06.09.1943
Efri deild: 10. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

30. mál, einkasala á tóbaki

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Barð. (GJ) spurði um það, hvort Tóbakseinkasala ríkisins þyrfti að fá þessa aukaálagningu til þess að skila þeim hagnaði, sem gert er ráð fyrir í fjárl., og get ég skýrt frá því, að svo er ekki. Það er ekki gert ráð fyrir, að til þess þurfi að taka. Ég er ekki viss um að hafa náð þeim fyrirspurnum öllum, sem þm. bar fram. Hann minntist á verðlækkunarskattinn og talaði um, að hann væri 80% af tekjuskattinum. Þetta er ekki rétt. Tekju- og eignarskatturinn er áætlaður 22 millj. kr. móti 6.2 millj., sem verðlækkunarskatturinn er. Ég vil geta þessa hér til þess að leiðrétta misskilning hjá hv. þm.

Hv. þm. Seyðf. (LJóh) spurði, hvort ég mundi telja mig hafa heimild til þess að nota þetta fé samkvæmt dýrtíðarl. Af því að það er þekktur lögfræðingur, sem spyr, er mér um og ó að svara án þess að leita upplýsinga hjá mönnum, sem mér eru færari, en að sjálfsögðu mun ég ekki greiða þetta fé, nema heimild sé til þess. Ég sé ekki, að ég geti svarað á annan hátt, eins og málið liggur fyrir. Ríkisstj. mun að sjálfsögðu skýra Alþ. frá því, hvernig hún ætlar að verja þessu fé, áður en það kemur til framkvæmda, og það er að sjálfsögðu á valdi Alþ. að stöðva eða breyta slíkum framkvæmdum, ef ástæða er til. Mér finnst því ekki mikil sanngirni í því né mikil ástæða til að krefja mig um sérstakar yfirlýsingar í þessu máli.

Annars geri ég ráð fyrir, eins og hv. 1. þm. Eyf. (BSt) gat um, að hv. þm. viti talsvert um þetta mál og um sumt, sem spurt er, viti menn meira en af er látið.

Út af orðum hv. 1. þm. Eyf. (BSt) í sambandi við áfengisverzlunina er það svo, eins og hann tók fram, að ég er ekki rétti aðilinn í því máli, en ég mun taka að mér að flytja þau orð, sem hann lét falla, til hins rétta aðila, sem er dómsmrh.