10.12.1943
Neðri deild: 61. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (2612)

139. mál, stríðsgróðaskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér þykja þær undirtektir, sem fjhn. hefur veitt þessu frv., vera heldur daufar. Aðaltilgangurinn með þessu frv. var sá að hækka þann hundraðshluta, sem sýslu- og bæjarfélög fá af stríðsgróðaskatti. Oft hefur verið rætt um það hér, að bæjar- og sveitarfélög séu mjög þurfi fyrir aukna tekjustofna, og nú á þessum tímum, þegar innheimtur er mjög verulegur stríðsgróðaskattur, þá virðist ekki óeðlilegt, að þau bæjar- og sveitarfélög, þar sem þannig háttar til um, að lítill stríðsgróðaskattur fellur til, fái nokkra hlutdeild í þessum skatti, sem rennur til ríkissjóðs. Þessi hluti bæjar- og sveitarfélaga hefur verið fram til þessa 5% af stríðsgróðaskattinum. Hins vegar hafa þau bæjar- og sveitarfélög, sem fá 45% af áföllnum stríðsgróðaskatti á viðkomandi stað, fengið á þennan hátt allverulegar upphæðir, og auðvitað hæstar í Reykjavík og Hafnarfirði, þar sem mestur hluti stríðsgróðans fellur til. En fjöldi annarra bæjarfélaga hefur fengið mjög lítið í sinn hlut, — sem hafa fengið þessi 5%. Um leið og ákveðið var, að þessi bæjar- og sýslufélög fengju 5% af stríðsgróðaskattinum, var fellt niður ákvæðið um, að þessi félög fengju 12½% af áföllnum tekjuskatti á viðkomandi stað. En nú hefur það sýnt sig, að í flestum þessara bæjar- og sveitarfélaga nema þessi 5% tæplega því, sem þau voru svipt með því að taka af þeim 12½% af áföllnum tekjuskatti. Í raun og veru má segja, að þau hafi ekki fengið nokkurn hlut af þessum stríðsgróðaskatti, því að það, sem þau fengu af honum, kemur rétt upp á móti því, sem þau höfðu fyrr samkv. öðrum l. — Það, sem vakti fyrir mér, var að hækka nokkuð þann heildarhlut, sem af þessum skatti gengi til bæjar- og sýslufélaga, eða úr 5% upp í 15%. En meiri hl. hv. fjvn. vill ekki hreyfa við þessu ákvæði, ekki einu sinni hreyfa við þeim ákvæðum, sem gilt hafa um dreifingu þessarar litlu upphæðar. Þó hefur eftirlitsmaður sveitarstjórnarmálefna gert allýtarlegar tillögur til n. um það, hvernig haga mætti úthlutun þessa fjár. Og hann leggur einnig til, að 10% af stríðsgróðaskattinum verði tekið og skipt á milli sýslufélaga, bæjarfélaga og hreppsfélaga. Ég álít þá uppástungu, sem kemur fram frá þessum manni, mjög athyglisverða. Ég álít það form, sem hann bendir á um úthlutun á þessu fé, til verulega mikillar réttlætingar frá því, sem verið hefur. En það virðist vera svo hjá meiri hl. hv. fjhn., að stefnan sé að hreyfa alls ekki við þessu né auka framlagið af stríðsgróðaskatti til bæjar- og sveitarfélaga og að fara ekkert inn á að hreyfa við þeirri reglu, sem farið hefur verið eftir um skiptingu þessa fjár. En það þýðir kannske ekkert að fást um það. Það verður að sýna sig í hv. d., hvort meiri hl. hv. þm. lítur svo á, að það sé réttmætt að neita bæjar- og sýslufélögum þeim, sem lítinn stríðsgróða skatt hafa, um dálítið ríflegra framlag af þessu fé en þau hingað til hafa fengið. En ég vil alveg sérstaklega undirstrika þetta, að þessi litla hlutdeild, sem bæjar- og sýslufélög hafa fengið í stríðsgróðaskattinum, hún rétt aðeins vegur upp á móti því, sem þau höfðu áður með öðrum l., en tekið var út, þegar þetta ákvæði var sett inn, um hlutdeild þeirra í stríðsgróðaskattinum. Það má því segja, að þau fái ekki neitt af þessum stríðsgróðaskatti. En ef hæstv. Alþ. vill ekki breyta þessu, verður vitanlega við það að sitja. Bæjarfélögin hafa fundið, að lítill skilningur er á hæstv. Alþ. um þetta atriði, að það þurfi að gefa þeim aukin skilyrði til þess að afla sér tekna. En mér hafði skilizt á allmörgum hv. þm., að þeir vissu mjög vel, að full þörf er á að breyta þarna um og að full sanngirni er, að hlutdeild bæjar- og sýslufélaga verði aukin í stríðsgróðaskattinum frá því, sem nú er. Vil ég því eindregið mælast til þess, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, en brtt. hv. meiri hl. fjhn. við frv. verði ekki samþ.