29.10.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (2655)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 284 brtt. við till. á þskj. 244. Af einhverjum ástæðum er aðaltill. þannig orðuð að hún er vart frambærileg. Auðvitað á hún að vera orðuð svipað því, sem gert er í minni till. Vænti ég, að flm. fallist á þetta og noti ekki sömu vitleysuna öðru sinni.

Eina breyt. gerði ég á efni till., en það er, að í stað „að heimila ríkisstjórninni“ kemur: að fela ríkisstjórninni. — Það er fengin vissa fyrir því, að efnið til rafmagnsveitu Keflavíkur fæst, og ef Alþingi vill þessi kaup, þá finnst mér öllu réttara, að það sé orðað svo, að það feli ríkisstj. framkvæmdir í þessu máli.

Tvær brtt. hafa komið fram í þá átt að heimila ríkisstj. meiri efniskaup til rafmagnsleiðslu austan fjalls og um Suðurnes. Ég vil taka það fram fyrir hönd míns flokks, að við munum greiða atkv. á móti brtt. þessum, — ekki af því, að við séum á móti framkvæmdum í þessu máli, heldur af því, að við teljum, að málinu sé bezt komið á þann hátt, sem tekið er fram í minni till. Eins og er, fæst einungis efni til Keflavíkurveitunnar, og með tilliti til þess, að hún kemur til með að bera sig bezt að dómi kunnugra manna, en Suðurnes standa betur að vígi, eftir að veitan er komin til Keflavíkur, þá virðist sjálfsagt og eðlilegt að flýta því máli sem auðið er. Að þessu athuguðu fullyrði ég, að mín till. sé hin eina frambærilega af þeim, sem fyrir liggja.