06.12.1943
Neðri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í C-deild Alþingistíðinda. (2809)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var rætt hér fyrir skömmu, þá sagði ég, að ég skoðaði þetta spor nauðsynlegt, að skipa skattstjóra eins og segir í frv., því að með þeim háu skattstigum, sem nú gilda, bæði til ríkis og bæja, þá væri það nauðsynlegt, að óháðir embættismenn ríkisins fjölluðu einnig um þessi mál, en ekki eingöngu þeir menn, sem væru kosnir af pólitískum flokkum í það og það skiptið. En ég sé það á till., sem fjórir hv. þm. hafa flutt hér, að þetta hefur ekki fundið hljómgrunn hjá þessum hv. þm., enda hefur það komið fram í ræðum, sem tveir þeirra, þeir hv. þm. Ak. og hv. 6. landsk., hafa nú haldið hér. Hér er í raun og veru ekki um mikið að deila. Þetta er „princip“-atriði um það, hvort skattálögur á hverjum tíma skuli vera sem mest undir hæl pólitískra fulltrúa eða hvort reynt skuli að afgreiða það eins óhlutdrægt og hægt er. Hér greinir á milli mín og hv. þm. Ak. og hv. 6. landsk. um þetta atriði. Ég er ekkert feiminn, þótt ég sé fulltrúi bæjarfélags, að ganga á móti þessum skoðunum þeirra, því að það kemur fram, að rök þeirra eru á misskilningi byggð, einkanlega þau, sem komu frá hv. 6. landsk. Hann taldi það mjög óheppilegt fyrir bæjarfélögin, að skattstjóri hefði forustu um álagningu og að með því væri raskað þeim pólitíska meiri hl., sem fyrir hendi væri í bæjarstjórninni. Það vita allir, að bæjarstjóri hvers bæjar er háður hinu pólitíska meirihlutavaldi í hverjum bæ og þá um leið pólitískum flokkum og ákveðnum persónum. Þetta er líka bein afleiðing af því, að hann er kosinn af meiri hl. bæjarstjórnar. Sá bæjarstjóri, sem er þannig kosinn af ákveðnum pólitískum flokki eða flokkum, getur ekki talizt ópólitískur eða óháður gagnvart bæjarstjórn. Nú má segja, að ég sé að halda fram málstað minni hl., en ég vil aðeins, að minni hl. sé eins öruggur og meiri hl., ef þess er nokkur kostur. Nú hefur ekki verið sá háttur á að hafa skattstjóra nema hér í Reykjavík, en nú stendur til að skipa einnig skattstjóra í öðrum kaupstöðum.

Hv. þm. Ak. og hv. 6. landsk. virtust vilja leggja þann skilning í það, að skipaður skattstjóri skyldi eiga sæti í niðurjöfnunarn., að þá hefðu bæjarbúar ekkert að segja og vald meiri hl. í kaupstöðunum fengi þá ekki notið sín. Nú vil ég benda á það, að skattstjórinn er þó ekki nema einn af fimm mönnum í niðurjöfnunarn. Hvers konar lýðræði hafa þessir menn í höfðinu, ef þeir halda, að einn maður ráði alveg yfir hinum fjórum og álagningarmælikvarðinn verði algert „pródúkt“ skattstjórans og hinir fái þar engu um ráðið? Ég segi ekki, að skattstjórinn hafi engin áhrif, en hann hefur ekki meiri áhrif en hver hinna.

Þá hélt hv. 6. landsk. því fram, að niðurjöfnun útsvara væri eingöngu mál bæjanna og kæmi ríkisvaldinu alls ekkert við. Þetta verð ég að segja, að sé furðuleg villa. Bæjarfélögin hafa alls ekki ótakmarkað vald til þess að leggja útsvör á, því að þegar komið er að vissu marki, þá þurfa þau að fá leyfi ríkisvaldsins til hærri álagningar, og hefur ríkið þannig heimild til þess að grípa þar inn í. Þetta er nægilegt til þess að sanna, að það er rangt, að niðurjöfnunin komi ríkisvaldinu ekki við, en það er þó meira en þetta. Ríkisvaldið hefur einnig rétt til þess að grípa inn í þessi mál gagnvart einstökum mönnum, því að ríkisskattan. er hæstiréttur í úrskurðun á útsvarskærum. Ríkið hefur því þarna tvöfalt vald. Fjmrh. getur gripið inn í gagnvart of hárri álagningu almennt og ríkisskattan. gagnvart einstökum mönnum.

Þá sagði hv. 6. landsk. enn eina vitleysu. Hann fullyrti, að skattstjóri gæti alveg tekið ráðin af meiri hl. bæjarfélagsins um ákvörðun á mælikvarða til útsvarsálagningar. Ég verð að segja, að það er a. m. k. ekki venja hér sunnan lands, að einn taki ráðin af fjórum í sömu n., hvað sem tíðkast austan lands. Ég veit ekki, hvernig einn maður ætti að geta tekið ráðin af allri n. Það, sem okkur hv. flm. greinir á um þessar brtt., sem hér er um að ræða, er það, að ég vil, að skattstjórinn verði eins konar málamiðlari milli meiri og minni hl. í bæjarstjórn, og ég get ekki séð, að það sé neitt skaðræði í því. Það er einmitt brýn nauðsyn á því, að um þessi mál fjalli sem allra óháðastir menn, en því er ekki hægt að ná, meðan pólitískur meiri hl. fer með völdin í þessum málum. En það er það, sem þessir hv. flm. vilja. Þeir hafa haldið því fram, að það væri óheppilegt að hafa ókunnugan skattstjóra í niðurjöfnunarn., en ég tel það miklu meira virði, að skattstjórinn geti látið þekkingu sína á skattamálum vera hinum til leiðbeiningar, því að það er vitað, að þekking á skattamálum er mjög takmörkuð hér á landi, og það er einmitt þetta þekkingarleysi, sem er ein af meginástæðunum fyrir því, að nú er lagt til að skipa þessa skattstjóra. Þegar skattstjóri situr með fjórum heimakunnugum mönnum í niðurjöfnunarn., þá þarf þekkingarleysi hans ekki að koma að sök, er hann hefur fjóra kunnuga menn með sér. Hann á ekkert að gera einsamall, heldur hefur hann fjóra menn, sem eru nákunnugir högum bæjarbúa, og get ég því ekki séð, að neinu sé stefnt í hættu, þótt hann sé ókunnugur. En það sýnist vera, að þar sem eru fjórir menn aðrir, þá muni störfin ekki líða af þeim sökum. Skipun skattstjóranna getur verið réttarbót fyrir þjóðfélagið; en ekki nema að hálfu leyti, ef færni þeirra og hæfileikar eiga ekki að njóta sín nema við þá skatta, er eiga að ganga í sjálfan ríkiskassann. Þetta væru líka kyndug vinnubrögð í kaupstöðum, ef sleppa ætti helmingi skattheimtunnar (sem bærinn fær) undan hinum faglegu áhrifum skattstjóranna, þegar bærinn gæti orðið aðnjótandi menntunar þeirra og reynslu. Nei, hv. fjórmenningar, er standa að þessu, þurfa að halda skattstjórunum utan við allt, er snertir útsvör, af því að þeir halda, að hið pólitíska meirihlutavald í kaupstöðunum líði við það, að 5. maður komi óháður inn í niðurjöfnunarnefndirnar.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. Ég vil aðeins segja það um mitt kjördæmi, þar sem einn skattstjórinn á að vera, að starf hans verður lítið, ef hann á eingöngu að fjalla um ríkisskattana. Hins vegar yrði það fullkomið starf, ef hann ætti sæti í niðurjöfnunarn., og þessir skattar eru svo skyld mál víðast, goldnir eftir sama skattstiga og af sömu eignum. Mér finnst þetta því hreint Bakkabræðralag.

Hv. þm. V.-Ísf. færði það sem rök fyrir þessu máli, að Reykjavík væri undanþegin þessu. Hvað sem því líður, þá eru þetta engin rök. Þótt Reykjavík hafi sloppið við að hafa skattstjórann í niðurjöfnunarn., þá er það jafnskakkt fyrir því. Og þetta voru hans einu rök. Ef ein vitleysa er gerð í Reykjavík, þá er sjálfsagt að gera sömu vitleysurnar úti um land, eftir þessu að dæma.

Hér greinir á um verulegan stefnumun. Vilja menn koma í veg fyrir pólitísku áhrifin í þessum álagningum, eða vilja menn viðhalda þeim og jafnvel auka þau? Ég fyrir mitt leyti álít, að óháð, hlutlaus framkvæmd í þessum efnum sé heppilegust. Og það er því mín till. sem kaupstaðarþingmanns, að skattstjórarnir eigi sæti í niðurjöfnunarnefndum.