29.11.1943
Neðri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Mér er það alveg ljóst, og tók ég það fram, þó að óbeint væri, í upphafi ræðu minnar, að hv. þm. Ísaf. vill á engan hátt verða meinsmaður þessa frv., enda kom það fram af hálfu þessa hv. þm., að mér virtist, að hann vildi greiða götu þess.

Viðvíkjandi síðasta atriðinu, sem hann tók fram, að ríkið ætti að kaupa hælið í Kumbravogi, gætti nokkurs misskilnings á þessu hæli. Það hæli á ekkert annað en húsgögn. Hús á það ekki, en er leigjandi. Og í bréfi, sem hv. félmn. í Ed. var skrifað, var fram tekið, og það er einnig í grg. frv., að stórstúkan mun að sjálfsögðu afhenda allar eignir hælisins endurgjaldslaust til heilsuhælis ríkisins, ef upp verður komið samkv. þessu frv. Þessu hefur stjórn hressingarhælisins í Kumbravogi lýst yfir í umboði stórstúkunnar, sem fyrir liggur um það. Og það, sem hælið á, sem er innbú, sem er að vísu nokkurs virði á þessum dögum, verður afhent stofnuninni, þegar ríkið tekur við henni, ef þetta frv. verður samþ. Ríkið hefur lagt fram 30 þús. kr. til þessa hælis, Reykjavíkurbær 30 þús. kr. og stórstúkan 30 þús. kr. Og stórstúkan telur ekki eftir sér að láta þetta framlag hverfa inn í þessi opinberu framlög frá bæ og ríki.

Varðandi það, að það sé óviðfelldið, að ríkið eigi ekki meiri hluta í þessari stjórn, þá vil ég benda hv. þm. á það, að ég hygg, að þær ákvarðanir séu mjög fáar, sem slík stjórn getur tekið án samþykkis ráðh. Hún getur ekki ráðið starfsfólk án þess og ekki heldur gert neinar veigamiklar fjárhagsráðstafanir án samþykkis ráðh. Og hann á einnig sína umboðsmenn innan stjórnar hælisins, svo að ég hygg, að hér sé ekki á neina hættubraut stefnt, en hins vegar tryggt það, sem tryggja ber, að áhugamenn starfi, — eftir því sem ég hef lýst í minni fyrri ræðu, — í þessari stjórn. Vildi ég því vænta þess, að jafnvel hv. þm. Ísaf. gæti við nánari athugun fallizt á þetta. — Skal ég svo ekki fjölyrða meira um málið.