27.09.1943
Efri deild: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2169)

68. mál, jarðræktarlög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Þegar hv. 1. flm. minntist á bílaeign landsmanna, datt mér í hug, hvort við gætum ekki orðið sammála um, að heppilegt væri, að hún ykist.

Vil ég beina því til hv. þd., hvort ekki væri ástæða til að athuga það nánar, þegar svo stendur á sem hér nú, að e. t. v. eru hundrað eða jafnvel þúsundir tækja í landinu, sem gætu orðið jarðyrkjuvélar, sem eru „jepparnir“, sem setuliðið hefur nú hér, er sýnast vera ákaflega vel fallnir til jarðvinnslu. Ég tel víst, að þeir séu einhver þau beztu verkfæri til að draga valtara. Og ég hygg, að með smábreyt. gætu þessi tæki reynzt hin prýðilegustu til að herfa flög. Ég treysti þeim ekki til þess að plægja. En ég hygg, að það ætti að athuga hitt tvennt, sem ég nefndi. Þessi tæki hafa 60 hestafla kraft. Og þar, sem erfitt er að koma heyi til bæja, hafa þau reynzt ágætlega við að draga heysleða. Ég get hugsað mér, að þessar vélar gætu hjálpað bændum afar mikið, því að auk þess sem ég taldi, gætu þær orðið bændum dágóðir reiðskjótar til þess að skreppa á til aðdrátta. Nú getur komið til, að þá og þegar komi sá tími, er hentast er að athuga um kaup á þessum áhöldum, og vildi ég minna hv. n., sem fær málið til meðferðar, og aðra á þetta atriði, sem ég tel, að ekki megi gleymast.

Svo vil ég geta annars hér. Þegar við erum að tala um það hér, að allmikill kostnaður sé við sléttun landsins, og gengið er út frá því, þá. má það heldur ekki gleymast, að þegar um ræktun er að ræða, þá er með því ekki nema bara önnur kostnaðarhliðin tekin fram, — því að ef gera á jarðrækt sæmilega, þá kostar kannske eins mikið og sléttunin sá húsdýraáburður, sem til ræktunarinnar þarf, ef nýrækt á ófrjóu graslendi á að gera, svo að í góðu lagi sé, eða ef sá áburður er ekki fyrir hendi, þá tilbúinn áburður í staðinn. Okkar jörð er ekki svo feit, að hún þurfi ekki ógrynni áburðar í byrjun ofan í flögin, þegar grasrækt er hafin á áður óræktaðri jörð.

Þessu tvennu vil ég beina til hv. þd. til athugunar.