06.09.1943
Efri deild: 10. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

30. mál, einkasala á tóbaki

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að mótmæla þeirri till. fjmrh., að mál þetta fari gegnum d. án þess að fara til n. Þess er óskað af ríkisstj., að málið fái afgreiðslu í dag og verði að l., og þó að því yrði að nafninu til vísað til n., er það auðsætt, að ef hv. d. vildi gera frv. að l. í dag, yrði rannsókn í n. bara til málamynda.

Ég kvaddi mér hljóðs á undan hv. 3. landsk. þm., en eftir hans ræðu get ég að mestu leyti fallið frá orðinu, því að tilefnið til ræðu minnar var svipað og hjá honum. Jafnvel þótt vera kunni, að fulltrúar hinna ýmsu flokka á Alþ. hafi fengið nokkra vitneskju um þetta mál, hefði ég kunnað betur við, að frekari skýringar hefðu fylgt framsögu hæstv. ráðh. En ýmsar ástæður geta kannske valdið því, að ekki sé þægilegt að gefa þær nú þegar, og þá verður að sætta sig við það.

Það er viðurkennt, að tóbak er að sjálfsögðu munaðarvara og að hverjum manni er það í sjálfsvald sett í byrjun, hvort hann venur sig á það eða ekki, en hitt er vitað og alkunnugt, að tóbak hefur nú einu sinni það eðli, að þegar menn eru búnir að venja sig á það, verður það þeim nauðsynjavara. Hér er því um talsvert mikla heimild að ræða, að hækka skatta og tolla á öllum almenningi, því að flestallir nota tóbak í einhverri mynd.

Ég veit ekki, hvað heimilt er að segja og vil engan trúnað brjóta, en grunur minn er sá, að þessu fylgi fleira en þetta frv. beinlínis gefur tilefni til að álíta. Út af fyrir sig hef ég ekkert við það að athuga, sem ég hef um þetta heyrt, en ég get ekki neitað því, að ef það er rétt, að fleiri breyt. um framkvæmd á einkasölu í landinu eru í aðsigi, kann ég hálfilla við, að ekki skuli gefinn nokkur kostur á að minnast á ýmis atriði í sambandi við þær fyrirætlanir, sem dm. kynni að leika hugur á að spyrja um.

Hæstv. ráðh. stakk upp á því, að málið færi ekki til n. Ég ætla ekki að hafa á móti því, en mér fyndist ekki úr vegi að gefa 10 mín. frest á milli 1. og 2. umr., til þess að fjhn., — þó að málinu sé ekki til hennar vísað, — geti þá komið saman til athugunar á því, hvort hún sem slík hefði eitthvað fram að færa, t. d. ósk um frestun málsins.