04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. svaraði að nokkru fyrirspurn hv. 2. þm. Reykv. um það, hvernig uppbótargreiðslum á kjöt væri varið. Hv. þm. virtist ekki skilja, hvernig mætti kontrolera það, að uppbæturnar kæmust til framleiðenda. Uppbæturnar eru greiddar til þeirra, sem slátrunarleyfi hafa, og þeir greiða síðan til framleiðenda. Fyrirspurn hv. þm. er nokkuð í samræmi við fyrirspurn, sem hv. þm. Ísaf. (FJ) bar fram, þar sem hann kom með till. um það, að allir skyldu kvitta fyrir uppbótum, hver í samræmi við það, sem hann fengi. Þessi þm. trúði ekki kaupmönnum eða kaupfélögum fyrir að koma uppbótunum til skila. Ég get upplýst það, að kjötverðlagsnefnd hefur trúnaðarmenn um allt landið, sem safna skýrslum, og kjötverðlagsnefnd fær vikulega skýrslur um slátrun sauðfjár og mánaðarlega skýrslu um sölu, og út á þetta eru uppbæturnar greiddar, og ég get sagt hv. 2. þm. Reykv. það, að ef hann kæmi inn á skrifstofu kjötverðlagsnefndar, mundi hann geta sannfært sig um það, að uppbæturnar eru greiddar eftir nákvæmum skýrslum. Ef álitið er, að ekki megi treysta neinum mönnum, sem falin eru trúnaðarstörf, þá er erfitt að hugsa sér, að kontrol sé á nokkru. Ég held, að hv. 2. þm. Reykv. þurfi ekki að hafa áhyggjur af því, að framleiðendur fái ekki uppbæturnar í sínar hendur. Það er ekki svo lítill hávaði út af verðuppbótunum, að bændur fylgjast vel með því, hvað hver á að fá.