08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

27. mál, fjárlög 1944

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr., en aðeins minnast á eina till., sem ég flyt á þskj. 599 við 15. gr. fjárl. Það stafar af nokkrum misskilningi, að ég hef ekki flutt þessa till. áður. Hún fer fram á, að Leikfélagi Hafnarfjarðar verði veittar 300 kr. Er það hliðstæður styrkur við það, sem önnur leikfélög fá. Í Hafnarfirði hefur verið starfandi leikfélag í fimm undanfarin ár við léleg skilyrði, en hefur aldrei verið styrkt af opinberu fé, enda hafa aldrei komið fram tilmæli um það. Nú hagar svo til, að þetta félag, sem hefur sýnt allmörg leikrit, fær á næsta ári góða aðstöðu í nýju húsi, sem er byggt að nokkru leyti með þörf félagsins fyrir augum. Í samræmi við það er þessi beiðni fram komin, því að það þarf að sjálfsögðu nokkurt fé til að geta undirbúið þar starf sitt svo vel sem kostur er á. Þá þurfa búningar, tjöld og ýmislegt þess háttar einnig að vera í góðu lagi, og til þess á að nota þetta fé. Brtt. gerir einnig ráð fyrir, að bæjarsjóður leggi fram jafnmikið fé og gert er ráð fyrir í öðrum kaupstöðum, sem slíkan styrk fá í 15. gr. Þar er gert ráð fyrir styrk til sjö félaga í sama eða svipuðu skyni og með svipaðri upphæð og ég hef látið mér detta í hug, að til mála gæti komið, að Leikfélag Hafnarfjarðar fengi. Ég tel fullkomna sanngirni, að félaginu verði veittur styrkur eins og hér er farið fram á, til jafns við önnur félög, sérstaklega þar sem það er að reyna að koma undir sig fótunum í nýju umhverfi við bætt skilyrði, sem því hafa verið sköpuð af hendi bæjarins í nýju húsi.

Ég skal láta þetta nægja um þessa till. Um aðrar till., sem ég er meðflm. að, mun ég ekki ræða, því að fyrstu flm. munu skýra þær fyrir hv. þm.