09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég þarf ekki að eyða fleiri orðum að því, að það er leiður misskilningur hjá hv. þm. Siglf., ef ekki annað verra, ímyndi hann sér, að einhver eðlismunur sé á brtt. hans og okkar alþflokksmanna, að því er snertir bráðabirgðaákvörðun verðlags á landbúnaðarafurðum. En þegar hann var neyddur til að hörfa úr þessu vígi, leitaði hann í annað vígi til að gera till. okkar tortryggilega. Hann sagði, að við vildum koma því til vegar með henni, að verkamenn nytu ekki þessa þriggja millj. sjóðs, sem um ræðir í till. hv. fjhn. En þetta er auðvitað ekkert annað en fjarstæða, því að till. hv. fjhn. kemur eftir sem áður til atkv., þó að okkar tili. verði samþ.

Hv. þm. V.-Sk. veik hér nokkrum orðum að því, sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Fram hjá því verður ekki gengið, hvað sem hv. þm. segir, að mikill munur hefur verið á verðlagsákvörðunum, að því er snertir afurðir bænda, og ákvörðun á kaupgjaldi verkalýðsins síðustu árin. Þeir, sem einkum telja sig fulltrúa bænda hér á þingi, hafa óskað þess, að sett væru l. um það, hvernig ákveða skyldi verð á innlendum landbúnaðarafurðum. Nú skal ég ekkert um það fullyrða, hvort þær reglur, sem um þetta hafa verið settar, eru réttlátar eða ekki. Aðalatriðið er, að fulltrúar bænda hafa farið aðrar leiðir í þessum efnum en fulltrúar verkamanna, og má vel vera, að fulltrúar bænda hafi farið réttar leiðir. En staðreyndin er sú, að þeir hafa fengið samþ. löggjöf um að taka úr höndum bænda ákvörðun verðlags á þeirra eigin framleiðsluvörum. Ef sú löggjöf væri afnumin, stæðu bændur í sömu sporum og verkamenn; hvað þetta snertir. Fulltrúar bænda hafa ekki óskað þess; að það væri gert. En meðan þeir óska eftir afskiptum löggjafarvaldsins af afurðasölunni, ætti það engin goðgá að vera, þó að hið pólitíska vald ákvæði, að verðið skyldi vera tiltekið um stuttan tíma, á meðan verið væri að leita samkomulags um málin, enda verður ekki annað séð en hér eigi hugmyndin um bráðabirgðaákvörðun verðlags mikið fylgi. Hæstv. ríkisstj. segir í sínum brtt.: „Meðan l. þessi eru í gildi, mega kjötverðlagsn., mjólkurverðlagsn. og verðlagsn. Grænmetisverzlunar ríkisins ekki ákveða hærra verð á landbúnaðarafurðum en l. þessi mæla fyrir um.“ Og í brtt. hv. fjhn., sem í eru fulltrúar allra þingflokka, segir svo: „Þar til verð landbúnaðarvara verður ákveðið samkvæmt fyrirmælum 4. gr., er ríkisstj. heimilt að ákveða verð þeirra þannig:“ o.s.frv. Loks segir í brtt. á 687. þskj. frá tveim fulltrúum sósíalista: „Þar til verð landbúnaðarvara verður ákveðið samkvæmt fyrirmælum 4. gr., skal ríkisstj. ákveða verð þeirra þannig:“ — o.s.frv. Það er því greinilegt, að fulltrúar allra flokka hafa lagt til, að þessi skipun verði höfð, þó að ég haldi því ekki fram, að flokkarnir hafi staðið að þessu óskiptir. En á meðan þetta er lagt til af fulltrúum allra flokka á þingi, er að minnsta kosti ekki rétt að segja, að einn flokkur öðrum fremur vilji beita bændur ofbeldi í þessum efnum, og ættu menn heldur að snúa sér að öðrum þáttum þessa mikilsverða máls og hætta að deila um þetta.