24.11.1943
Neðri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í C-deild Alþingistíðinda. (2759)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Emil Jónsson:

Herra forseti. Á þskj. 473 flyt ég ásamt þremur öðrum þm. brtt. við þetta frv.

Í 1. mgr. 1. gr. segir, að skattstjórar skuli — hver í sínum kaupstað — hafa sama starf og sömu völd og skattanefndir — eða eftir atvikum formenn skattanefnda utan þessara kaupstaða. Nú er í útsvarsl. gert ráð fyrir því, að formenn skattanefnda séu jafnaðarlega viðkomandi bæjarfógetar, sem eru líka formenn niðurjöfnunarnefnda á staðnum. Ef þessir skattstjórar, sem skipaðir verða samkv. þessu frv., taka einnig við störfum bæjarfógeta í niðurjöfnunarn., þá gæti það raskað hlutfallinu milli þeirra flokka, sem eiga fulltrúa í viðkomandi bæjarstjórn. Þetta er það, sem við viljum koma í veg fyrir, enda mun ekki hafa verið reiknað með því, að þetta kæmi þannig út. Eftir skiptingu bæjarfógetaembættisins í Reykjavík var þetta „praktiserað“ lengi eins og frv. þetta gerir ráð fyrir, en samkvæmt eindregnum óskum, sem komu fram, var þessu breytt, þannig að nú eiga ekki aðrir sæti í niðurjöfnunarn. Reykjavíkur en þeir, sem kosnir eru af bæjarstjórn.

Ég þarf svo ekki að fjölyrða um þetta. Ég tel sjálfsagt, að menn geti verið sammála um þessa litlu breyt., sem till. á þskj. 473 gerir ráð fyrir.