30.09.1943
Neðri deild: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

81. mál, málflytjendur

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Með frv. þessu, sem hér liggur fyrir, er stutt að því að fá lögfest á nýjan leik ákvæði, sem var í gildi um málflytjendur fram til 8. júlí. Því er þannig háttað, að samkvæmt l., sem sett voru 1940, var heimilt, að lögfræðingar, sem búnir væru að inna af hendi þau störf, að hægt væri að skipa þá í fasta dómarastöðu, mættu vera undanþegnir að ganga undir próf sem málflytjendur. Meiningin með þessu var sú, að það hefur sýnt sig, að þegar menn hafa stundað lögfræðistörf, þá er það ákaflega mikil röskun í starfi þeirra að verða að setjast á skólabekk á ný og undirbúa sig undir að taka próf. Þetta er kleift fyrir þá, sem gera ráð fyrir því þegar í skóla — að þurfa að ganga undir þetta próf, en þegar menn hafa í mörg ár gegnt störfum, sem þarf sömu menntun til eins og til héraðsdómarastarfa, þá sýnist þetta próf ástæðulaust. Það verður engan veginn séð, að það sé ábyrgðarmeira að vera málflytjandi fyrir einstaklinga, sem eru sjálfráðir um, hverjum þeir fela að bera mál sín fram, og geta skipt um, þegar þeir vilja, en að vera dómari. Það er vitað, að mjög lítill hluti af þeim málum, sem dæmd eru á Íslandi, komast til hæstaréttar, svo að héraðsdómur er langoftast raunverulega fullnaðarúrskurður. Héraðsdómarar hafa þannig greinilega mjög mikið vald yfir velferð almennings og margfalt meira en málfærslumenn, sem menn hafa frjálsan aðgang að og geta skipt um. Það er því eðlilegt, að menn, sem hafa fengið þá reynslu, að löggjafinn telur eðlilegt, að þeir séu skipaðir í dómarasæti, fái rétt til málfærslu, án þess að þeir gangi undir sérstakt próf.

Ég tel svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég er ekki viss um, þegar þetta var afnumið, nema það hafi verið af vangá, og ættu allir að geta verið sammála um, að þessi undanþága verði lögleidd á nýjan leik.

Ég leyfi mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.