að verði aðilar ekki sammála, þá eigi að kalla til lögreglustjóra staðarins, og hann eigi að gefa úrskurð um þetta. Það er ekki að neinu leyti vantraust á lögreglustjórunum, sem þarna eiga hlut að máli, þó að ég verði að segja, að ég held, að þeir séu manna óhæfastir til þess að gefa úrskurð um ágreining eins og þarna gæti verið um að ræða. Þeir staðir, sem hér er sérstaklega um að ræða, eru Vestmannaeyjar, Akureyri, Siglufjörður og Rvík. Þó að lögreglustjórarnir á þessum stöðum séu að sjálfsögðu prýðilegir menn, þá held ég, að það liggi svo fjarri þeirra verkahring að gefa úrskurði um þetta, að þeim sé þess vegna ekki felandi að leysa þetta starf af hendi. Auk þess, sem á sumum þessum stöðum, sem hér koma til greina, eru engir lögreglustjórar til, eins og t.d. á Hornafirði. Ég vil því mæla eindregið með því, að mín till. verði tekin upp í frv., og það verði þannig ákveðið, að fyrir því skuli séð í reglugerð, að hægt sé úti á landi að afgreiða þessar undanþágubeiðnir viðstöðulaust. En að þeim, sem gefur út reglugerðina, sé í sjálfsvald sett, hvernig hann afgreiðir þetta, og sé þetta gert í samráði við fulltrúa sjómanna og útgerðarmanna. Aðrar brtt., sem meiri hl. n. hefur tekið upp í frv., vil ég ekki fallast á, vegna þess að þær eru í ósamræmi við það, sem þeir aðilar, sem þetta mál snertir mest, hafa komið sér saman um. Fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna í Hafnarfirði, Rvík og á Patreksfirði hafa samið með sér um það, hvernig sú n. eigi að vera skipuð, sem afgreiðir undanþágurnar. Mér finnst ekki rétt fyrir hæstv. Alþ. að vera að ganga fram hjá því samkomulagi, þegar ekkert liggur fyrir um það, að aðilar óski eftir, að því samkomulagi verði breytt. Mér er kunnugt um það, að breyt. meiri hl. eru sjómannafélögunum mjög á móti skapi og eru gerðar í fullri óþökk þeirra. Um afstöðu útgerðarmanna er mér hins vegar ekki kunnugt. Ég vil líka benda á það, að ég tel það mjög óheppilegt að færa út ákvæði l. gr. frv. frá því, sem gert er í frv. sjálfu. Í frv, er lagt til, að ríkisstj. geti ákveðið með reglugerð, að íslenzk skip eða önnur skip leigð eða gerð út af innlendum mönnum eða fyrirtækjum, er sigla milli Íslands og Stóra-Bretlands, skuli sigla tvö saman eða fleiri báðar leiðir. Samkv. þessari gr. er ríkisstj. heimilt að gefa út um þetta reglugerð, sem nær til allra skipa. En samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar er gert ráð fyrir því, að þetta nái eingöngu til þeirra skipa, sem sigla með ísvarinn fisk milli Íslands og Stóra-Bretlands. En meiri hl. n. leggur til, að 1. gr. reglugerðarinnar sé tekin upp í frv. og beinlínis svo ákveðið, að öll skip, sem sigta milli Íslands og Stóra-Bretlands, skuli sigla saman. Mér er ekki fullkomlega ljóst, hvers vegna meiri hl. hefur séð ástæðu til þessarar útfærslu á frv., en mér er ekki grunlaust um, að þetta kunni að geta skapað einhver óþægindi. En væntanlega getur hæstv. atvmrh. upplýst það hér á eftir. Þá sé ég, að n. hefur í þessari breyt. bætt inn einu orði, sem mér er ekki fullkomlega ljóst, hvort á að vera efnisbreyt. eða ekki. Þetta er orðið „sambærilegt“. Þar stendur: „Þó er heimilt að veita undanþágu frá þessum ákvæðum, ef upplýst er, að ekkert sambærilegt skip“ o.s.frv. En í reglugerðinni er orðið „sambærilegt“ ekki tekið með. Mér er ekki fullkomlega ljóst, hvort fyrir meiri hl. n. vakir að gera þarna efnisbreyt. á frv. eða ekki.

Ég vil undirstrika það, sem ég sagði hér áðan, að ég vil ekki fallast á, að gerðar séu breyt. á frv., að svo miklu leyti sem frv. tekur til þeirra aðila, sem beinlínis hafa komið sér saman um lausn þessa máls. En að svo miklu leyti sem frv. tekur til annarra aðila, sem ekki hafa um þetta samið og talið er, að muni hafa óhagræði af þessu frv., ef að l. verður, þá tel ég fyrir mitt leyti sjálfsagt, að í 2. gr. séu sett ákvæði til öryggis, þannig að svo sé frá undanþáguákvæðinu gengið, að þeir, sem um undanþágur sækja í þessu efni, þurfi ekki að bíða eftir svari. Ég tel óheppilegt, að því sé slegið föstu, hvernig þessa n. skuli skipa.