09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Áki Jakobsson:

Herra forseti. — Ég flyt hér með hv. 6. landsk. á þskj. 687 og 688 brtt. við brtt. hv. fjhn. við frv. til l. um dýrtíðarráðstafanir, og vil ég nú gera nokkra grein fyrir þeim.

Það er þá í fyrsta lagi brtt. við 17. tölul. í brtt. fjhn., um verðákvörðun á landbúnaðarafurðum og uppbætur til bænda, vegna þeirra ráðstafana, sem þar er gert ráð fyrir, að gerðar verði. Fjhn. gerir ráð fyrir, að verð á mjólkurlítra verði 1.30 kr. og á kjötkg. 4.80 kr. út til neytenda, en að það verði svo verðbætt til bænda með framlagi úr ríkissjóði. Við höfum hins vegar lagt til, að verðið á þessum vörum verði ákveðið með því að bæta 45% við verðið, sem á þeim var í jan.–marz 1939, ásamt verðlagsuppbót samkv. vísitölu framfærslukostnaðar, þó ekki hærri vísitölu en 220. Þessi ákvæði eru miðuð við það að reyna að láta bændur og verkamenn njóta svipaðs réttar. Það er í alla staði eðlilegt að miða við 45% hækkun á grunnverði. Ég vil í því sambandi benda á, að samkv. nýjustu búreikningaskýrslum kemur í ljós, að um 78% af brúttótekjum bænda ganga á einn eða annan hátt til vinnulauna. Hér er um að ræða 58% hækkun á þessum lið, og er þá ekki ósanngjarnt að ákveða þetta útsöluverð eins og við höfum lagt til. Útsöluverð mjólkur verður með þessum hætti ca. 21/2 eyri lægra pr. lítra en gert er ráð fyrir í till. n., þannig að mjólkurlítrinn kemur til með að kosta um 1.271/2 kr. Með okkar till. fæst því heldur meiri lækkun en hjá n. Í 2. mgr. brtt. okkar eru svo settar reglur um þær uppbætur, sem bændum skulu greiddar, um leið og verðið lækkar. Það er og gert ráð fyrir að verðbæta allar þær kjötbirgðir, sem til verða í landinu, þegar þessi l. ganga í gildi. Hvernig skuli verðbæta mjólkina er erfiðara við að eiga, þar sem hún er framleidd jafnóðum, en það er gert ráð fyrir, að til 15. maí verði borguð uppbót á hana með 1.75 kr. pr. litra, en frá þeim tíma verði hún bætt upp þannig, að bændur fái sama verð fyrir hana og þeir mundu fá, ef hún væri seld með 45% grunnverðshækkun, miðað við söluverð 1939 og auk þess verði greidd á hana verðlagsuppbót samkv. vísitölu þess tíma. Með þessum hætti verða uppbæturnar mjög svipaðar og fjhn. leggur til, en þær jafnast öðruvísi niður á mánuðina. Auk þess leggjum við til, að uppbæturnar v erði aðeins að hálfu leyti greiddar í réttu hlutfalli við magn seldrar vöru, en að hinn helmingurinn verði greiddur óskiptur til bænda, sem höfðu minna en meðalárstekjur (nettó) 1942, og skuli þær greiðslur fara stighækkandi í öfugu hlutfalli við tekjurnar. Með þessu á að tryggja smábændunum, sem hafa mesta þörfina, það miklar uppbætur að þeir þurfi ekki að stöðva framleiðslu sína vegna verðlækkunarinnar, en aftur er tekið ofurlitið af kúfnum hjá þeim stærstu, sem betur þola skellina.

Auk þessa höfum við lagt til, að lagðar verði 3 millj. kr. í sjóð til eflingar íslenzkum landbúnaði. Það kunna nú sumir að segja, að þegar búið sé að greiða mjög mikið fé til styrktar íslenzkum landbúnaði, og það er nokkuð til í því, en það fé hefur ekki komið að tilætluðum notum. Ég býst ekki við því, að þjóðin horfi í það, þótt bændum sé það mikill styrkur, að þeir geti lifað við sæmileg lífsskilyrði, og veit að verkamenn gera það ekki, en þeir horfa að vonum sárum augum eftir þeim upphæðum, sem kastað er, án þess að nokkuð sjáist eftir þær.

Með þessum 3 millj. kr. sjóði er gert ráð fyrir, að stofnað verð til gerbreytingar á skipulagsþáttum landbúnaðarins. Það þarf m.a. að færa saman byggðina og gefa bændum þannig kost á að nota sér hina auknu afkastagetu og bætta möguleika til þess að hagnýta sér vélar við framleiðsluna auk annarra kosta, sem þéttbýlið hefur. Með þessu er miðað að því að bæta lífsskilyrði bænda og lækka um leið framleiðslukostnaðinn á vörum þeirra, en þetta mun hvort tveggja vera hægt og er þetta því til mikilla hagsbóta fyrir þjóðina, sem þarf mjög á landbúnaðarvörum að halda. Það er mjög óeðlilegt að etja bændum og launastéttunum hverjum gegn öðrum og stofna til úlfúðar þeirra á milli. Ekkert er eðlilegra en brautir bænda- og verkamanna liggi saman, enda þótt þeir taki tekjur sínar á mismunandi hátt. Ég veit, að það er í fullu samræmi við vilja verkamanna, að lyft verði undir landbúnaðinn, þannig að bændum verði sköpuð betri lífsskilyrði svo að þeir flosni ekki upp og hrúgist á mölina, heldur geti verið kyrrir í sveitunum og framleitt nauðsynjavörur þjóðarinnar sem ódýrast. Lausnin á þessu vandamáli hefur verið eitt af erfiðustu viðfangsefnum þjóðarinnar og einn brattasti hjallinn í baráttunni við dýrtíðina. Þessi mismunur á því, hvernig bændur og verkamenn taka tekjur sínar, hefur valdið miklum erfiðleikum á að koma niður dýrtíðinni, en ég er viss um, að ef þjóðin hefði fyrr farið inn á þá braut, sem við nú leggjum til, þá hefði ekki allt hlaupið í þann baklás, sem það nú situr í, í baráttunni við dýrtíðina. Ég vil og benda á það, að það er mjög varhugaverð skoðun, sem sumir ef til vill hafa, að það sé hægt að leysa dýrtíðarvandamálið á kostnað verkamanna eða bænda og á þeim grundvelli sé reynt að fá annan hvorn aðilann upp á móti hinum. Stærsti kosturinn á till. fjhn. er einmitt sá, að ætlazt er til, að þessar stéttir semji sín á milli, en leggi ekki til orustu: Að því leyti má alls ekki víkja út af þeim grundvelli, sem fjhn. hefur markað. Það má þar ekki fara eftir till. ríkisstj. og ekki eftir till. alþfl.-manna, sem leggja til að lögbinda afurðaverðið, en ekki kaupgjaldið. Slíkt hlýtur alltaf að leiða til ófriðar og óhags fyrir verkamenn, og það hlýtur að leiða til þess, að kaupgjaldið verði þá einnig lögþvingað fyrr eða síðar.

Þá er það síðasta mgr. brtt. við 17. tölul., um álagningu. Nú þegar vísitalan lækkar svo sem búizt er við og þar með tekjur launafólks og bænda, þá er það- óeðlilegt, að þeir; sem taka tekjur sínar með álagningu, haldi áfram að taka sömu tekjur eins og áður. Við leggjum því til, að lagt verði fyrir viðskiptaráð að setja ný ákvæði um hámarksálagningu í samræmi við lækkaðan kostnað. Það er nauðsynlegt, að samtímis því sem tekjur launþega og bænda eru lækkaðar, þá séu og lækkaðar tekjur þeirra, sem taka þær með álagningu. Það er mjög erfitt að setja ákvæði um þetta í hundraðshlutum, og verður viðskiptaráð því að reyna að finna einhverja heppilega lausn á þessu.

Þá eigum við hv. 6. landsk. og till. á þskj. 688, sem er viðaukatill. Hún fjallar að ýmsu leyti um sama efni og till. hv. 2. þm. S.-M. og hv. 2. þm. N.-M., um skattaákvæði. Í frv. eins og það kom frá ríkisstj., voru ákvæði um þetta í I. kafla frv. og víðar, en fjhn. hefur lagt til, að meginið af þessum skattaákvæðum verði fellt niður. Við teljum óeðlilegt, að þetta komi fram í því formi, sem það er í frv. Við teljum eðlilegt að halda sér við þann grundvöll, sem fjhn. hefur markað, og fyrst og fremst beri að afgreiða sjálfar lækkunartill., og höfum við því flutt þessa till. sem viðaukatill. við 18. tölul. í till. fjhn., sem felur í sér efnislega breyt. á frv. sjálfu. Í till. hv. 2. þm. N.-M. og hv. 2. þm. S.-M. er gert ráð fyrir, að tekjur ríkissjóðs verði látnar renna í framkvæmdasjóð ríkisins, en ég tel réttara að leggja þær sem stofnfé í alþýðutryggingar. Nú er í ráði að gera miklar breyt. á alþýðutryggingunum, og hefur n. verið skipuð til þess að undirbúa það mál. Enginn efi er á, að þessar breyt. verða mjög kostnaðarsamar, en víst er, að fátt er eins varanlegt fyrir þjóðina eins og varanlegar alþýðutryggingar, og þessu fé verður ekki betur varið. Ég er á móti því, að þessar tekjur verði notaðar í eyðslufé, en ég er að því leyti samþykkur till. hv. 2. þm. N.-M. og hv. 2. þm. S.-M., að ég vil, að fénu verði varið í alþjóðarþarfir, en ekki sammála þeim um, í hvað féð skuli fara.

Það er efnisbreyt. í till. okkar hv. 6. landsk. frá till. hinna tveggja hv. þm., að því leyti, að þeir vilja, að þeir skattþegnar, sem sjávarútveg stunda, fái að leggja 1/6 af skattskyldum tekjum í nýbyggingarsjóð, eftir að þær eru orðnar 1 millj., en við leggjum til, að þegar tekjurnar eru orðnar svo háar; þá sé ekki ástæða til að leyfa þennan frádrátt. Hitt eru frekar formsbreytingar, sem skipta minna máli. Þessar till. okkar eru viðbót við till. fjhn., og því legg ég áherzlu á, að atkvgr. fari fram á eftir till. fjhn.

Ég minntist áðan á till. hæstv. ríkisstj. Ég hygg, að ekki skipti miklu máli um skipun n. þeirrar, sem á að reyna að komast að samkomulagi, ef hún aðeins er skipuð fulltrúum beggja aðila. Annað skiptir litlu máli, t.d. hvort hún er öll skipuð af hæstv. ríkisstj., en gæta verður þess, að í henni eigi sæti fulltrúar bænda annars vegar og verkamanna og annarra launamanna hins vegar, því að ef þessar stéttir eiga ekki fulltrúa í n., þá er tilgangslaust að skipa hana.

Þá er í c-lið brtt. hæstv. ríkisstj. á þskj. 651 gert ráð fyrir að lögbinda bæði verð landbúnaðarafurða og það, sem bændum er veitt fyrir vörur og kaup launamanna. Það hefur margoft verið bent á, að tilgangslaust sé að fara inn á þessa braut, og ég er hræddur um, að hæstv. ríkisstj. sé ekki ljóst, hvað það er, sem hún fer þarna fram á. Með þessu mundi hún skapa óeirðir, sem hún mundi ekki ráða við, og þess vegna þýðir ekki að fara inn á þessa braut. Hið eina, sem getur dugað, er samkomulagsleiðin, og ég vil taka fram, að ég er andvígur því, að farið verði inn á þessa braut nú, enda þótt hægt verði að lögbinda afurðaverð til bænda. Við viljum, að samkomulagsleiðin sé reynd við bændurna, en ekki, að þeir séu beittir bolabrögðum, því að bændur og verkamenn eiga að vinna saman gegn hinum sameiginlega óvini, sem á þá ræðst. Ég vil þess vegna vara við till. hæstv. ríkisstj., og mér finnst í hæsta máta undarlegt, að Alþfl. skuli vilja taka þá ábyrgð á sig að ganga inn á þessa braut, því að það á ekki að siga þessum tveimur stéttum saman, heldur eiga þær að vinna saman.

Það hefur borizt í tal, hvernig skuli bera upp þær brtt., sem fyrir liggja. Mér finnst ekkert efamál, að brtt. hv. fjhn. eigi að koma fyrst til atkv., á undan brtt. hæstv. ríkisstj. Það væri óeðlilegt, ef brtt. hv. n. yrðu ekki bornar upp fyrst, því að þær fela í sér meginmál þess, sem hér er um rætt. Aftur á móti eru till. hæstv. ríkisstj. þannig, að þær missa tilgang sinn, nema þær séu bornar upp allar í einu lagi.