15.11.1943
Efri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (2085)

22. mál, friðun Patreksfjarðar fyrir skotum

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Í frv. þessu er lagt til, að „öll fuglaskot, að undanskildum skotum vegna útrýmingar svartbaks, selaskot og hvers konar önnur veiðiskot skulu hér eftir bönnuð á Patreksfirði fyrir innan línu, sem hugsast dregin frá Blakknesi í Tálkna yzt“.

Frv. er flutt af þm. Barð. (GJ), og hefur Alþingi borizt áskorun frá 20 ábúendum í Patreksfirði og auk þess frá ýmsum íbúum í Patreksfirði, þar á meðal hreppsnefnd Patrekshrepps, um, að Alþ. setji. l. eins og gert er ráð fyrir í frv. Hins vegar hefur ekki borizt nein umsögn frá sýslun. Barðastrandarsýslu.

Allshn. hefur athugað þetta frv., og án þess að hún vilji taka nokkra afstöðu til efnis þess, hefur hún komizt að þeirri niðurstöðu, að ákvæði eins og þau, er í frv. felast, geti sýslun. tekið upp í lögreglusamþykkt sýslunnar, ef hún óskar þess, samkv. l. frá 1890 um lögreglusamþykktir fyrir kaupstaði, sem síðan hafa verið látin ná til sýslufélaga. Þar er leyft að fengnum till. frá sýslun. að skipa málum sýslunnar með lögreglusamþykkt. Þar á meðal er hægt að taka upp friðun og verndun á almannagripum og eignum og takmarkanir á notkun opinna eða lokaðra svæða við stundun ýmissa atvinnuvega, t. a. m. fiskverkunar, lifrarbræðslu og slátrunar, er heilbrigði vegna eða af öðrum ástæðum mega teljast nauðsynlegar eða haganlegar o. fl.

Lítur allshn. svo á, að sýslun. geti, ef hún óskar eftir, fengið ákvæði eins og þau, sem farið er fram á í frv. þessu, tekin upp í lögreglusamþykkt sýslunnar, og telur allshn. þegar af þeirri ástæðu ekki rétt, að frv. verði samþykkt. Þar við bætist svo, að ekki þykir eðlilegt, að þessu máli verði skipað að l., meðan ekki liggur fyrir till. frá sýslun. um það, og einnig af þeirri ástæðu er lagt til, að frv. verði ekki samþykkt.

Það er því einróma álit n. að leggja til, að frv. verði afgreitt með rökst. dagskrá, sem lögð er fram á þskj. 380.