11.12.1943
Efri deild: 64. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

152. mál, alþýðutryggingar

Frsm. ( Haraldur Guðmundsson) :

Ég vil heldur ráða frá, að þessi till. verði samþ. Samkv. því, sem gert er ráð fyrir í frv., skulu 3–4 stærstu þingflokkarnir tilnefna. hver sinn mann, en ráðh. skipa formann. Þessi aðferð, að stærstu þingflokkarnir tilnefni hver sinn mann, er viðhöfð við ýmsar nefndarskipanir, og ef ætti að breyta því, sem ég út af fyrir sig tel, að gæti komið til mála, þá er eðlilegt, að samræmi sé í þeim aðgerðum. Til viðbótar þessu skal ég benda á, að gert er ráð fyrir í síðari hluta málsgr., að sérfræðingar verði í ráðinu, ef samkomulag getur fengizt um það, en slíku er örðugra að koma við með hlutfallskosningu en tilnefningu, en að sjálfsögðu er mjög æskilegt, að tryggingarráð sé skipað mönnum með sérþekkingu. Ég tel líka eðlilegra, að fjórir menn séu tilnefndir en fimm og ráðherra skipi siðan formann, en ekki sé bundið við, að hann sé einn af þeim, sem kosnir eru. Ég viðurkenni, að þetta er ekki ýkjaþýðingarmikil breyt., en ég tel þó, að hún sé ekki til bóta frá því, sem er í frv. sjálfu.