18.10.1943
Neðri deild: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (2486)

97. mál, flugvellir, flugvélaskýli og dráttarbrautir fyrir flugvélar

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Ég er samdóma þeim flm. þessa frv., að flugsamgöngurnar séu það, sem koma skal. Ég er sannfærður um, að flugvélarnar verða mikilvirkt samgöngutæki hér á landi. En þessi mál þarf að undirbúa vel. Flas er enginn flýtir. Þessir sömu menn báru á síðasta þingi fram frv. um undirbúning þessa máls. En þeim er svo brátt, að þeir flytja nú frv. um mál, sem ríkisstj. hefur verið falið, og segja, að hún hafi ekkert gert í málinu.

Flugfélagið hefur þegar framkvæmt mjög mikið verk, og veit ég ekki, hvaðan þær upplýsingar, sem fram koma í grg., sem frv. þessu fylgir, eru komnar. Stjórn flugmálanna stendur vel á verði, og sýnist því undarlegt að taka tvo menn af þremur út úr.

Agnar Kofoed-Hansen hefur verið fyrsti hvatamaður í flugmálum hér á landi, og ef þakka á einum frekar en öðrum, ætla ég hann eiga fyrsta rétt til hróss án þess að hnekkja hinum tveimur, sem nefndir eru í grg. Það er ógætilega sagt af hv. þm. N.-Ísf., að þeir tveir hafi alla forustu í þessum málum. Ég segi þetta ekki til að níða hina tvo, ég er ekki að hæla einum, en níða annan.

Um undirbúning málsins vil ég taka það fram, að hann hefur að nokkru verið falinn þessum mönnum, sem eru í stjórn Flugfélags Íslands. Hefur verið sérstaklega náin samvinna milli ríkisstj. og stjórnar þessa félags. Allt, sem flugfélagið hefur gert, er í sambandi við ráðuneytið. Allt, sem gert hefur verið til bóta í flugsamgöngunum, hefur verið gert í samvinnu við ráðuneytið og á kostnað ríkissjóðs. Þetta vildi ég upplýsa.

Hitt atriðið, að þetta er gert að frv. á þessu stigi málsins, er að mörgu leyti athugavert.

Ég vil beina því til n. þeirrar, sem hefur frv. til athugunar, að í 1. gr., A. kafla, sakna ég sérstaklega eins staðar, sem ég ætla, að mundi koma að miklum notum fyrir flugvélar, sem koma frá útlöndum. Ég ætla, að þar ætti að standa: á Reykjanesi. Það er og til athugunar, hvort ekki væri rétt að bæta inn í á eftir tölulið 2: á Akureyri. — Þar er þegar dráttarbraut fyrir sjóflugvélar, og er nauðsynlegt, að sjóflugvélar hafi þar örugga lendingarstöð. Vildi ég aðeins skjóta því fram á þessu stigi málsins.