15.10.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (2342)

23. mál, afsláttarhross

Frsm. (Sigurður Þórðarson):

Herra forseti. Till sú til þál. á þskj. 29, sem hér er til umr., hefur tafizt í meðferð langt fram yfir það, sem flm. hennar ætluðust til. Með till. er farið fram á, að ríkisstj. láti nú þegar safna skýrslum í hrossahéruðum landsins um það, hve mörgum hrossum bændur vilja farga til slátrunar á þessu hausti, og í öðru lagi, að Búnaðarfél. Ísl. sé falið að gera tillögur um það, á hvern hátt hrossunum verði komið í verð. Ríkisstj. hefur nú framkvæmt þetta, þó að þáltill. sé ekki enn afgreidd á þingi, og því hefur allshn. orðið sammála um að leggja til, að samþ. verði svo hljóðandi umorðun á tillgr., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram, svo fljótt sem unnt er, ýtarlega rannsókn, í samvinnu við Búnaðarfélag Íslands og Samband íslenzkra samvinnufélaga, á því, hvernig helzt mætti koma afsláttarhrossum bænda í viðunandi verð og hvort ekki væri hægt þegar á þessu hausti að greiða eitthvað úr því málefni, og leggja annars rannsóknir sínar og tillögur fyrir næsta Alþingi“.

Nm. urðu sammála um, að skyldast væri að vísa málinu til aðgerða Búnaðarfél. Íslands og Sambandsins, þessara tveggja höfuðsamtaka bænda í landinu.

Annars má geta þess, að þáltill. hefur haft þær verkanir, að bændur í helztu hrossahéruðum landsins, t. d. í Skagafirði, vonast eftir og búast við hjálp frá því opinbera í þessu efni. Þess vegna mætti segja, að það hafi verkað dálítið óþægilega, að þáltill. kom fram og fékk ekki skjótari afgreiðslu en raun varð á. Málið er mjög aðkallandi. Nú er enginn útflutningur á hrossum, og reiðhestasala hefur minnkað mjög. Þess vegna getur hrossaeign bænda orðið stór voði, ef illa fellur með tíðarfar í vetur. Það þarf því að gera eitthvað til að greiða fyrir hrossasölu.

Ríkisstj. skrifaði Búnaðarfél., og það hefur hugleitt ýmis ráð til úrbóta, en það hefur ekki þýðingu nú að fara út í það. Ég vænti, að þar sem allshn. hefur orðið sammála um að leggja til, að þáltill. verði samþ., geti þm. einnig fallizt á það. Það er ekki hægt að gera sér vonir um, að það sé með skjótu móti hægt að bæta úr þessu málefni, en hitt er vonandi, að allt verði gert, sem hægt er. Þó að nauðsynin sé mikil nú til að bæta úr þessu, er það svo, að ef lítið eða ekkert verður hægt að gera í haust, er það ákaflega þýðingarmikið, að ráð verði fundin til bóta í framtíðinni. Hross eru orðin afar mörg, en bændur skirrast við að fækka þeim, ef þeir fá ekkert fyrir afsláttarhross sín. Ég vænti, að Alþ. taki vel á málinu, og vona, að því verði komið í betra horf en það er í nú.