15.11.1943
Neðri deild: 46. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (2593)

138. mál, iðnaðarnám

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. Ég hef í iðnn. eins og aðrir nm. áskilið mér rétt til að flytja eða fylgja brtt. við þetta frv. um iðnaðarnám. Í 1. gr., a–d, er um að ræða sjálfsagða samræming á vinnutíma iðnnema og sveina. 2. gr. lítur einnig sakleysislega út og er til þess ætluð að gera gildandi lög frá 1940 framkvæmanlegri en þau eru. Þar segir í 4. gr., að aldrei megi meistari hafa fleiri nemendur en fullgilda iðnaðarmenn. Í frv. er lagt til að orða þetta þannig: Aldrei má meistari ráða fleiri nemendur til iðnaðarnáms hjá sér en hann hefur fullgilda iðnaðarmenn í vinnu á sama tíma“. Maður getur þá hugsað sér, að hann ráði til sín marga sveina og jafnmarga iðnnema, segi því næst sveinunum upp, en reki fyrirtækið síðan að mestu með nemum. Það gæti rekizt mjög á hagsmuni sveina, spillt þeirri kennslu, sem nemarnir fá, og dregið fleiri dilka eftir sér. Brtt., sem ég flyt á þskj. 379 til þess m. a. að vega móti þessari breyt. á 4. gr., eru um tvær nýjar gr. og fluttar eftir ósk formanna 13 sveinafélaga, sem í er hátt á 2. þús. sveina eða 2/3 sveina hér nærlendis, og fullvíst er, að vilji enn fleiri iðnaðarmanna stendur þar að baki. Menn gleyma því ekki, hve algengt það var áratuginn fyrir stríðið, að meistarar tækju sveina, útskrifuðu þá og segðu þeim svo upp í atvinnuleysinu. Með fyrri brtt., um að sveinafélögin séu samningsaðilar fyrir hönd iðnnema um kaup þeirra og kjör, ætti að skapast það jafnvægi, sem þarf vegna breytingar 2. gr. frv. Það er í sjálfu sér gott, að nemum fjölgi. Ég er ekki frá því, að þeim eigi að fjölga mjög á þessum tímum, en sveinar vilja ekki glata valdi sínu yfir þeirri fjölgun. Þá er síðari brtt. þess efnis, að verði vinnustöðvun í iðngrein, sé nemum ekki skylt að vinna, meðart hún stendur. Nemum er nú bannað að vera í sveinafélögum og félögunum bannað að veita þeim vernd í vinnudeilum, og þarf þá löggjöfin að líta á það.