15.11.1943
Efri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

99. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Mál þetta er fram komið í Nd., og hefur frv. verið samþ. þar með nokkrum breytingum. Í frv. var upphaflega til þess ætlazt, að veiðibann tæki ekki til þeirra staða, þar sem beitusíld hefur verið veidd að staðaldri, enda sé veiðin ekki stunduð nema á tímabilinu 1. marz til 30. apríl. En í n. hefur þessu verið breytt þannig, að slík veiði sé ekki leyfð nema því aðeins, að áður hafi verið leitað umsagnar veiðimálan. og landbrh. veitti síðan leyfið. Við í landbn. Ed. töldum hættulaust, þótt frv. yrði að l., þar sem bæði verður að leita til færustu manna um þessi mál, veiðimálan. og til ráðh., og það fer eftir hennar till., hvort undanþágan er veitt. Ég veit til þess, að það hefur komið fram nokkur andúð gegn því, að undanþágan væri heimiluð, og hefur borizt skjal til Alþingis frá Veiði- og fiskræktarfélagi Svarfaðardalshrepps, sem á veiði í ánni, sem liggur þarna hjá Dalvík, og hafa þeir mælt móti frv. En þegar þetta skjal var gert og undirritað, lá frv. í sinni upphaflegu mynd fyrir Alþingi, og var ekki komin sú breyt. á það, sem Nd. gerði á frv., þannig að leyfið megi aðeins veita í þeim tilfellum, að veiðimálan. sendi tillögur sínar um það. Ég geri þó ekki ráð fyrir, að á þeim tíma, sem von er á silungi og laxi við árósana, verði þetta leyft nema þegar um beituleysi er að ræða eða þess háttar. Þess vegna er n. að athuguðu máli sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. í þessari d. eins og það er komið til hennar.