07.09.1943
Efri deild: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (2296)

17. mál, innheimta skatta og útsvara

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, lá fyrir síðasta þingi, en náði þá ekki samþykki. Á frv. hafa verið gerðar lítils háttar breyt. Hefur þar aðallega verið tekið tillit til tillagna frá tollstjóranum í Reykjavík um ýmis fyrirkomulagsatriði, sem betur mættu fara. Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til þeirrar grg., sem fylgdi frv. á síðasta þingi.

Ég vil leggja á það mikla áherzlu, að frv. geti náð staðfestingu á þessu þingi, því að ég tel það alveg óviðunandi fyrir ríkisstj., að einn stærsti aðaltekjuliður ríkisins fáist ekki innheimtur fyrr er síðustu eða síðasta mánuð ársins, eins og nú er. En með frv. þessu er stefnt að því, að ríkisstj. geti fengið þessar tekjur nokkurn veginn í jöfnum innborgunum yfir allt árið. Það sýnir sig, þegar ríkisstj. hefur lítið fé til umráða, að þetta veldur mjög miklum óþægindum. Slíkra óþæginda verður náttúrlega minna vart nú, meðan ríkisstj. hefur talsverð fjárráð. En þótt ekkert tillit sé tekið til þeirra þæginda, sem þetta skapar gjaldendum, þá álít ég það sé svo stórt atriði fyrir ríkisstj., að varla sé viðunandi, að því formi sé lengur haldið, sem nú er.