06.09.1943
Neðri deild: 8. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

30. mál, einkasala á tóbaki

Ólafur Thors:

Mér þykir leiðinlegt, ef ég hef orðið til að spilla fyrir málinu með því að drepa á möguleika þess, að áfengisútsölunni yrði lokað einhverja stund, því að það kann að snerta illa fleiri en mig, ef það á að verða til langframa! En að ég talfærði það, stafar af eðlilegu orsakasambandi milli tóbaks og áfengis. Ég áleit ríkisstj. fara fram á þessa heimild af því að hún a. m. k. hugsaði sér að nota hana. Ef tóbakið hækkar, þá geri ég ráð fyrir, að ríkisstj. láti sér einnig detta í hug einhverja hækkun á áfengi. En eftir því sem ég bezt veit, hefur stj. heimild til að hækka áfengi án þess að spyrja Alþ. sérstaklega. Og ég get ekki fallizt á, að þetta mál fái einhvern alvarlegan blæ, þótt samfara tóbakshækkuninni yrði eitthvað hækkað brennivín, sem náttúrlega er góður og gagnlegur hlutur(!) eins og tóbak, en engu að síður hlutur, sem sumum okkar tekst að komast af án.

Hv. þm. kvaðst ekki vera á móti því, að tóbakið hækkaði, ef fénu yrði varið til skynsamlegra hluta. Þykist ég mega af þessu marka, að hv. þm. sé út af fyrir sig samþ. þeirri hugmynd, sem borin er fram af hæstv. stj. En varðandi hina hlið málsins, hvernig þessu fé er varið, er óhætt að taka undir það, sem hv. 4. þm. Reykv. lagði sérstaklega áherzlu á, að það er atriði út af fyrir sig og að Alþ. sjálft hefur rétt til þess að hafa um það endanlegt úrslitavald, hvernig bæði þessu fé og öðru, sem í ríkissj. berst, verði varið.