23.11.1943
Neðri deild: 52. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (2026)

34. mál, erfðalög

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Á öndverðu þingi flutti ríkisstj. frv. til erfðal., sem ætlazt er til, að komi í stað tilskipunar, sem gefin var út árið 1850 og er því orðin allt að því aldar gömul. Allshn. hefur haft frv. til meðferðar og hefur sent það lagad. háskólans til umsagnar. Fyrir nokkru barst umsögnin, þar sem d. taldi rétt, að fram færi frekari undirbúningur og n. lögfræðinga væri látin endurskoða erfðalöggjöfina ýtarlega og gera síðan till. um breyt. á henni eins fljótt og unnt er. Allshn. ræddi þetta mál síðar á fundi sínum og fékk til viðtals hæstv. félmrh. Niðurstaðan varð sú, að málið yrði afgreitt með svofelldri rökst. dagskrá:

„Í trausti þess, að hæstv. ríkisstj. láti fram fara gagngera endurskoðun erfðalöggjafarinnar og leggi þær niðurstöður fyrir Alþ. eins fljótt og unnt er, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Ég vil í meginatriðum vísa til nál. og umsagnar lagad. háskólans, en þó þykir mér rétt að minnast nokkrum orðum á ástæðuna til þess, að n. taldi ekki fært að afgreiða frv. á þessu stigi.

Með þessu frv. er gerð róttæk breyt. á gildandi erfðal. Aðalbreyt. má telja þá, að rétturinn til arfs vegna skyldleika er takmarkaður við nánari ættingja en áður var. Samkvæmt núgildandi l. geta mjög fjarskyldir ættmenn eða útarfar komið til greina um úthlutun arfs, en eftir frv. er ætlazt til, að þetta verði takmarkað þannig, að erfðarétturinn gangi í beinan legg. N. er sammála um, að með þessu sé stefnt í rétta átt, en með núgildandi l. sé gengið of langt í því að veita fjarskyldum ættmennum erfðarétt. Hins vegar er n. ekki sammála um, að rétt sé að takmarka þetta eins mjög og gert er með frv., t. d. þannig, að bræðra- eða systrabörn séu svipt arfi, en þetta er eitt af meginatriðum í frv., og telur n., að það þurfi frekari athugunar við.

Annað atriði, sem frv. gerir breyt. á, er erfðaréttur kjörbarna gagnvart foreldrum og kjörforeldrum. Samkvæmt frv. á að slíta erfðatengsl kjörbarna og náttúrlegra foreldra, og orkar mjög tvímælis, hvort rétt er að ganga svo langt.

Þriðja breyt. er sú, að í stað þess, að arfur, sem enginn á löglegan rétt til, fellur nú allur til ríkissjóðs, skal aðeins ¼ hluti arfsins falla í ríkissjóð, en hitt skiptist að jöfnu milli ellistyrktarsjóðs og sjóðs til uppeldis og menntunar ungmenna innan 18 ára aldurs í hlutaðeigandi bæjar- eða sýslufélagi. Þetta telur nefndin til bóta og er því fylgjandi, enda er augljóst, að eftir að erfðaréttur hefur verið takmarkaður, verða þær fúlgur hærri, sem talizt geta yfirgefinn arfur.

Ég hef nú drepið á helztu breyt., sem gert er ráð fyrir í frv., og sé ekki ástæðu til að gera það frekar að umræðuefni. En á hinn bóginn hefur bæði lagad. og allshn. virzt rétt, úr því að farið er að endurskoða erfðalöggjöfina, að ýmislegt í orðalagi og efni hennar verði athugað nánar. Ég vil benda á 12.–14. gr., sem eru teknar orðrétt úr gömlu erfðal. og eru ekki lengur í samræmi við breyttar réttarvenjur um fjárhag hjóna og afstöðu þeirra sín á milli. Sú gr. frv., sem fjallar um fyrir fram greiddan arf, þarf endurskoðunar við. Enn fremur er gr. um erfðaskráningu, sem tekin er upp úr gömlu erfðal., orðin úrelt. Það er nokkuð almennt álit manna, að þegar þeir hafa gert erfðaskrá sína og tilkvatt tvo votta til undirskrifta, þá sé allt í lagi og erfðaskráin fullgild, en samkvæmt núgildandi l. og ákvæðum frv. mundi hún samt yfirleitt ekki verða tekin gild, ef annar votturinn er látinn eða báðir eða þeir orðnir ófærir um að láta staðfestingu í té. Ég bendi á þetta sem atriði, er þarf endurskoðunar við. Ýmislegt annað gæti komið til greina, t. d. það, að notarius publicus staðfesti erfðaskrár manna. Þá má benda á eitt atriði enn. Í l. er svo ákveðið, að maður, sem á arfgenga niðja, geti ráðstafað ¼ eigna, en ¾ eru skylduarfur. Það væri athugandi, hvort ekki ætti að heimila að leggja hömlur á meðferð þessa skylduarfs, ef erfingja er ekki trúandi til að fara skynsamlega með arfinn.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en ég hef sem sagt bent á ýmis atriði í erfðal., sem þurfa frekari breyt. við. Hins vegar er erfitt fyrir n. að gera umfangsmiklar breyt. og er eðlilegt, að sérfróðir menn séu settir til að athuga þetta mál fyrir næsta þ. Þess vegna hefur n. samþ. að afgreiða málið með rökst. dagskrá, þar sem ríkisstj. er falið að láta fara fram gagngera endurskoðun erfðal.