16.09.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (2863)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Flm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Eins og þskj. nr. 8 ber með sér, hef ég leyft mér að koma fram með þessa þáltill. ásamt þeim hv. 11. landsk., hv. þm. Ísaf. og hv. 1. þm. Árn. um þetta mál, sem hv. alþm. er nú að vísu nokkuð kunnugt af meðferð á því hér í þinginu á undanförnum árum, sem sé að heimila ríkisstj. að kaupa við matsverði fyrir hönd ríkissjóðs þau hlutabréf í Útvegsbanka Íslands h/f, sem keypt voru á sínum tíma með hluta af sparisjóðs- og innstæðuskírteinainneignum í Íslandsbanka, þegar hann hætti störfum.

Ég sagði áðan, að þetta mál væri gamalkunnugt hér á þingi, og það mun ekki þurfa að hafa um það langa framsögu og í aðalatriðum óhætt að vísa til þess, sem sagt er í þskj. Þó vil ég aðeins minna á það, að nú hefur farið fram sú athugun á þessu máli, sem áður skorti. Nú hefur farið fram mat á hag bankans og þá um leið á gildi hlutabréfa hans. Það mat hefur farið fram að tilhlutun Alþingis, sem á þingi 1941 samþykkti þá dagskrá, er hér fer á eftir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti fara fram athugun á framboðum og verðgildi hlutabréfa Útvegsbanka Íslands h/f og leggi fyrir næsta Alþingi tillögur sínar um, hvort ríkissjóður skuli kaupa hlutabréf þau, er um ræðir í þingsályktunartillögunni, og með hvaða skilyrðum, ef til kemur, svo sem kaupverð, árlegt framlag ríkissjóðs til kaupanna og að keypt verði af þeim einum, er voru upphaflega eigendur bréfanna, tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá“.

Þessi dagskrá var fram komin að tilhlutun minni hl. hv. þáverandi fjvn. Meiri hl. fjvn. vildi gefa ríkisstj. heimild til kaupa á bréfunum, og ljóst er, að meiri hl. Alþingis vill láta ríkisstj. taka málið til athugunar í sama tilgangi. Í upphafi þessa fundar var útbýtt meðal alþm. bréfi viðskmrh., er inniheldur skýrslu um athugun á verðgildi hlutabréfa Útvegsbanka Íslands h/f, og er það undirritað af þeim nm., er ríkisstj. hefur falið þetta verk. En það var gert 23. maí 1942 af þáverandi ríkisstj. Í þá nefnd voru skipaðir Jón Guðmundsson skrifstofustjóri, Gylfi Þ. Gíslason dósent og Lárus Jóhannesson hrm. Jón Guðmundsson var formaður n. Álít n. liggur fyrir, eins og áður er að vikið, og er handbært fyrir hvern alþm. Vildi ég með leyfi hæstv. forseta mega lesa upp nokkrar setningar úr þessu áliti.

„Höfum við athugað hag bankans og stuðzt þar við efnahagsreikning hans pr. 31. des. 1942, en jafnframt kynnt okkur breytingar, sem síðan hafa átt sér stað. Höfum við komizt að þeirri niðurstöðu, að nú megi telja verðmæti hlutabréfanna a. m. k. nafnvirði“.

Síðar í skýrslunni er enn vikið að hag bankans, og segir þar, með leyfi hæstv. forseta: „Varasjóðir nema því samtals nálægt 4 millj. kr., auk þess sem húseign bankans hér í Reykjavík, ásamt innanstokksmunum og áhöldum er miklu meira virði en 150 þús. kr., er verðmæti nokkurra annarra fasteigna umfram bókfært verð þeirra“.

Og enn vildi ég mega vísa til nokkurra setninga, sem líka standa í þessari skýrslu.

„Eins og hag bankans nú er komið, má gera ráð fyrir því, að hann gæti hér eftir greitt arð á venjulegum tímum. Með tilliti til þess, að torvelt er nú að ávaxta fé, yrðu kaun á bréfum bankans fyrir nafnverð að teljast hagstæð frá því sjónarmiði“.

Ég skal svo ekki fjölyrða um meira af því, sem í skýrslunni stendur. En hún sýnir glögglega, að hér er ekki um neina áhættu að ræða fyrir ríkisstj. Enn fremur staðfestir hún það, sem ég hef áður haldið fram um þá upphæð, er snertir innlenda innistæðueigendur, að ef þeirra hlutabréf eru leyst inn, þá nema þau 1½ millj. kr. Þegar n. segir, að hlutabréfin séu að minnsta kosti þess virði, sem kallað er nafnverð þeirra, virðist óhætt að draga þá ályktun, að hún muni álíta þau meira virði. En í þáltill. er talað um, að þau séu keypt við nafnverði. Eins og augljóst er og allir hv. þm. geta gengið úr skugga um, er ekki farið fram á, að keypt sé af öðrum en þeim, sem upphaflega voru eigendur að þessum bréfum eða hafa fengið þau í arf, en ekki af þeim, sem í „spekúlasjóns“-augnamiði kunna að hafa komizt yfir þau hjá hinum upprunalegu eigendum. En um flesta þá, sem maður getur kallað upprunalega eigendur, er það víst, að þeir hafa ekki haft ástæður til að verða aðnjótandi mikils hagnaðar af þeim gróða, sem verið hefur á undanförnum árum. Flestir þeirra munu vera menn nokkuð við aldur, og í mörgum tilfellum er þeim nú ákaflega erfitt að eiga þetta fé fast og geta engin not haft af því. Eins og kunnugt er, hafa þeir ekki fengið vexti, bankanum hefur ekki verið leyft það. Ríkissj. á sjálfur hálfu fimmtu milljón hlutafjárins, sem er langsamlega meiri hl. þess. Þar af leiðir, að þessir dreifðu eigendur að hálfri annarri milljón hafa engin áhrif haft og geta ekki haft á bankaráðsfundum á nokkuð það, er snertir rekstur þessarar stofnunar, sem þeir sumir hálfnauðugir — og kannske flestir — hafa verið hluthafar í. Það virðist því mæla öll sanngirni með því, að ríkissj. leysi nú til sín þessi bréf og það með nafnverði.

Loks vil ég benda á það, sem áður hefur verið fram tekið og enn er upp tekið í ástæðunum fyrir framkomu þessarar þáltill., með leyfi hæstv. forseta:

„Enginn getur með réttum rökum varið það, að þeir þegnar þjóðfélagsins, sem hér eiga hlut að máli, séu látnir færa þær fórnir að hafa fjármuni sína bundna um óákveðinn tíma í hlutabréfum Útvegsbankans, án þess að sú hlutafjáreign gefi þeim nokkurn arð. Ríkið er aðaleigandi þessa banka og ábyrgist það sparifé, sem landsmenn leggja á vöxtu í bankann. Áhrifa annarra aðila en ríkisvaldsins gætir í engu, að því er stjórn bankans snertir. Virðist því þegar af þessum ástæðum réttmætt, að ríkið kaupi hlutabréf þau, er um ræðir“.

Ég vona, að hv. alþm. geti fallizt á þessa skoðun, sem talsvert fylgi hefur hér á þingi og er enn fremur að finna í niðurstöðu þeirrar n., sem ríkisstj. hefur látið vinna það verk, sem um getur í skýrslu viðskmrh. Hún verður ekki vefengd. Mætti svo ljúka þessu máli á yfirstandandi þingi. Loks vil ég mælast til við hæstv. forseta, að hann leiti álits um, að mál þetta megi fara til 2. umr. og fjvn. að lokinni þessari umr.