13.10.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

Skýrsla um olíumálið

Eysteinn Jónsson:

Ég ætla að leyfa mér að láta koma fram aths. í tilefni af því, sem fjallað hefur verið um þetta mál í sjávarútvegsnefndum þingsins, og af því, sem hæstv. viðskmrh. hefur upplýst um málið.

Það er nú öllum mönnum kunnugt, að fyrir stríð voru þessi olíuviðskipti þannig vaxin, að olíuhringarnir voru mjög grunaðir um það, að þeir seldu ekki olíuna hæfilega lágu verði, og þá voru í undirbúningi samtök útvegsmanna til þess að geta skipt beint með olíu sína. Og mynduð voru um þetta samtök útvegsmanna á tveim eða þrem stöðum, sem keyptu olíuna beint. Það reyndist þannig, að þeir gátu selt olíuna við lægra verði en olíuhringarnir. En því var borið við af hringunum, að það væri ekki réttur mælikvarði á það verð, sem á olíunni þyrfti að vera, því að þeir (hringarnir) seldu olíuna smáútgerðinni á öllu landinu, en þessi samtök útgerðarmanna verzluðu bara á stærri stöðunum, þar sem hægt væri að koma við kostnaðarminni verzlun á olíunni. Þegar stríðið skall á, lokuðust leiðir útvegsmanna til þessarar verzlunar. Það var ekki unnt að fá með neinum viðhlítandi flutningsgjöldum nægilega smá skip til þess að þjóna þörfum þeirra. Þegar þar var komið sögu, voru olíufélögin tvö hér alveg einráð um olíuviðskiptin, bæði aðflutningana og söluna innanlands. Þau voru þeir einu, sem höfðu nógu stóra olíugeyma til að taka hæfilega stóra olíufarma í senn, og af því voru útvegsmenn útilokaðir frá því að geta keypt inn olíuna beint. Nú fluttu því olíuhringarnir inn olíuna einir. En svo kom spurningin um verðlagið á olíunni, og það var hér verðlagseftirlit frá byrjun stríðsins. Og þessi félög lögðu fram sínar skýrslur um það, hvað þau töldu sig þurfa að fá fyrir olíuna, og þær voru náttúrlega ákaflega flóknar, eins og gefur að skilja í jafnvíðtækum viðskiptum og þessi viðskipti eru, og erfitt fyrir menn, sem ekki höfðu því meiri reynslu í þeim efnum, að gagnrýna þær fullkomlega. En olíufélögin voru ákaflega viðkvæm fyrir allri gagnrýni á þessum verðlagsskýrslum og töldu sér jafnvel misboðið, ef þær voru ekki lagðar til grundvallar, það var mér kunnugt um, meðan ég hafði viðskiptamál með höndum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Þó voru þær ekki lagðar alls kostar til grundvallar. En félögin lögðu, sem sagt, þunga pressu á, að ef þau ættu að sjá fyrir olíu til landsins undir þessum erfiðu kringumstæðum, þá yrðu þau að vera viss um að þurfa ekki að selja vöru sína með túpi, sem var eðlileg krafa, og þau lögðu fram skýrslur, sem sýna skyldu, hvað þau þyrftu að fá til þess að vera sæmilega haldin.

Það fyrsta, sem ég frétti af þessu máli eftir að ég hætti að kynnast þessu svo að segja daglega, það var síðari hluta s. l. vetrar, eftir að sú breyting var gerð, að olíufélögin hættu að flytja olíuna beint, en herstjórnin fór að flytja olíuna til Hvalfjarðar og þar skyldu félögin kaupa olíuna af ríkisstjórn Bandaríkjanna. Þá var upplýst, að skömmu eftir að þessi breyt. var gerð, héldu olíufélögin hér því fram, að þau þyrftu að fá mikla hækkun á olíuverðinu, vegna þess að kostnaður við að flytja olíuna til landsins hefði stóraukizt, þeir (sem fyrir olíufélögunum stóðu hér) þyrftu að fá olíuna miklu dýrari heldur en þeir hefðu getað fengið hana; meðan þeir fluttu hana beint. Og ég veit, að menn kannast við það, að þetta mál var í slíkum hnút í fyrravetur, að olíufélögin tilkynntu á einu stigi málsins, að ef þau gætu ekki fengið þessa verðhækkunarkröfu tekna til greina, þá yrðu þau annaðhvort að láta viðskiptin til landsmanna hætta, þannig að félögin hættu að selja þeim olíu af birgðum sínum, eða þá að ríkissjóður yrði að- bæta þeim upp það, sem á vantaði, að það verðlag, sem þau byggju við, nægði þeim fyrir innflutningi olíunnar og kostnaði. Nú var þannig í þessi mál tekið af hálfu olíufélaganna í fyrravetur, að það var gengið í það að reyna að fá flutningsgjöld lækkuð á olíunni frá því, sem var fyrirhugað af hálfu þeirra, sem nú höfðu tekið að sér innflutninginn, og sagt við olíufélögin, að þau yrðu að selja með óbreyttu verði, a. m. k. þangað til tækist að sjá fyrir endann á þeim málum. Og það endaði svo, að það tókst að lækka flutningsgjaldið.

Þetta sýnir, hvað olíufélögin þóttust illa haldin af því verði, sem þá var. Nú er það upplýst, af hæstv. viðskmrh., að fyrir síldarvertíðina í sumar — ég skildi hann svo — þá gerir ríkisstjórnin fyrirspurn til olíufélaganna um það, hvort þau geti ekki lækkað olíuna. En þau svara þeirri fyrirspurn algerlega neitandi. Og 1. ágúst s. l. leggja þau fram verðreikninga til verðlagseftirlitsins, þar sem þau krefjast verðs, sem hæstv. viðskiptamrh. las upp og ég hafði ekki heyrt, að væri neitt lægra heldur en verðið, sem hafði verið. (Viðskmrh.: Heldur hærra). M. ö. o., fyrir síldarvertíðina heimtuðu olíufélögin af verðlagsyfirvöldunum í landinu, að þau fengju að hækka verðið á olíunni frá því, sem það hafði verið, með því að það, sem þau fengju í verzlunarágóða, væri of lítið. Nú voru landsmenn ekki alveg eins ofurseldir félögunum eins og verið hafði, og breyt. var sú, að Bandaríkjamenn seldu nú olíu í Hvalfirði. Ríkisstjórnin fær þá aðstöðu til þess að leyfa eða samþykkja, að síldarverksmiðjur ríkisins kaupi olíu handa síldveiðiflotanum í Hvalfirði beint af Bandaríkjamönnum. Og þá sýnir það sig, að sá kostnaður, sem þarf að leggjast á olíuna frá Hvalfirði og til Siglufjarðar, er í raun og veru aðeins lítið brot af þeirri verðframfærslu, sem olíufélögin töldu sig þurfa að gera og töldu þó, að væri of lítil. M. ö. o., hæstv. ríkisstjórn hefur þarna orðið möguleika til þess að brjóta einokun olíuhringanna á bak aftur, og hún hefur notað þá möguleika á þann hátt, að hún á skilið þakkir fyrir. Og þá er það, eftir að þetta hefur gerzt, að forráðamenn olíufélaganna hér koma á fund ríkisstj. og tilkynna, að nú allt í einu, eitthvað tæpum mánuði síðar en þeir töldu, að verðhækkun á olíunni væri óhjákvæmileg, — nú tilkynna þeir, að þeir geti lækkað útsöluverðið á olíunni víðs vegar um landið og á benzíni stórkostlega frá því, sem verið hafði, það verð, sem mánuði fyrr hafði verið of lítið að þeirra dómi. Og nú hefur okkur í sjávarútvegsnefndum þingsins verið skýrt svo frá, að þessi lækkun, sem olíufélögin buðu, muni, miðað við ársviðskipti, sem nú eru, nema yfir 2 millj. króna. Þessar upplýsingar fengum við hjá sjávarútvegsnefndum þingsins. En eins og hér hefur verið upplýst, töldu forráðamenn olíufélaganna olíuverðið of lágt áður, og sá tekjuafgangur, sem þeir töldu fram, nálgaðist ekki þá fjárhæð, sem þeir töldu sig nú, allt í einu, geta séð af í vöruverðinu. Hér fylgdi sá böggull skammrifi af þeirra hálfu, að ef þeir gerðu þetta, að lækka olíuna, þá átti ríkisstjórnin að loka fyrir það, að samlög útvegsmanna keyptu olíu í Hvalfirði.

Mér sýnist þetta allt saman vera slíkt hneykslismál orðið af hálfu þeirra, sem farið hafa með þessi viðskipti, að ég fyrir mitt leyti vil skora á ríkisstjórnina að láta fram fara gaumgæfilega athugun á öllum gögnum, sem frá þessum félögum hafa komið, frá upphafi stríðsins a. m. k., og athugun á því, sem þau hafa haldið fram í sambandi við þessi verðlagsmál, og að eftir að ríkisstjórnin hefur látið fram fara gaumgæfilega athugun á þessum plöggum, þá geri hún sér nána grein fyrir því, hvort ekki þurfi enn nánari athugun á þessu máli heldur en hægt er að láta fara fram með athugunum á þessum plöggum sjálfum, og enn fremur, hvort ekki sé eitthvað í þessum plöggum þannig, að ástæða sé til að láta koma fram ábyrgð á hendur þeim, sem að þessu hafa staðið fyrir hönd félaganna. Ég skora þannig á ríkisstjórnina að láta athuga, hvort hér hafa ekki verið brotin þau lagaákvæði, sem gilda um það, hversu menn skuli gefa yfirvöldunum upplýsingar í einu og öðru skyni. Ég vil mjög eindregið beina þessu til hæstv. ríkisstjórnar.

Nú hefur það líka verið upplýst hér, að þegar hæstv. ríkisstjórn, samkvæmt einróma samþykki sjávarútvegsnefnda þingsins, neitar því að gera samninga við olíuhringana um að loka fyrir viðskiptin, sem hafa átt sér stað á olíu hér fyrir utan olíufélögin, og ríkisstjórnin vill krefjast þess, að þessi verðlækkun eigi sér stað, þar sem upplýst sé, að hún geti átt sér stað af hálfu hringanna, þá fær ríkisstjórnin þau svör af hálfu olíufélaganna, að nú eigi að breyta alveg til um viðskiptin, þannig að nú eigi alveg að hætta að selja olíu í Hvalfirði, en nú eigi olían að koma gegnum olíufélögin framvegis. Og mikið má það vera, ef mig misminnir það, að í þessum samningaumleitunum hafi það komið fram, að af þessu mundi leiða, ekki lækkun á olíuverðinu, heldur talsverð hækkun á því frá því, sem verið hefur, — ekki lækkun, sem nemi 2 millj. kr. á ári, heldur hækkun frá því, sem verið hefur. Ég hygg, að þetta sé samkvæmt upplýsingum af hálfu þeirra manna, sem hér eru umboðsmenn fyrir olíuhringana.

Nú finnst mér þetta svo eftirtektarvert, að þetta skuli fara saman, að þegar olíufélögin eru komin í þá aðstöðu að hafa keppinauta um að nota olíusöluna í Hvalfirði, þá skuli allt í einu eiga að loka fyrir það, að menn geti fengið olíu í Hvalfirði. Og mér finnst full ástæða til að halda það, að olíufélögin hafi beinlínis lagt sig fram um að koma þessari breyt. á til þess að geta áfram haft alveg einræði í þessum sölumálum hér á landi. Og ef því væri til að dreifa, sem líkur benda til að sé, þá finnst mér þetta vera svo alvarlegt mál, að full ástæða er til þess fyrir ríkisstjórnina að láta fara fram sérstaka athugun á þessu. Og ég er alveg viss um það, að hæstv. ríkisstjórn hefur Alþingi á bak við sig í því að krefjast þess, að þau viðskipti, sem hér hafa farið fram nú um skeið með olíuna í Hvalfirði, þau geti farið fram framvegis eins og verið hefur, en þessu sé ekki breytt til óhagræðis fyrir landsmenn í það horf, sem nú virðist vera ætlunin að breyta málinu. Ég er viss um, að ríkisstjórnin hefur Alþingi á bak við sig í að krefjast þess, að svo verði gert. Og mér finnst ákaflega einkennilegt, ef þeir, sem fjallað hafa um þessi mál hér, eftir að hafa fengið upplýsingar um, hvernig á þessum málum hefur verið haldið undanfarið, fallast ekki á, að þetta verði svo að vera, eins og ég hef haldið fram. Þeir menn hljóta að sjá, að það er óbærilegt fyrir landsmenn, eftir að hafa séð, hvernig þetta er í pottinn búið, að þeir séu aftur færðir undir valdsvið þeirra hringa, sem eru orðnir berir að þessari viðskiptaóhæfu, sem lýst hefur verið. Þá vil ég aðeins að endingu taka það fram, að mér virðist, að það, sem nú hefur verið upplýst um viðskipti olíufélaganna, það staðfesti í raun og veru allan þann lakasta grun — eða það lítur svo út — í þessum viðskiptum, sem menn hafa haft um það, hvernig þessum viðskiptum öllum væri háttað. Og mér er ómögulegt að sjá, jafnvel þó svo færi, að landsmenn nú um stund væru keyrðir undir yfirráð olíuhringanna í þessum efnum, að landsmenn geti unað við slíkt til frambúðar, heldur hljóti að verða að styðja útgerðarmenn í því á Alþ., svo fljótt, sem kostur er á, að losa olíuviðskiptin úr því ófremdarástandi, sem þau sýna sig að hafa verið í.

Ég vil nú spyrja hæstv. ríkisstjórn að því, hvort hún hafi, nú á þessu stigi, nokkuð sérstaklega gert sér grein fyrir þessari hlið málsins í framtíðinni í þessu efni, og hvort hún hafi nokkrar till. á prjónunum í þeim efnum. Má búast við, að hún hafi ekki haft tóm til þess. En ég vildi ekki, að þessari umr. lyki svo, að ekki væri minnzt á þennan flöt á málinu, sem er ekki þýðingarminnsti liður þess.

Að endingu vil ég svo beina því til hæstv. ríkisstjórnar, hvort það sé ekki sjálfsagt, að þau samlög útvegsmanna — eins og nú er í pottinn búið —, sem geta nú tekið olíu úr Hvalfirði til sín og séð um dreifingu á henni heima fyrir hjá sér, fái tafarlaust aðstöðu til þess að kaupa þessa olíu, áður en skellur saman, ef ekki skyldi verða unnt að koma í veg fyrir þá breytingu, sem hér hefur verið rætt um í olíuverzluninni. Vil ég beina því til ríkisstj., hvort ekki sé hægt að afgreiða leyfi til slíkra samlaga nú strax, áður en óhapp kann að skella á í þessu efni.