17.11.1943
Neðri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (1896)

70. mál, kvikmyndasýningar

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér hér með að gera örstutta aths. út af nokkrum atriðum, er fram komu í ræðu hv. 1. þm. Árn.

Hann mælti eindregið móti því fyrir hönd meiri hl. allshn., að leyfi til kvikmyndahúsrekstrar séu bundin við ákveðinn tíma, eins og gert er ráð fyrir í brtt. minni. Ég legg til, að þetta leyfi sé bundið við 10 ár, en þetta þótti honum mjög ósanngjarnt og sagði, að í þessu væri meiri ósanngirni en búast hefði mátt við í þessu máli. Ég verð nú að segja það, að ég varð mjög undrandi yfir þessu orðalagi hv. þm., eins og hv. 4. þm. Reykv. benti einnig á, því að þessi hv. þm. lagði einmitt til, að leyfi væri bundið við ákveðinn tíma, og var ekkert um það sagt í till. hans, hvort það ætti að vera til tveggja, tíu eða tuttugu ára. Ég setti tíu ár í mína till., en væri tilbúinn að binda þetta ákvæði við fimmtán ár, ef n. þætti það eitthvað betra. Ég mun svo ekki fara um þetta fleiri orðum, af því að hv. 4. þm. Reykv. skýrði mjög ýtarlega frá þessu. Hitt atriðið, sem hv. þm. Árn. gat ekki sætt sig við í till. minni, var það, að ég lagði til, að þeir, sem áður hafa fengið heimild til starfrækslu kvikmyndahúsa, skyldu þó leita endurnýjunar á heimildinni samkvæmt lögum þessum, og taldi hv. þm., að með þessu ákvæði væri brotið í bága við leyfi, sem áður hefðu verið veitt. Þetta kemur mér undarlega fyrir sjónir, sérstaklega þar sem lýst var yfir því áður af þessum frsm. meiri hl. allshn., að öll þau leyfi, sem áður höfðu verið veitt, væru byggð á vafasömum grundvelli, svo að það væri annars mjög hæpið, hvort þessi leyfi væru nokkurs virði. Ef það er nú svo, að bæjarstjórnir hafa ekki haft nema vafasaman rétt til þess að veita þessi leyfi, er þá ekki eðlilegt og sanngjarnt, að þau verði endurnýjuð samkvæmt lögum þessum, þegar þau komast í gildi? Ég get því ekki skilið, hvað það er, sem er svo hættulegt eða ósanngjarnt í þessari till., með hliðsjón af því, sem þegar hefur verið frá skýrt. Ég leyfði mér að halda því fram, þegar ég mælti upphaflega fyrir till. minni, að mér hefði komið á óvart afstaða þessa hv. þm. og yfirleitt Framsfl. til þessa máls, af því að mér hefur skilizt, að hann væri því fylgjandi, að bæirnir hefðu þennan rekstur með höndum. Þetta þótti hv. þm. mjög ómaklega mælt, því að Framsfl. vildi stuðla að því, að bæirnir gætu rekið kvikmyndahúsin, en svo langt sem skynsamlegt er. Stuðningur hans til þessa máls nær því ekki lengra en það, sem honum kann að þykja á hverjum tíma skynsamlegt, og hann virðist í þessu tilfelli ná skammt, því að hann hefur í sinni fyrri till. beinlínis þjarmað svo að rétti bæjarfélaganna, að það væri hægt fyrir dómsmrh., sem færi með þessi mál á hverjum tíma, að ákveða, hversu mörg kvikmyndahús bærinn tæki að sér að reka, án þess að spyrja bæjarstjórn um leyfi.

Nú er vísast, að hv. þm. hafi séð, að honum bar að lagfæra þetta, eftir að ég hafði borið fram brtt. mína. Því er haldið fram, að bæjar- og sveitarfélög hafi vafasaman rétt til að leggja á sætagjöld. Þessa leið á að fara, skv. tillögum hv. 1. þm. Árn., til stuðnings við bæjarfélögin: Í fyrsta lagi að veita eins mörgum einstaklingum og félögum og dómsmrh. þóknast leyfi til rekstrar kvikmyndahúsa og í öðru lagi að taka rétt bæjanna til að leggja á sætagjald.

Þetta er stuðningur Framsfl. Afstaða þessa flokks er nú orðin nægilega skýr í þessu máli.