08.11.1943
Neðri deild: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (1865)

70. mál, kvikmyndasýningar

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Allshn. gat ekki orðið sammála um afgr. þessa máls. Eins og kunnugt er, eigum við enga löggjöf um rekstur kvikmyndahúsa. En það hefur verið venja, að ríkisstj. og bæjar- og sveitarfélög hafa veitt leyfi til opinberra sýninga, enda þótt óvíst sé, hvort þeir, er þá atvinnu stunda, hafi þurft slíkt leyfi. Myndasýningar eru og háðar eftirliti hins opinbera, og eru myndirnar skoðaðar á undan sýningu, og þarf sérstakt leyfi til að sýna þær. Gjöld, sem lögð eru á kvikmyndahús, eru miðuð við sæti, og þó að ekki sé formleg heimild fyrir þessari skattaálögu, hefur þetta verið greitt af eigendum kvikmyndahúsanna. Ekki er hægt að mæla á móti því, að starfsemi kvikmyndahúsanna hefur mikla þýðingu fyrir þjóðfélagið og þau eru mikil menningartæki, og þess vegna hefur hið opinbera eftirlit með myndasýningum. Hins vegar er ekkert ákveðið um rekstur og tilhögun þessara stofnana, og má segja, að það sé nokkuð laust í reipunum. Og þó að þetta frv. yrði samþykkt, yrði ekki ráðin bót á þessu að öðru leyti en því, að rekstur er aðeins heimilaður bæjar- og sveitarfélögum, sem geta þó veitt leyfið öðrum um ákveðinn tíma. Í frv. er gert ráð fyrir, að taka megi kvikmyndahúsin eignarnámi ásamt tækjum til sýninga. En það geta verið skiptar skoðanir eins og í allshn. um það, hvort það sé æskilegt eða heppilegt, að bæjar- eða sveitarstjórnir hafi einar leyfi til kvikmyndasýninga. En menn leggja mikla áherzlu á það, sem er auðvitað mjög þýðingarmikið, að þetta séu mikil menningartæki og um leið mikill tekjustofn, þó að búast megi við, að það fari ekki alltaf saman. Ég efast mikið um, að betur mundi séð fyrir menningarlegri hlið þessa máls, þó að bæjar- eða sveitarstjórnum yrði einum veitt leyfi til að sýna kvikmyndir. Og hvað síðara atriðinu viðvíkur, er bæjar- og sveitarfélögum samkv. brtt. meiri hl. n. opin leið að hafa tekjur af þessari starfsemi. Og það er ekki heldur séð verr fyrir menningarlegri hlið þessarar starfsemi af meiri hl. n., því að með frjálsu fyrirkomulagi er meiri trygging fyrir, að séð verði betur fyrir þessari hlið málsins en ef einn aðili hefði einkarétt á kvikmyndasýningum.

Samkvæmt brtt. meiri hl. n. er gert ráð fyrir, að settur verði nokkur rammi um þessa starfsemi. Bæjar- eða sveitarfélög eiga að hafa rétt til að reka kvikmyndahús, en kennslumrh. getur þó veitt einstaklingum og félögum leyfi til kvikmyndasýninga, enda hafi hann áður leitað álits viðkomandi bæjar- eða sveitarfélaga. Með þessu er séð fyrir því, að leyfi verði ekki veitt til annarra en þeirra, er líklegir eru til að leysa þessi störf vel af hendi, því að bæjar- eða sveitarfélög segja sitt álit um umsækjandann, og má ekki veita öðrum leyfi en þeim, er fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru til myndasýninga. Annað atriði frv., að veita bæjar- eða sveitarfélögum eignarnámsheimild að taka kvikmyndahús eignarnámi, getur meiri hl. n. ekki fallizt á. Og ég held, að tilefnið til slíkrar heimildar sé ekki nægilegt samkvæmt stjórnarskránni. Aðaltilefnið mun vera þau tvö kvikmyndahús, sem eru hér í Rvík. En ef á að fara að lögleiða, að einn aðili hafi einkarétt á slíkri starfsemi sem þessari, tel ég Alþingi komið út á mjög hættulega braut. Og þetta frv., ef samþykkt yrði, gildir ekki aðeins um Rvík, heldur um allt landið. Og svo á þetta einnig að gilda um ókomna framtíð, og þá er alveg óvíst, hvernig yrði ástatt um afkomu þessarar starfsemi. Ákvæði sem þetta er alveg nýtt í okkar löggjöf, og ég held, að bezt væri, að það kæmist ekki lengra en til þessarar umræðu, og vænti ég, að hæstv. deild samþykki ekki slíkt ákvæði.

Þá kem ég að því atriði, sem varð þess valdandi, að eignarnámsheimildin var sett inn í frv. Hér í Rvík eru nú starfandi þrjú kvikmyndahús, og í ráði mun vera, er Þjóðleikhúsið tekur til starfa, að það hafi kvikmyndasýningu á hendi jafnframt annarri starfsemi, því að halli mundi verða á rekstri hússins með þeim tekjum, er kæmu af leiksýningum. Nú býst ég við, þó að frv. yrði samþ., að bæjarstjórn Rvíkur stæði ekki í vegi fyrir því að veita leyfi til þessara sýninga.

Háskólinn hefur hér sýningarleyfi, og ég fjölyrði ekki frekar um hann. Við skulum ætla, að þar sem sú stofnun á í hlut, muni hún rækja hlutverk sitt, hvað menningarlegu hliðina snertir, og að þar verði ekki síður hugsað um að manna og mennta þjóðina en græða fé. Þá eru aðeins tvö kvikmyndahús eftir, sem einkarekstur er á. Þau leyfi voru á sínum tíma veitt til þeirra manna, sem standa að rekstri þeirra, og giltu um óákveðinn tíma. Ég skal ekkert um það segja, hvernig dómstólarnir litu á þetta mál, ef það yrði samþykkt, og hvernig fara kynni, ef þessir menn vildu ekki fúslega hætta rekstrinum. Um það ætla ég ekki að segja, en ekki er hægt að segja, að virðulega sé farið að við þá, sem slík leyfi hafa fengið, hafa byggt starfsemi sína á þessum atvinnurekstri, byggt myndarleg hús og aflað sér góðra tækja í þeirri trú fyrst og fremst, að þeir gætu haft það sem atvinnurekstur. Við skulum telja það fyrst. En í öðru lagi er það áreiðanlegt og hefur oft sýnt sig, að þeir hafa hug á að afla góðra mynda, sem væri gott og gagnlegt fyrir sýningargesti að sjá. En þó að það sé þannig, að það geti ekki talizt viðfelldið að beita þessari aðferð gagnvart þessum mönnum, getur það þó orðið enn þá hvimleiðara gagnvart öðrum mönnum, sem hafa leyfi til kvikmyndasýninga. Ég veit til þess, að á nokkrum stöðum eru menn, sem nýlega hafa fengið leyfi bæjaryfirvaldanna til kvikmyndasýninga. Þeir hafa byggt hús, aflað góðra og dýrra sýningartækja og eru sumpart að komast af stað með þennan atvinnurekstur og sumpart nýlega komnir af stað. Svo á þetta að verða þannig, ef þetta verður samþykkt, að leyfið verði tekið af þeim, kannske strax, kannske seinna og kannske þegar verst gegnir fyrir þessa menn, og ef til vill verða þeir þá látnir sitji uppi með byggingar sínar og látið ráðast, að hvaða notum þær kæmu þeim. Nú staðhæfi ég ekki, að svona mundi fara, en ég staðhæfi, að svo stendur á um sum kvikmyndahús sem ég hef lýst, en reynslan ein getur skorið úr um, hvort svo færi. En úr því að möguleikar eru fyrir því, getur það líka orðið, og hví skyldi Alþingi leggja inn á þá braut að hætta á, að þannig sé farið að gagnvart þessum þegnum þjóðfélagsins?

Þá vík ég að þessum tveim kvikmyndahúsum, sem hér eru í Reykjavíkurbæ. Ég held, að ég megi segja, að eitthvað um 1100 sæti séu í báðum kvikmyndahúsunum og aðaltilefnið til þess, að þetta frv. er borið fram í þessari mynd, mun vera það að láta bæinn fá umráðaréttinn yfir þessum sætum. Vilja menn nú halda því fram, að það hafi svo mikla þýðingu fyrir þessi 42–43 þús. manns í Reykjavík, hvort þessi 1100 sæti eru í höndum bæjarfélagsins eða einstakra manna, að almenningsheill velti á því? Er svo komið, að svo mikið velti á þessu, að bærinn þurfi endilega að taka þessi sæti? Vitanlega þarf hann ekki að taka kvikmyndahúsin af mönnunum til þess að mega sýna kvikmyndir. Það getur bæjarstjórn Reykjavíkur gert, hvenær sem hún vill og í hvað stórum stíl sem hún vill. Hún getur byggt stóra höll og sýnt þar allar kvikmyndir, sem hún vill, alla daga, ár og síð og alla tíð. Og ef menn telja þetta frv. svo mikils varðandi, er bænum þá virkilega fullnægt með því að fá að ráða yfir 1100 sætum? Stefnir hugur manna þá ekki hærra en svo í þessu máli, að þeir ætli að láta þessi 1100 sæti nægja? 43 þús. íbúar — 1100 sæti. Það finnst þeim svo mikils vert, að ákvæðum stjskr. um eignarnám sé fullkomlega fullnægt. Ekki dettur mér í hug, að þeir hafi flutt þetta á öðrum grundvelli. En ég vil, að þeir hugsi sig betur um, áður en þeir gera þá kröfu til Alþingis, að það verði við þessum óskum þeirra. Ég get varla búizt við, að þeir líti svo á, þegar þeir fara að hugsa sig um að með því, að bærinn fái þessi 1100 sæti í sínar hendur, sé fullnægt ákvæðum stjskr. um eignarnám, þar sem sagt er, að taka megi eignarnámi, þegar almenningsheill krefst þess, enda komi fullt verð fyrir. Ég held, að það verði ákaflega erfitt fyrir þá þm., sem að þessu frv. standa, að telja almenningi trú um, að almenningsheill krefjist þess, að bærinn taki eignarnámi þessi hús til þess að ráða yfir þessum sætum. Öðrum atriðum, sem máli skipta og talað er um, er fullnægt með till. allshn. Og þeim er meira en fullnægt, því að frv. er breytt þannig, að það getur talizt sæmandi fyrir Alþingi að afgreiða það. En ég held, að einhverjir kynnu að líta svo á, ef frv. yrði afgreitt í þeim búningi, sem það var, að ekki væri þinginu sæmandi að ganga þannig frá þessu máli, enda hef ég áður að því vikið, hve óheppilegt það væri, ef slík almenn heimild væri gefin til eignarnáms eins og flutt er í frv., hvernig hægt væri að beita henni. Nú er því haldið fram, að þetta mál sé beinlínis flutt vegna Reykjavíkur og að það sé aðkallandi. En nú er mikill dýrleiki á öllu, og þessar byggingar, þótt þær yrðu teknar eignarnámi, hlytu að verða ákaflega dýrar, og mundi því rekstur kvikmyndahúsanna, ef bærinn tæki þessar byggingar eignarnámi, verða ákaflega dýr. Og ég held, að hver maður, sem vildi sjá hag sínum borgið, mundi skoða huga sinn, áður en hann legði í slíkt fyrirtæki nú á þessum tímum, þegar allt er í toppverði og byggingar gífurlega dýrar. Ég er hræddur um, að þótt ekki sé um stærri byggingar en þessar að ræða, mundi sú starfsemi ekki svara kostnaði, nema bæjarstjórnin hirti ekki svo mjög um, hvað sýningar kostuðu, og hefði gjaldið í hlutfalli við stofnkostnaðinn, en það yrði erfitt, ef það kvikmyndahús, sem eftir er, og þjóðleikhúsið hefðu allt annan taxta fyrir sýningar sínar.

Það kynni þó að verða úrræðið hjá bænum að setja upp gjaldið, og mætti þá segja, að séð væri fyrir hag bæjarsjóðs, en eftir er hin hliðin, sem sé sú, sem snýr að almenningi og fjármunum hans, og þá er ég hræddur um, að nokkuð djúpt mundi þurfa að fara í vasa sýningargestanna til þess að standa straum af þessari starfsemi. Það kann að vera, að ég eigi ekki að vera að gera þetta að umtalsefni. Ég sá það einhvers staðar eða heyrði, að það væri undarlegt, þegar menn utan Reykjavíkur færu að blanda sér inn í það, sem bæinn snerti. Ef það er ekki á óviðurkvæmilegan hátt og ég sem þm. er sannfærður um, að ég geri bænum heldur gagn en ógagn, læt ég ekki gefa mér nein fyrirmæli um, hvað ég eigi að segja um slík mál og hvernig ég eigi að haga atkvæði mínu.

En það er eftir eitt atriði enn þá, sem ég tel verulegu máli skipta og ekki er fram tekið beinlínis, hvað snertir Reykjavíkurbæ, og það er, þegar eignarnámsheimild er ekki framkvæmd fyrr en síðar, þegar stjórnarvöldum bæjarins þætti standa vel á að komast yfir þessar eignir sem allra ódýrast. Og það skal ég játa, að vel gætu komið þeir tímar, að svona stofnanir gæfu ekki svo sérlega mikinn arð og því ekki ástæða til að selja þær svo gífurlega háu verði, og gæti þá farið svo, að eigandinn tæki miklu minna fé en annars. En er það þá virkilega svo, að stjórnarvöld bæjanna séu þannig skipuð, að þau sætti sig við slík vinnubrögð og telji sér það hæfa? Þar um verða menn náttúrlega að ráða, eftir því sem þeir hafa þykkju til, en fyrir fram hef ég ekki gert ráð fyrir slíku.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég held, að bezt sé fyrir því séð á þann hátt, sem meiri hl. allshn. leggur til. Ég skal geta þess um till., sem allshn. flytur, að dómsmrh. hafði málið til undirbúnings og eru þessar brtt. í höfuðatriðum eins og frv., sem hann hafði undirbúið. Hann hafði að vísu gert ráð fyrir, að heimild væri til staðar um eignarnámsheimild. Á það atriði hefur meiri hl. n. ekki fallizt. Við teljum, að um þessar stofnanir eigi — eins og aðrar stofnanir — að fara eftir viðurkenndum leiðum, en ekki, að Alþingi fari að brjóta gersamlega í bága við ríkjandi venjur, sem hér hafa gilt frá fyrstu tíð, og það í ekki stærra máli. Hins vegar geri ég ráð fyrir því, að ef stjórnarvöldum Reykjavíkurbæjar er áhugamál að koma þessum stofnunum á fót, þá geri þau það í stærri stíl en hægt er með þessum tveim kvikmyndahúsum. Þá mætti segja, að þetta hefði þýðingu fyrir Reykjavíkurbæ, fyrir menningu hans og önnur atriði, sem lagt er upp úr í sambandi við þetta, en alls ekki eins og er.

Ég veit svo ekki, hvort ég tek aftur til máls um þetta, nema af hálfu minni hl. gefist sérstakt tilefni.