17.11.1943
Efri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Bernharð Stefánsson:

Ég treysti mér ekki til að greiða atkv. með þessu frv., eins og 2. gr. þess er orðuð eftir breyt., sem á henni var gerð. Við 2. umr. var ég málinu fylgjandi, eins og ég er enn, og greiddi atkv. með öllum öðrum gr. frv. Að mínum dómi er þessi 2. gr. þannig, að ég er ekki aðeins mótfallinn henni, heldur tel hneykslanlegt, ef hún yrði samþ. svo. Ég er því meðmæltur, að ríkið taki við rekstri þessa hælis og kosti það, en get aldrei fallizt á það að afhenda félagi einstakra manna algerlega reksturinn á þeirri ríkisstofnun. Þótt svo sé að orði komizt, að hælið eigi að vera undir yfirstjórn ráðherra, er ekki hægt annað að sjá en þessi n., sem stórstúkan setur, sé alveg sjálfráð um ýmislegt, eins og 2. gr. er orðuð, hún ræður lækni og annað starfsfólk, en í 1. gr. segir, að ríkið beri allan kostnað. Ég sé ekki nein takmörk fyrir því, hvað þessi n. getur látið reksturinn kosta, ekki er bundið við það, hvaða fé sé veitt til hans á fjárl., og þá getur hún eytt því, sem henni sýnist. Brtt. um að orða 2. gr. þannig var borin fram við 2. umr. skömmu fyrir atkvgr., og ég held þm. hafi ekki verið búnir að átta sig á, hvað í henni fólst. Þar sem hún var samt sem áður samþ., geri ég ráð fyrir, að ekki þýði, að ég beri fram brtt. við greinina. En ég vildi skýra. hví ég sit hjá atkvgr. nú, að það er ekki af óvilja til málsins.