03.12.1943
Neðri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2143)

110. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Svo sem kunnugt er, hefur þetta mál verið deilumál nú um sjö ára skeið, deilumál milli flokka og manna og það með eðlilegum hætti. Svo sem menn muna, beitti Framsfl. sér fyrir því hér á Alþ. árið 1936 að koma þessu ákvæði inn í jarðræktarl. og náði þetta þá fram að ganga. Að heita má alla tíð síðan hefur þetta verið töluvert deilumál, og höfum við Sjálfstflm. löngum staðið einir að því að reyna að fella þetta rangláta ákvæði niður, sem þessi 17. gr. felur í sér, en eftir því sem lengra hefur liðið, því betur hefur komið í ljós, hversu óvinsælt þetta ákvæði er meðal bændastéttar landsins. Á sínum tíma voru það töluvert margir bændur meðal Framsfl., sem trúðu á þetta ákvæði, en eftir því sem lengra hefur liðið, hafa fleiri og fleiri snúizt gegn því og þótt nauðsyn að fella það niður. Við síðustu alþingiskosningar, bæði þær, sem fóru fram 15. júlí og 18. okt., lýstu ýmsir af frambjóðendum Framsfl. yfir því, að þeir mundu beita sér fyrir því, ef þeir næðu kosningu, að fá þetta ákvæði afnumið, og var þetta t. d. þannig þar, sem ég var frambjóðandi, svo að mér er um þetta kunnugt, og ég hygg, að svo hafi verið í fleiri héruðum. En á það var bent, að ekki væri víst, að þeir gætu fengið þessu áorkað, þótt þeir fengju aðstöðu til að beita sér fyrir því, vegna þess að meiri hluti Framsfl. ræður úrslitum með að fá vilja sínum framgengt. Ég get ekki fallizt á það, sem meiri hl. landbn. heldur fram, að ekki sé hægt að taka ákvarðanir í þessu máli nú, vegna þess að nú sé starfandi mþn., sem hafi þetta og önnur mál til meðferðar, því að áður hefur starfað önnur mþn. frá búnaðarþinginu um þetta mál, sem á sínum tíma var sammála, en starf hennar var eyðilagt hér á Alþ. með alls konar brtt., svo að málið varð að engu á því þingi og náði engri afgreiðslu. Ég hygg þess vegna, að það sé rétt fyrir þá þm., sem hafa einhverja skoðun á þessu máli, að láta hana koma fram, en ekki að skjóta sér bak við neinar aðrar vafasamar ráðstafanir, sem eru ekki líklegar til að leiða til neinnar niðurstöðu.

Hvað því atriði viðvíkur, sem frsm. meiri hl. var að tala um, að það væru önnur fleiri ákvæði, sem kæmu til greina og væru þessu máli skyld, eins og 48. gr. nýbýlasjóðsl., þá er það að vísu rétt, að þetta eru mjög skyld ákvæði, þó að þau séu annars eðlis, og mun ekki standa á okkur, sem minni hl. skipum, eða Sjálfstfl. að fella þá gr. niður, ef það fæst fram að fella 17. gr. jarðræktarl. Að öðru leyti eru þessi ákvæði efnisleg, og er það vel kunnugt af öllum þeim deilum, sem fram hafa farið, síðan þau voru sett. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum að svo stöddu, en vænti þess, að menn geti tekið ákvarðanir um það, hvort menn vilja halda áfram, að jarðræktarstyrkurinn til bænda sé þannig, að hann leiði af sér ríkisítök í jörðum þeirra, eða hann verði veittur sem verðlaun fyrir þær framkvæmdir, sem dugandi bændur hafa innt af hendi á jörðum sínum.