09.09.1943
Neðri deild: 12. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (2235)

29. mál, fólksflutningur með bifreiðum

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Af því að hæstv. atvmrh. er að sinna öðrum málum í Ed., ætla ég að fylgja frv. úr garði með fáum orðum. Eins og hv. þd. er kunnugt, er svo fyrir mælt í l. um fólksflutninga með bifreiðum, að eigi megi veita sérleyfi á sunnudögum nema á sumum leiðunum. Nú hefur komið í ljós, að óheppilegt er að hafa þetta í l., þar eð enginn aðili er til, sem skyldur er að sinna fólksflutningum á sunnudögum til þeirra staða, sem undan eru þegnir, eins og t. d. Þingvalla, svo að mönnum er oft ókleift að komast til þessara staða eða frá þeim, ef þeir eiga ekki farartæki sjálfir. Því er lagt til, að þetta ákvæði sé fellt úr l.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. samgmn.