03.12.1943
Neðri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (2147)

110. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason) :

Frsm. meiri hl. landbn. talaði um ósamræmi í því að vilja fella niður 17. gr., án þess að taka með hliðstæð ákvæði úr nýbýlasjóðsl., en við höfum lýst yfir því, að við erum reiðubúnir til að fella einnig hin ákvæðin niður, en þessi 17. gr. er það atriði, sem mestri óánægju hefur valdið af eðlilegum ástæðum. Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. Mýr., að við, sem erum andstæðingar 17. gr., stóðum að l. varðandi nýbýlastyrk á sínum tíma, en við gerðum það aðeins til samkomulags, vegna þess að ekki voru líkur til að fá nýbýlasjóðsl. samþ., nema sett yrðu inn svipuð ákvæði. En þar er þó nokkuð öðru máli að gegna, því að þar er um stærri upphæðir að ræða til þess að byggja nýbýli, og að öðru leyti eru þessi ákvæði þannig, að þau koma að því gagni, sem til var ætlazt. Varðandi það atriði, sem hv. þm. Mýr. var að tala um, að ósamræmi væri í því, að 17. gr. væri þýðingarlaus og gagnlaus, en að hinu leyti hættuleg, þá er það nú svo einkennilegt, að þetta samræmist í þessu tilfelli. Gr. er að því leyti gagnslaus og þýðingarlaus, að hún hefur ekki náð því takmarki, sem formælendur hennar ætluðu að ná, en það var að koma í veg fyrir, að jarðir gengju kaupum og sölum, en hún hefur reynzt hættuleg að því leyti, að þetta — ákvæði hefur haft þau áhrif, að jarðrækt er ekki rekin af jafnmiklu kappi og ef þetta ákvæði væri ekki, því að það er mörgum bændum til skapraunar, að um leið og þeir gera framkvæmdir á jörðum sínum gegn einhverjum ríkisstyrk, skuli það þá vera gegn ríkisítaki.

Ég minntist hér á þá aðstöðu, sem orðin er í þessu efni hjá Framsfl., því að framsóknarmenn ráða hér úrslitum um þetta atriði, þar sem sósíalistar og Alþflmenn allir hafa verið þessari gr. fylgjandi, og er það í samræmi við þá stefnu þeirra að vilja helzt láta ríkið eiga allar jarðir í landinu. Það eru því framsóknarmenn, sem hér ráða úrslitum um, og við þá er því helzt að eiga í þessum deilum.

Ég hef fengið fréttir af því, að á fundi framsóknarmanna á Vesturlandi hafi risið upp einn flokksmaður þeirra úr bændastétt og gert fyrirspurn um það, hvort ekki mundi fást að afnema 17. gr. þessara l. Því var þá svarað, að það mundi ekki fást, en hitt gæti komið til mála, að þessu ákvæði yrði breytt. En fyrirspyrjandi sagðist þá ekki kunna við þetta, því að það væri venja í sinni sveit, ef menn finndu aðframkomna mæðiveikirollu, að skera hana til þess að stytta henni eymdarstundirnar. Fundarmenn voru nú ekki vissir um það sumir, hvort þessi líking ætti betur við 17. gr. jarðræktarl. eða Framsóknarfl., en menn héldu heldur, að það ætti við 17. gr. jarðræktarl. — En sannleikurinn er sá, að þessi gr. er í mörgum greinum skoðuð sem eins konar flokksmerki framsóknarmanna. Og það er auðséð, að svo er, þegar svo langt er gengið sem hv. þm. Mýr. hefur gert, sem er formaður Búnaðarfélags Íslands og á sérstaklega að hafa það verkefni með höndum að annast málefni bænda, skuli vera svo staður ár eftir ár, að hann geti aldrei á það fallizt að fella þessa óvinsælu gr. burt úr l.