10.04.1943
Neðri deild: 96. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Ég vil fyrst minnast á brtt. frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM) á þskj. 15. Í fyrstu till. á þskj. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. verði heimilað, að fengnu samkomulagi við félagasamtök launþega, að ákveða, að í næsta mánuði eftir, að lög þessi öðlast gildi, skuli greiðsla verðlagsuppbótar á kaupgjald og laun fara fram eftir þeirri vísitölu, sem byggð er á verðlaginu fyrsta dag þess mánaðar. Í frv., eins og það liggur fyrir nú, er þessu ákvæði þannig háttað, að þar er svipuð heimild til handa ríkisstj., að fengnu samþykki Alþýðusambands Íslands, og annarra samtaka launamanna. Mér sýnist nú það ákvæði, eins og það er í frv., vera ófullnægjandi. Og mér virðist ekki þessi brtt. bæta þar mjög mikið úr, þó að kannske megi segja, að hún sé heldur nær því að vera nothæf en ákvæðið í frv. En tveir gallar eru á þessari brtt. Í fyrsta lagi er ekki til tekið af þingsins hálfu, hver séu þau samtök launamanna, sem ríkisstj. beri að leita til. Getur því orðið endalaust þref um það, til hvers þingið hafi ætlazt í þessu efni. Hinn gallinn er sá, að þó að samkomulag kynni að takast um það milli ríkisstj. og samtakanna, þá skortir heimild til þess að gera það samkomulag gildandi almennt fyrir þá, er laun taka í landinu. Ég vil því leyfa mér að flytja um þetta efni skrifl. brtt. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórninni er heimilt að ákveða, að fengnu samkomulagi við Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, að greiðsla verðlagsuppbótar á kaupgjald og laun fari fram eftir þeirri vísitölu, sem byggð er á verðlaginu 1. dag þess mánaðar, eftir að lög þessi öðlast gildi.“

Að öðru leyti vil ég segja það um brtt. hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að mér virðist svo sem ein þeirra sé til bóta, en hún er að efni til eins og till. frá hv. 2. þm. Skagf. Till. fjallar um að semja skuli við Búnaðarfélag Íslands í sambandi við afurðasölulækkunina.

Ég sé ekki ástæðu til að gera að umtalsefni hinar brtt. að öðru leyti en því, að mér finnst 2. brtt. vera til hins verra frá því, sem í frv. er ákveðið (PZ: Kemst hún að? Ég dreg það í efa).

Þá vil ég víkja að brtt., sem hér eru fluttar á þskj. 710 af hv. 6. landsk. (LJós) og hv. þm. Siglf. (ÁkJ). Fljótt á litið munu ýmsir álita, að þessar brtt. séu réttmætar. Telja það réttmætt að ákveða í frv., að afurðaverð, mjólkurverð t.d., skuli alls staðar lækka í sömu hlutföllum og ákveðið er, að það skuli lækka hér í Rvík. En málið er ekki eins einfalt og hv. 6. landsk. þm. vildi halda fram. Þannig er ástatt að sumsstaðar á landinu hefur mjólkurverðshækkunin orðið miklum mun minni en í Rvík. Sumsstaðar á mjólkurverðlagssvæði Rvíkur stafar þetta beint af markaðsskilyrðum. Hins vegar hafa launamenn á þessum svæðum allsstaðar fengið kaupgjald sitt hækkað í samræmi við mjólkurverðshækkunina í Rvík, en ekki þá mjólkurverðshækkun, sem hefur orðið á þessum stöðum úti um landið. Launamenn hafa þess vegna í raun og veru hagnazt sumsstaðar vegna þess, hvernig ástatt hefur verið að þessu leyti. Ég tók fram, að sumsstaðar hafi þetta stafað af markaðsskilyrðum. Þótti ekki fært að færa mjólkina eins upp eins og í Rvík, þó að það hefði verið eins réttlátt frá sjónarmiði framleiðendanna á þessum svæðum að gera það eins og hér um slóðir. Ég lít því svo á, að það eigi ekki að slá því föstu, sem till. á brtt. á þskj. 710 um mjólkurverðlækkunina fer fram á, heldur láta þetta vera á valdi ríkisstj. eins og það er í frv. Það er byggt á misskilningi, sem hv. 6. landsk. þm. (LJós) hélt fram, að gengið yrði á hlut þeirra, sem taka kaup, ef till. er ekki samþykkt, af því að laun hafa alls staðar verið miðuð við þá mestu mjólkurhækkun, sem orðið hefur, þ. e. hér í Rvík.

Þá vil ég hér aðeins víkja að ræðu hv. 2. þm. Rang. (IngJ). Hann sagðist líta svo á, að með þeirri samþykkt, sem hér var gerð í nótt, — þ.e.a.s. með því að samþ. þá brtt., sem nú er orðin, næst síðasta greinin eða síðasta greinin í dýrtíðarfrv., eins og það liggur fyrir, þ.e.a.s. um varasjóði hlutafélaga, — hafi samvinnufélög verið svipt þeim rétti, sem þau hafa í löggjöfinni, til að draga frá tekjum sínum skattfrjálst 1/3 hluta af hreinum tekjuafgangi, ef þau leggja fjárhæðina í varasjóð. Það er ekki vafi á því, að þetta er algerlega rangur skilningur hjá hv. 2. þm. Rang. og styðst ekki við neitt í því, sem fyrir liggur um málið. Það er sem sé alveg greinilega tekið fram í þessari breyt., sem gerð var á næst síðustu gr. laganna, að þau ákvæði eldri skattal., sem ekki er hróflað við í till. sjálfri, standa, enda leiðir það af sjálfu sér. Það er ekki neitt hróflað við þessum réttindum, eins og báðir hv. flm. þessarar brtt. gerðu ýtarlega grein fyrir í framsögu málsins af sinni hálfu. Mig furðar þess vegna á því, að hv. 2. þm. Rang. skuli verða til þess að halda þessari fjarstæðu fram, ekki sízt þegar tekið er tillit til afstöðu hans til þeirra félaga, sem hér eiga hlut að máli. — Ég læt nægja að mótmæla þessu sem algerlega röngum skilningi hjá hv. þm.

Ég skal svo að lokum aðeins segja það, að Framsfl. hefur nú ekki flutt neinar brtt. við frv. við þessa umr. enn sem komið er, nema þessa einu skrifl., sem ég hef lagt hér fram. Það er ekki fyrir það, að við séum ánægðir með þetta frv. eins og það liggur fyrir, eins og öllum mun ljóst vera af því, sem hér gerðist í nótt og áður hefur verið sagt af flokksins hálfu, einkum um greiðslu úr ríkissjóði til lækkunar á vöruverði, eins og nú er komið málum. En við höfum ekki séð ástæðu til þess að tefja fyrir því, að málið komist frá þessari hv. d. til Ed., og þá í þeirri von, að hægt verði að fá fram, áður en málið er endanlega afgreitt, einhverjar breyt. á frv. í þá átt, sem okkur fellur betur. Ég skal taka fram, eins og ég sagði áðan, að ég teldi það vera til bóta, ef skrifl. brtt. mín við brtt. hv. 3. þm. Reykv. á þskj. 715 yrði samþ., og leyfi ég mér að vænta þess að um það geti orðið samkomulag, því að efni hennar hlýtur að vera í samræmi við það, sem í raun og veru vakir fyrir þeim, sem vilja á annað borð hafa ákvæði í frv. um að leita samkomulags um kaupgjaldsmálin.