21.04.1943
Sameinað þing: 6. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (2012)

11. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég get ekki að því gert í sambandi við þetta mál, að mér dettur í hug fyrri hluti alkunnrar vísu:

Margt er sér til gamans gert geði þungu að kasta.

Ég verð að álíta, að eitthvað í þá átt, sem í vísunni segir, hafi vakað fyrir Sósfl., kommúnistunum, þegar þeir kröfðust útvarpsumræðna um þetta mál, þeir hafi viljað skemmta sér og e. t. v. einhverjum fleiri, því að þýðingu gátu þessar umr. ekki haft. En seinni hluti vísunnar:

Það er ekki einskis vert

að eyða tíð án lasta —

á lakar við, því að tímanum, sem í þessar umr. fer, er ekki svo sérlega vel varið.

Hv. þm. G.-K. hefur nú fært rök að því, sem varla verða vefengd, að haldi ófriðurinn áfram, stöndum við alveg eins vel að vígi að leysa stjórnarskrármálið í sept. eins og nú, en komi eitthvað óvænt fyrir, svo sem að friður yrði saminn milli stríðsaðila, má telja víst, að ríkisstj. láti ekki standa á sér að kalla saman Alþ. Vegna þess máls þarf því ekki að halda áfram þinghaldi nú. Fjárlfrv. hefur nú verið lagt fyrir Alþ. til þess að fullnægja fyrirmælum stjórnarskr., en ekki af því, að neitt sé hægt um það að ræða að svo komnu. Þegar þingið kemur saman eftir þingfrestun, mun ríkisstj. leggja fram gagngerðar breytingar, sem henni finnst þá tímabært að gera, og má þá gera ráð fyrir, að þar verði um nýtt frv. að ræða. Fyrr er ekki hægt að vinna neitt verulegt í þinginu að samningu fjárl.

Ég vil nú ekki á nokkurn hátt taka undir með þeim, sem gera lítið úr störfum Alþingis og telja þessa löngu þingsetu, sem orðin er, þýðingarlausa. Þvert á móti hefur þetta síðasta þing staðið í miklum vanda og þrátt fyrir sundrung í sumum efnum tekizt að leysa ýmis aðkallandi mál, og ráðstafanir hafa verið gerðar til undirbúnings öðrum.

En þrátt fyrir þetta held ég, að allir geti orðið sammála um það, að síðasta þing hafi staðið það lengi, að allir flokkar og einstakir þm. hefðu átt að geta komið fram með þau áhugamál sín, sem þeim finnst nú kalla að.

Hér liggur fyrir þáltill. frá ríkisstj. um að fresta Alþ. til 1. sept. n. k. Aðstaða til þessarar till. á að markast af því einu, hvort menn telja framhald á þingsetu geta gert þjóðinni verulegt gagn. Skal það nú athugað. Stjórnarskrármálið og fjárl. eiga að bíða haustsins, á því leikur ekki vafi. Stjórnin og þm. yfirleitt eru óviðbúnir að leggja fram ný mái. Yfir hverju ætti þingið að sitja?

Þó að margir þm. Framsfl. séu heimfúsir og e. t. v. heimfúsari yfirleitt en fulltrúar annarra flokka, einkum þeir þm., sem eru bændur, mundu þeir samt ekki telja eftir sér að sitja hér enn í mánuð, ef nokkrar líkur væru til, að það bæri góðan árangur fyrir þjóðina.

En til þess eru engar líkur vegna óheilinda Sósfl. þrátt fyrir glamur hans og reyndar beggja verklýðsflokkanna. Þetta sýnir reynslan frá síðasta þingi, og þetta er enn fremur ljóst af viðræðum milli flokkanna nú, eins og brátt skal sannað.

Mér hefur skilizt og sérstaklega af ræðu fulltrúa Sósfl. um skattamálin í gær, að sá fl. vildi framlengja þingið vegna skattamálanna. En hver eru heilindin?

Í sambandi við þetta skal ég víkja að því, sem hv. þm. G.-K. var að reyna að læða hér inn áðan, að það væri stefna „vinstri flokkanna“, sem hann kallar, að sækja sem allra mesta skatta í vasa ríkisborgaranna. En hver, sem athugar till., sem þessir flokkar hafa nú borið fram, geta séð, að þar er ekki að ræða um almenna skatthækkun, heldur aðeins skatt á stríðsgróða, sem er kominn yfir allhátt lágmark.

Í dýrtíðarfrv. ríkisstj. á síðasta þingi voru kaflar um skatta, bæði um afnám skattfrelsis á varasjóðum gróðafélaga og um eignaraukaskatt á stríðsgróða. Báðir þessir kaflar hefðu getað staðið til bóta.

Þeir voru felldir úr frv. af bandalagi Sjálfstfl., Sósfl. og Alþfl. Þetta bandalag kom berlega fram í Ed. Þegar frv. kom þangað frá Nd., var þar enn ákvæði um afnám skattfrelsis gróðafélaga. Við framsóknarmenn vildum samþ. frv. óbreytt, en þessir þrír flokkar gerðu bandalag um að fella þetta ákvæði niður. Það var aðeins tyllisök þeirra, að slík ákvæði ættu ekki heima í frv., heldur í skattal. Ekkert var eðlilegra en slíkar óvenjulegar skattákvarðanir væru í l. um ráðstafanir vegna hins óvenjulega ástands.

Þegar þingi sleit, vissum við framsóknarmenn að einskis var af verklýðsflokkunum að vænta um samkomulag til að skattleggja stríðsgróðann. Við vildum þó, áður en við tækjum ákvörðun um þingfrestun, ganga alveg úr skugga um þetta. Það höfum við nú gert.

Samkomulag náðist um flutning frv. um eignaraukaskatt. Framgangur þess frv. ætti að vera tryggur.

Þarf að fresta þingi vegna þess skatts? Nei. Það kemur alveg að sömu notum að samþ. hann í haust, því að hann byggist á skattskýrslum, sem þegar eru fyrir hendi.

Um hitt atriðið, afnám skattfrelsis varasjóðanna, er öðru máli að gegna. Það þurfti að samþ. nú, ef það átti að koma til framkvæmda við skattálagningu í ár.

Vegna þess máls hafði Framsfl. viljað halda þingi áfram um sinn, ef framgangur þess hefði orðið tryggður. Sú trygging fékkst ekki, hvorki hjá Alþfl.Sósfl. Sannanir þess eru í bréfum, sem milli fóru. Í bréfi, sem Framsfl. sendi þeim flokkum 16. apríl, hvorum um sig, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Framsfl. býður hér með Alþfl. (í hinu bréfinu: Sósfl.) samkomulag um að flytja nú þegar á Alþ. frv. um neðangreindar bráðabirgðabreytingar á skattal. og jafnframt samkomulag um að fylgja frv. fram með þeim mesta hraða, sem unnt er, þannig að það verði afgreitt sem lög fyrir þingfrestun“. En tillögurnar voru þær, að skattfrelsi varasjóða skyldi niður falla, nema skattfrelsi nýbyggingarsjóða haldast. Svar við þessu barst aldrei skriflega frá Alþfl., en munnlega var skýrt frá því, að á þessu stigi málsins óskaði Alþfl. ekki að taka þátt í flutningi þess frv., sem um var rætt í bréfinu. Sósfl. svaraði með bréfi 17. apríl:

„Vér höfum móttekið bréf yðar frá 16. þ. m. Sósfl. hefur í undirbúningi till. um breyt. á skattalögunum og l. um stríðsgróðaskatt, og fjalla þær m. a. um afnám varasjóðshlunninda að svo miklu leyti sem sjóðunum er ekki varið til nýbygginga, og um eflingu og tryggingu nýbyggingarsjóðanna. Eru þar í þau aðalatriði um þetta efni, sem áður hafa fram komið af hálfu flokksins og hann telur nauðsynleg, auk nokkurra víðtækari breytinga. (Taki menn eftir orðunum: auk nokkurra víðtækari breytinga!) Vér munum sýna yður þessar till., jafnskjótt og þær eru tilbúnar, og þætti mjög æskilegt, að samvinna gæti tekizt um þær og að þeim yrði hraðað svo, að hægt væri að afgreiða málið áður en þingi verður frestað“.

Þessar till. hafa nú borizt okkur í frv.formi, og skal ég ekki fara langt út í að lýsa þeim, skal láta nægja að benda á, að í 4. gr., b, er ákvæði, sem tvímælalaust brýtur í bág við stjórnarskrá landsins og þar af leiðandi kemur ekki til mála, að Framsfl. geti, er slík skilyrði eru sett, gengið að því frv. Þar segir svo, að verði skattþegn gjaldþrota, skuli nýbyggingarsjóður hans eigi renna til búsins, heldur í nýbyggingarsjóð, sem sé eign þess bæjar- eða sveitarfélags, sem skattþegn átti heima í. Kröfuhafar eiga m. ö. o. ekki að geta gert neina kröfu í þessa eign félags, sem orðið hefur gjaldþrota.

Framsfl. þóttu þetta loðin svör og skrifaði af nýju báðum flokkunum 19. apríl, þar sem segir: „Með tilvísun til bréfs Framsfl. til Alþfl. og Sósfl., dags. 16. þ. m., sendum við yður hér með frv. til l. um sérstök ákvæði um álagning skatta 1943, prentað sem handrit, ásamt greinargerð. Hefur Framsfl. ákveðið að leggja frv. þetta fram á Alþingi nú þegar, ef vissa er fyrir, að það nái samþykki. Viljum við hér með spyrjast fyrir um það, hvort þm. Sósfl. (í hinu bréfinu Alþfl.) vilji greiða frv. atkvæði í þinginu og beitast fyrir því ásamt Framsfl., að meðferð þess verði hraðað. Við viljum vekja athygli á, að aðrar breyt. á skattal., sem Framsfl. hefur hlutazt til um að flytja eða mundi styðja, koma að fullu gagni, þótt afgreiðsla þeirra biði til næsta hausts. Vegna þingmannafundar um þingfrestun, sem boðaður hefur verið kl. 10 árdegis á morgun, óskar flokkurinn svars yðar um þetta kl. 9 í fyrramálið á flokksfund, sem þá verður haldinn í alþingishúsinu“.

Þessu bréfi svaraði Alþfl. engu og Sósfl. vífilengjum einum í bréfi, er hann sendi Framsfl. (EOl: Bezt að lesa vífilengjurnar). Ekki tími til þess, farið var að skrafa þar um stjórnarskrána, en engu svarað um það, sem að var spurt.

Það lá þá fyrir, að ekkert gagn gæti orðið í skattamálunum frekar en öðrum af framhaldandi þingi, ekkert gagn, aðeins kostnaður fyrir ríkissjóð og leiðindi fyrir heiðarlega þingmenn. Það var þvert á móti víst, að verklýðsfl. mundu sæta færi að koma frv. Framsfl. fyrir kattarnef, eins og ljósast er af fyrra bréfi Sósfl. og framkomu hans síðan. Ég skil það, að ýmsir þm., sem heima eiga í Rvík, hafi ekkert á móti að sitja þingið sem lengst og fá aukakaup fyrir þingsetuna. En það, sem girðir fyrir árangur af þingsetu, eru óheilindin. Það er alkunnugt, og Sósfl. kemst ekki frá því þrátt fyrir sínar málaflækjur, að þessi er siður hans, að látast vera með málum, en gera, þegar minnst varir, bandalag við andstæðinga sömu mála og koma þeim fyrir kattarnef. (SigfS: Dæmi). Skattfrelsi varasjóða gróðafélaganna er gott dæmi um, hvernig þeir fara að. Annars væri æskilegast að hafa ekki miklar framítökur, þegar útvarpsumr. eru.

Af þeim ástæðum, sem ég hef greint, svo og sakir þess, hversu þinghaldið er orðið langt í vetur og flestir þm. því margleiðir á því, sér Framsfl. ekki, að gagn geti orðið að framhaldi þingsins nú, og hann vill ekki stuðla að tilgangslausu þinghaldi, en ég vil árétta það, að ef eitthvað ber að höndum varðandi sjálfstæðismál þjóðarinnar, eins og t. d., ef friður yrði saminn, sem varla kemur til, væntum við, að þ. yrði kallað saman með svo stuttum fyrirvara, sem verða má.

Framsfl. mun því samþ. þá þáltill., sem fyrir liggur, um að fresta nú fundum Alþingis.