18.10.1943
Efri deild: 35. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (1753)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Frsm. minni bl. (Eiríkur Einarsson) :

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. landbn. hefur getið um, hef ég ekki getað orðið sammála meiri hl. n. um afgreiðslu þessa máls, en á þskj. 177 legg ég til, að málið verði afgreitt með rökstuddri dagskrá.

Þetta kynnisferðamál hefur verið fyrr á ferð en nú á þessu þingi. Það lá fyrir hæstv. Alþ. í fyrra og sætti þá mjög vafningamikilli meðferð á hinu háa Alþ., sem sýndi og sannaði, að það var a. m. k. eins mikið af tilviljun og af ráðnum hug, að þetta frv. var þá nokkurn tíma í heiminn fætt. Eins og ég get um í nál. mínu, þá kom fram á síðasta þingi orlofsfrv., sem var samþ. sem l., og var frv. um kynnisferðir sveitafólks þá sem nokkurs konar fylgifiskur þeirra samþykkta, af réttlætistilfinningu að vísu, er það var lagt til, að sveitafólkið fengi orlofsfé í samræmi við orlofsfé, sem verkamönnum og öðrum starfsmönnum í kaupstöðum var þá tryggt með orlofsl. Um þennan vilja er ekki að segja nema hið bezta. Ég er á sama máli, að samræmi eigi að ná í þessu efni milli framlaga til orlofsferða á réttan og skynsamlegan hátt. En ég get ómögulega fundið það út úr þessu frv., að þessu sé fylgt á eftir eins og vera þyrfti með frv. Í fyrsta lagi er þá á það að minnast, sem fyrir mér tók af öll tvímæli um það, að ekki bæri að samþ. þetta frv., og er það greiðsluaðferðin, — að taka þetta fé af afurðaverðinu. Þessari aðferð er ég algerlega mótfallinn. Ég tel ekki gerlegt, að þetta fé sé veitt öðruvísi en sem ríkissjóðsframlag. Þessa stefnu, að klípa utan úr því verði — í landi skriffinnskunnar og skjalanna — og með þessu að auka á skriffinnskuna í landinu, álít ég ekki heppilega. Og ef brtt. hv. meiri hl. n. yrði samþ., þá yrði ágreiningur um það, hvort verið væri þar að narta meir í verð það, sem bændur fá, heldur en bæta við verð vörunnar til neytendanna, þrátt fyrir orð hv. frsm. meiri hl. n. um þetta efni. En hvort sem þetta er tekið af framleiðendum eða neytendum, þá er ég sannfærður um, að þar sé þó aldrei um annað að ræða en kák eitt. Ég álít, hvort sem um kjötverð eða mjólkurverð er þarna að ræða, þá eigi ekki að taka neitt af því, sem bændur fá fyrir þær vörur, því að þótt mönnum þyki verðlag þessara vara nú hátt, þá er ekki sagt, að það verði það ævinlega. Og komið getur sá tími, að hvort sem eru framleiðendur eða neytendur, þá þurfi þeir á öllu sínu að halda, án þess að nokkuð sé nartað utan úr því til skemmtiferða. Og meðan menn hafa nokkru meiri peningaráð almennt en verið hefur, þá verður þetta gjald líka á aðra hönd dálítið brosleg yfirhugulsemi af hálfu hins háa Alþ., einkum þegar þess er gætt, að á sama tíma sem hér á að fara að narta utan úr því verði, sem bændur fá nú fyrir afurðir sínar, þá er með ærnum kostnaði verið að bæta upp verð á þessum vörum með framlögum úr ríkissjóði, og tel ég slíkt sízt eftir, þótt gert sé. Ég fæ ekki skilið, að það sé rétt að verja þessu fé til hópferða eða útreiða, eins og frv. ætlast til, að gert verði.

Hv. frsm. meiri hl. n. gat um það, að það væru nú umboðsmenn eða forráðamenn bændanna sjálfra, sem hefðu lagt þetta til. Það er nú rétt hjá honum eða rétt ekki, eftir því, hvernig á þetta er litið. Það var búnaðarþingið, sem lagði það til og stjórn Búnaðarfélagsins, en ég hygg, að það sé ekki búið að grennslast um þetta innan búnaðarfélaga úti um land eða meðal sýslunefnda. Ég hygg, að þetta mál hafi komið fram landsmönnum til sveita að óvörum af hálfu búnaðarþingsins og stjórnar Búnaðarfélags Íslands, eftir að orlofsfrv. var komið fram hér á Alþ. Búnaðarþing og stjórn Búnaðarfélags Íslands fundu þessa köllun hjá sér til að bera fram þetta frv., lengra hygg ég, að þetta nái ekki. Þetta er gert af góðum vilja, en málið bar ekki rétt að hér á hæstv. Alþ., eins og ég hef lauslega minnzt á. Vil ég því, að málinu verði vísað til hæstv. ríkisstj. í því skyni, að hún gangist fyrir að leita meðal almennings fyrir sér um þetta mál, þ. e., hvernig fólkið í sveitunum hugsar í þessum efnum og hvað það vill láta í þessu máli gera, hvort því geðjist yfirleitt að því, að það sé verið að taka þetta af vöruverði þess til þess að löggjafinn ákveði, að það skuli skemmta sér fyrir það. Ég tel ekki víst, að það sé ginnkeypt til þess. Sumir kalla þetta tíkallsfrv. Það er sagt, að það muni koma 10 kr. að meðaltali í hlut hvers manns, sem á að njóta þessa fjár til skemmtiferða, þegar því sé skipt, en ég skal ekki dæma um það. Mér finnst eðlilegt, og ég tek það fram í skilgreiningu minni fyrir dagskrártill., að það sé athugað hvort fólkinu í sveitunum geðjast að þessu og hvort því mundi ekki geðjast alveg eins að því, að það fái þetta fé á þann hátt greitt, að það fari til menningar fátæku sveitafólki, svo sem til utanfarar til frekari menningar eða því líks, ef það væri eitthvað menningarlegra við það. Og ég hygg, að þessa fjár mundi með því betur sjá einhvern stað. Mundi slíkt fyrirkomulag vera miklu skapfelldara mér heldur en það, sem frv. gerir ráð fyrir. Annars veit ég, að fyrir þeim, sem barizt hafa fyrir frv., vakir ekki nema gott eitt. Og að því leyti er ég þeim sammála, að þegar orlofslögin eru komin á, álít ég rétt, að sveitafólkið fái líka eitthvað hliðstætt sér til hagræðis. En ég álít, að það mál eigi að fá frekari undirbúning, þannig að það sé frekar athugað en enn þá hefur gert verið, hvað sveitafólkið vill sjálft um þetta.

Ég legg til, að sú rökst. dagskrá, sem ég hef flutt, verði samþ. Vil ég þó láta þess getið, að ef frv., eins og það liggur fyrir, verður samþ., þá er það sýnilegt, að með ákvæðum þess væri fólki nokkuð mismunað, því að þær vörur, sem taka á gjald þetta af, eru þannig, að þetta fé kæmi í misstóra hluti til landsmanna, eftir því, hvar er á landinu og hvernig hagar til, því að þessar vörur eru tiltölulega miklu meira framleiddar í sumum byggðarlögum en öðrum.