25.11.1943
Efri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (1969)

172. mál, verðlækkunarskattur

Magnús Jónsson:

Ég gæti í rauninni sparað mér að taka hér til máls, því að ég er mjög sammála því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði hér um þetta mál. Ég get sagt það strax og það eins, þótt ég eigi sæti í fjhn., að ég get ekki fylgt þessu máli. Þótt sams konar frv. og þetta hafi verið samþ. hér s. l. vor og þótt segja megi að þetta sé aðeins framlenging á því, þá er viðhorfið allt annað nú en þá. Þá var þessi skattur aðeins partur af víðtækri löggjöf. Við hv. þm. Barð. víttum það, að það frv. kom ekki í þessa hv. d. fyrr en í þinglok, eftir að það hafði verið í glundroða í Nd. þingið út. Það var þá keyrt hér í gegn í skyndi og engin afstaða tekin til þessa skatts sérstaklega í frv., heldur aðeins fallizt á það í heild sem bráðabirgðalausn, þar eð annað hefði getað sett setningu sex manna n. og aðrar ráðstafanir frv. í hættu. Og einhverra tekna varð að afla, þar til þingið gæti tekið endanlegar ákvarðanir í þeim efnum.

Ég held, að það sé ekki hægt að líta á þennan skatt nema sem fyrirbæri til bráðabirgða, og ég leit aldrei á hann til frambúðar. Þessari tekjuöflun er valinn sá þrengsti hringur, sem verða má, þegar taka á fé til almennra ráðstafana, og kemur þyngst niður á þeim, sem alltaf eru nefndir, þegar talað er um nauðsyn þess að halda niðri vísitölunni vegna atvinnuveganna, en það eru smáútgerðarmenn. Ef vit á að vera í því að halda dýrtíðinni niðri með fjárframlögum, þá yrði að afla fjár til þess með sem allra almennustum gjöldum, þannig að lækkun á dýrtíðinni fengist fyrir lækkaðar kröfur allra jafnt,

En að taka fé í þessu skyni innan þröngra takmarka framlengir aðeins lítið eitt þá svikamyllu, sem dýrtíðin er. Það þarf sameiginlegt átak allrar þjóarinnar til þess að einhver árangur fáist.

Ég tók svo eftir, en það getur verið, að mér hafi misheyrzt, ég tók svo eftir, þegar hækkun á álagningu á víni og tóbaki var hér til umr.hv. fjmrh. liti svo á, að með þeirri tekjuöflun væri séð svo fyrir, að ekki þyrfti að framlengja verðlækkunarskattinn. Svo mikið er víst, að hv. ríkisstj. hefur ekki farið þess á leit, að þetta frv. væri flutt. Það er flutt af tveimur hv. þm., sem ég þykist vita, að séu ekki málpípur ríkisstj. öðrum fremur. Venjan er sú, er ríkisstj. vill koma frv. á framfæri, að þá fær hún einhverja n. til að flytja það. En hún bíður með afstöðu sína gagnvart þessu frv:

Ég tel, að afstaðan til þessa frv. sé óháð því, hvaða afstöðu menn kunna að taka til þess, að fé sé greitt úr ríkissjóði til þessa eða hins. Ég get tekið undir með hv. þm. Barð. um það, að afstaða mín til þessa frv. er óháð afstöðu minni til milligreiðslnanna yfirleitt. Í útvarpsræðu minni í gærkvöld benti ég á ýmsar fjáröflunarleiðir, sem fara mætti, ef halda ætti þessum greiðslum áfram. En það er mjög nauðsynlegt að skilja hér á milli uppbóta, sem greiddar eru á útfluttar landbúnaðarafurðir, og milligreiðslnanna hins vegar. Þetta eru gersamlega óskyldar greiðslur. Annað eru uppbætur til landbúnaðarins, nokkurs konar stríðsráðstafanir, af því að markaðir hafa farið forgörðum, og verð ég að segja, að ég tek afstöðu til þessara mála óháð dýrtíðinni í landinu sjálfu. Ég sé ekkert á móti því, að stríðsgróðamenn bæti upp það tjón, sem aðrir hafa liðið vegna stríðsins. Mér skilst, að ekki sé fé fyrir hendi í þessu skyni, heldur eigi að taka það sem hluta af milligreiðslunum. Nú bendi ég hv. flm. á, að það hefur alltaf verið reiptog og ágreiningur um það, hvað þessar milligreiðslur væru. Þær hafa verið kallaðar neytendastyrkir, styrkir til bænda o. s. frv. Ég vildi kalla það millistyrki til að halda niðri dýrtíðinni með sameiginlegu átaki. En þó að aldrei fáist úr þessu skorið, þá finnst mér augljóst mál, hvaðan þessu frv. er ætlað að afla tekna. Það má metast um, hver fái þær, en það er auðséð eftir þeim skattstiga, sem þessi skattur er tekinn eftir, að þessar tekjur koma frá neytendum. Það er verið að víxla fé milli neytenda og það eftir að lýst hefur verið yfir af bændum og fulltrúum þeirra, að þetta sé ekki gert í þágu bænda og að þeir vildu heldur fá verð afurða sinna beint frá neytendunum. Sumar vörur koma alls ekki á markaðinn, það borgar sig að halda þeim fyrir utan milligreiðslurnar, svo að mikill hörgull er á þeim. Annars er það nú svo og svo að verðuppbæta útfluttar afurðir, svo að verðið verði svo hátt á þeim, að hindri söluna innan lands. Þar sem bændur eru ekki heldur ginnkeyptir fyrir þessum aðförum, þá finnst mér ósamræmi í því, hvernig við högum þessu til, og ég tel mjög óheppilegt að afla fjár í þessu skyni á mjög takmörkuðu sviði.

Ég skal svo ekki fara út í það, sem hv. 6. þm. Reykv. tók hér alveg sérstaklega skýrt fram og ræður miklu um mitt atkv. líka, eins og t. d. það, hvað hér er gengið alveg geipilega inn á tekjumöguleika bæjanna, og ég vil segja sérstaklega Reykjavíkur, með þessu, þar sem þessi skattur tekur áreiðanlega svo að mörgum millj. skiptir frá tekjumöguleikum Reykjavíkur. Og það setur vitanlega sín spor á greiðslugetu bæjarbúa, þegar bærinn þarf að afla sér nauðsynlegra tekna með tiltölulega hliðstæðum skatti þeim, sem hér er um að ræða.

Eins og ég tók fram áðan, þá tel ég afstöðuna til þessa frv. út af fyrir sig ekki neitt svar við því, hvaða skoðun maður hefur almennt á milliborgunarleiðinni í dýrtíðarmálunum. Og ég skal því ekki fara út í almennar umr. um það efni. Hins vegar finnst mér ekki viðurhlutamikið, meðan hæstv. ríkisstj. leitar ekki sjálf heimildar til beinna skatta til þess að standa straum af þessum málum og þar sem hins vegar má búast við, að ekki verði langt að bíða næsta þings, sem þá gæti, ef það vildi, tekið ákvörðun í þessu máli, — mér finnst ekki viðurhlutamikið, þegar svona stendur á, að fella þetta frv. hér. Ég álasa ekki þeim hv. þm., sem bera þetta fram. Þeir sýna skoðun sína á því, hvernig þeim þykir eðlilegt að afla þessa fjár. Og ég er ekki hissa á því, að það hittist svo á, að það eru tveir hv. þm. fyrir sveitakjördæmi, sem bera þetta fram, því að þessi skattur mun yfirleitt ekki koma þar niður. Og það er þægilegt að afla tekna þannig, að ekki lendi á manni sjálfum eða þeim, sem manni eru næstir. Ég býst við, ef þetta frv. væri samþ., að það yrði ákaflega lítill skattur, sem með honum kæmi úr kjördæmi hv. 1. þm. Eyf. (BSt). En það er þá ekki nema eðlilegt, að við möldum eitthvað í móinn fyrir þá, sem eiga að borga þetta næstum því allt.

Ég sé á hinn bóginn ekki, að það komi þessu máli við, að það sé komið alllangt áleiðis frv. um það að fella niður þá almennu heimild, sem sumir álíta, að ríkisstj. hafi í dýrtíðarl. til að greiða niður verð, því að ég hef ekki heyrt neitt orð um það, að þeirri niðurfellingu eigi að fylgja það, að það eigi að neita ríkisstj. um heimildir til þessara greiðslna. Það er grundvallarskoðanamunur á því, hvort í þessu efni er nú um heimild að ræða í l., og hef ég og margir aðrir hv. þm. álitið, að réttara og þinglegra væri, að til kæmi alveg sérstök heimild frá Alþ., ef þessum milligreiðslum á að halda áfram.

Ég sé þess vegna ekki ástæðu til, að þetta frv. gangi fram. Og helzt ætti það ekki að ganga lengra. Maður getur sagt, að það sé kannske harkalegt að greiða atkv. á móti frv. til n., og ég hef ekki gert upp yið mig, hvort ég vildi greiða atkv. með því til n. eða láta það hlutlaust, að það færi til 2. umr. og n. En að minni skoðun er það þýðingarlaust, af því að í sambandi við þetta frv. tek ég enga sérstaka afstöðu til dýrtíðarmálins. Hvaða afstöðu sem ég hef til dýrtíðarmálsins, þá verð ég ekki með þessu frv., hvorki óbreyttu né breyttu á einhvern hátt, sem sé, að tekna sé aflað á þann hátt, sem þar er gert ráð fyrir.