06.09.1943
Neðri deild: 9. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

30. mál, einkasala á tóbaki

Sigfús Sigurhjartarson:

Hv. þm. G.-K. (ÓTh) lagði á það áherzlu, að saklaust væri að samþ. frv. eins og þetta, því að Alþ. hefði alltaf í sinni hendi, hvernig féð yrði notað. Hæstv. ráðh. hélt því sama fram. Það er rétt, að fjárveitingarvald er í höndum Alþ. nema að því leyti sem það kann að afsala sér því með sérstökum lögum. Mér er ekki grunlaust um, að ágreiningur sé meðal þm. um, hvort þingið sé ekki búið að gefa stj. frambúðarheimild til fjárveitinga í sambandi við lækkun á útsöluverði landbúnaðarvara, og stj. mun líta svo á, að hún hafi þá heimild. Ég tel, að hún hafi hana ekki. En þegar farið er fram á svo óvenjulega málsmeðferð sem hér er gert, hlýtur manni að detta í hug, að eitthvað óvanalegt sé bak við, og grunur að vakna, að hér sé ríkisstj. að safna fé í sérstöku augnamiði. Og sé það svo, á hún að skýra Alþ. frá því, annað hæfir ekki. Deildin má ekki taka afstöðu til þessa máls í óvissu um, hvað fyrir stj. vakir með þessari ráðstöfun. Það er borið fram, að hér sé stj. veitt heimild, sem óvíst sé, hvort hún noti. En til hvers er þá verið að loka í dag allri tóbakssölu? Ef ekki ætti að hækka, væri það ástæðulaust. Hitt hlýtur að vera afráðið af ríkisstj. að nota undir eins heimildina, ef hún verður samþ., þótt ráðh. láti sem það sé óráðið. Þá get ég ekki annað en minnzt á þau ummæli ráðh., að óeðlilegt sé að hækka nú ekki þessar vörur, þegar þær séu orðnar hinar einu, sem séu að heita megi með verði, er var fyrir stríð. Þessi hæstv. ráðh. á sérstaklega að berjast gegn verðhækkun og harmar það að rekast þarna á vöru, sem hafi hvergi nærri hækkað nóg!

Ég er ekki tóbaksmaður og vildi fyrir mitt leyti, að tóbak sæist aldrei. En 70–80% landsmanna eru mér ekki sammála um það, og tóbakskaup eru hjá þeim eins óumflýjanlegur útgjaldaliður og hver önnur nauðsynjakaup. Á þennan meiri hluta þjóðar er lagður þungur skattur, ef frv. gengur fram. Ég gæti raunar fallizt á að hækka tóbak þannig í verði, ef ríkisstj. sýndi fram á, til hvers hinar auknu tekjur þurfi að nota, og má þá ræða það mál. En meðan það er ekki upplýst betur, greiði ég atkvæði bæði gegn afbrigðum um málið og málinu í heild.