16.11.1943
Efri deild: 49. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (2098)

21. mál, ábúðarlög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. landbn. hefur nú verið meira en tvo mánuði að komast að þessari niðurstöðu, og er það annað hvort, að þessi skoðun hefur ekki ríkt hjá n. upphaflega, eða einhver önnur áhrif hafa orðið til þess að tefja málið. A. m. k. hlýtur eitthvað verulegt að vera orsök þess, að n. hefur séð sér fært að tefja málið í þessar 10 vikur. Helztu rökin, sem eru svo komin fram á móti þessu, eru þau, að þetta muni brjóta í bág við 62. gr. stjskr. og að því sé ekki víst, þótt þetta frv. yrði samþ., að allir aðilar vildu eða þyrftu að leggja sig undir það.

En ég vil benda á það, að á síðasta þingi var samþ. í 15. gr. húsaleigul. ákvæði, sem hnígur alveg í sömu átt. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Hafi leiga eftir slík hús, bryggjur og palla verið greidd með aflahlut, getur aðili krafizt, að leigan verði metin til peningaverðs, og má leiga þessi ekki hækka meira en sem svarar hækkun almennrar húsaleigu“. Þarna er fordæmi, sem sýnir það, að ríkið hefur gripið inn í gerða samninga og ákveðið, að leigan skuli ekki greidd með aflahlut, þótt samningar hafi verið gerðir um, að greitt skyldi með aflahlut, og þetta var gert vegna þess, að aflahluturinn er svo miklu hærri fjárhæð nú en hann var, þegar samningar voru gerðir.

Þegar maður tekur jörð á leigu og á að greiða afgjald hennar í dún, þá er heldur ekki sama, hvað hann greiðir fyrir þá vinnu, sem fer í það að hreinsa dúninn, og það er vitað, að sú vinna er nú mörgum sinnum dýrari en fyrir stríð. Hér er því gengið á rétt þeirra manna, sem við þessar aðstæður eiga að búa, og því ósæmilegt að vísa nú málinu frá. Ég veit um jörð, sem er leigð fyrir 80 pund af dún. Fyrir stríð kostaði pundið 30 kr., og var afgjaldið því 2400 kr., en nú kostar pundið 120 kr., og er því afgjaldið komið upp í 9600 kr. Og hvað heldur svo hv. frsm., að bóndinn þurfi nú að borga mörgum sinnum meira fyrir vinnuna við að hreinsa dúninn en fyrir stríð? Hann þarf nú að borga a. m. k. fimmfalt meira fyrir þá vinnu. Ég hygg, að þótt hv. frsm. snúist nú svona við þessu máli, þá hafi honum þó ofboðið sú leiga, sem hv. landbn. fékk upplýsingar um, að bændur þurfi að borga 15 þús. kr. og þar yfir fyrir jarðir, sem eru virtar á 30-40 hundruð á landsvísu, og það þótt þær séu svo illa hýstar, að vart sé viðunandi og ekki fáist úr því bætt.

Ég skal þá snúa mér að stjskr. Hvað segja menn um ákvæði stjskr., þegar þeir eru að samþ. skattaálögur, sem eru látnar verka aftur fyrir sig? Á stjskr. einungis að vera til þess að vernda hinn sterka, en ekki hinn veika? Á hún aðeins að vera bakhjarl fyrir ríkið og hina auðugu, til þess að þeir geti gengið á rétt hinna fátæku og smáu? Það virðist nú eiga að fara að leika slíkan leik hér, en það er nokkuð, sem ég vil engan þátt taka í.

Ég veit ekki betur, þegar dýrtíðarl. voru til umr. í fyrra, en þá hafi þótt sjálfsagt að rifta öllum samningum við verkalýðsfélögin. Og af hverju? Af því að það var Alþýðusambandið, sem var hinn sterki. Af því að það var hinn sterki, þá þótti sjálfsagt að víkja til ákvæðum stjskr. fyrir það. Slíkt hefði vafalaust ekki verið gert, ef um samninga v ið einstaka fátæka verkamenn hefði verið að ræða. Ég vil því ekki taka þessi rök um brot á ákvæðum stjskr. gild. Ég held, að það væri óhætt þeirra vegna að samþ. þetta frv. og lofa svo hlutaðeigendum sjálfum að láta dómstólana skera úr um, hver réttur þeirra væri.

Hv. frsm. var að tala um, að það þyrfti að afla frekari upplýsinga í sambandi við þetta mál. Það þótti ekki nauðsynlegt að fá upplýsingar viðvíkjandi því ákvæði, sem sett var inn í 15. gr. húsaleigul. í fyrra, en af því að það eru fátækir bændur, sem hlut eiga að máli, þá þykir sjálfsagt að eyða 2–3 árum í það að afla upplýsinga um mál, sem liggur þó alveg ljóst fyrir.

Ég ræddi þetta mál við búnaðarmálastjóra, áður en ég flutti þetta frv. hér í þinginu, og hann taldi nauðsynlegt að fá þessu breytt til þess að koma í veg fyrir það ranglæti, sem skapazt hefur af ástæðum, sem enginn ræður við, og ég vænti þess, að hv. frsm. hefði getað fallizt á þá skoðun í stað þess að láta nú dragast í björg frá sínum hugsjónum.