29.10.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (2665)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Flm. (Ólafur Thors):

Ég verð að segja, að ég tel það undarlega till. frá þeim mönnum, sem vilja flýta málinu, að biðja um frestun á þessari umr. nú í staðinn fyrir að ljúka henni og láta þáltill. ásamt brtt. við hana ganga til n. En af því að mér eru nokkuð kunnug vinnubrögð í hv. fjvn., skal ég fallast á þetta. Hins vegar er ég hissa á því að óska eftir eiginlega þremur umr. um málið, meðan e. t. v. er verið að selja efnið út úr höndunum á okkur, sem til rafveitnanna þarf. Ég fel málið hv. form. fjvn. og treysti honum til að veita því góða forsjá í meðferð n. á því og taka vel á þörfum alls þess fólks, sem hér á hlut að máli. Þessi meðferð, sem stungið hefur verið upp á, að fresta þessari umr., þarf ekki að tefja málið, ef tekið er snögglega á málinu og það afgreitt.