09.09.1943
Efri deild: 14. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (1740)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Eiríkur Einarsson:

Hæstv. ráðh. hefur lagt til, að þessu máli verði vísað til landbn. Ég geri ráð fyrir, að svo verði gert, en mér finnst ekki ástæðulaust að láta þegar í stað í ljós skoðun sína um þetta málefni í höfuðatriðunum.

Þó að þetta sé stjórnarfrv. nú, þá er kunnugt, að málið var að hrökklast milli d. í fyrra og endaði eins og öllum hv. þm. er kunnugt. Ég gerði till. um það á einu stigi málsins, og gekk hún út á það, að leitað væri álits sýslunefnda úti á landsbyggðinni, á hvern hátt sveitafólkinu hugnaðist bezt, að komið væri til móts við það á sama hátt og nú er gert um orlof og frí fólks í kaupstöðum. Hver er sínum hnútum kunnugastur, og ef slíkt álit fengist utan af landsbyggðinni, þá tel ég það miklu öruggari grundvöll en jafnvel þótti eins góður aðili og Búnaðarfélag Íslands láti skoðun sína í ljós, kannske án þess að hafa kynnt sér málið nógu nákvæmlega. Ég veit, að hæstv. ráðh. og stj. Búnaðarfélags Íslands meina ekki nema gott með þessu. En ég álít, að rétt hefði verið að fá álit sveitafólksins sjálfs, hvort það vilji fá þetta til kynnisferða eða einhvers annars.

Þá er annað, sem gerir mig sérstaklega myrkfælinn við frv. eins og það liggur fyrir. Í frv. er gert ráð fyrir, að framlagið eigi að fá með álagi á verð mjólkur og kjöts. Ég held, að nú sé alveg á sérstakan hátt óráðlegt að leggja hærra álag á þennan varning en varan sjálf og viðskipti með hana gera óhjákvæmilegt. Öllum er kunnugt, að þörf sveitafólksins fyrir að fá sem fyllst verð fyrir kjöt- og mjólkurvörur er mikil, og það getur komið svo, áður en nokkurn varir, að þörf kaupstaðabúa fyrir að fá þessar vörur heldur ódýrari en dýrari verði einnig mikil. Þess vegna finnst mér, að Alþ. eigi að forðast alla álagningu á þessar vörur fram yfir það, sem nauðsyn krefur.

Ég þykist einnig vita, að úti um landsbyggðina sé nokkuð margt fólk, er á að verða þessa styrks aðnjótandi, sem mundi hugsa sig tvisvar um, áður en það kysi þetta álag á framleiðsluvörur sínar, þó að það eigi að verða til þess, að það eigi kost á að fara í útreiðartúr að sumri til, þó að ég geri á engan hátt lítið úr, að fólk fái tækifæri til að hreyfa sig frá daglegu striti. Það er bæði þetta og eins hitt, hin nauðsynlega undirbygging, að fólkið sjálft fái að láta í ljós álit sitt, sem gerir mig hvort um sig og sameiginlega myrkfælinn við þetta frv. eins og það liggur fyrir, þrátt fyrir góðan tilgang og réttmætan að ýmsu öðru leyti.

Ég tel að svo komnu máli ekki ástæðu til að segja fleira, en vildi strax láta þessa skoðun mína í ljós.