03.12.1943
Efri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (2953)

3. mál, eignaraukaskattur

Frsm. minni hl. (Lárus Jóhannesson) :

Herra forseti. Það vildi svo til, að ég var kosinn til þess að taka sæti í fjhn. í veikindaforföllum hv. 8. landsk., svo að ég hef ekki haft tækifæri til þess að athuga þetta mál eins og æskilegt væri, en ég held, að ég hafi þó getað kynnt mér það nægilega til þess að geta með góðri samvizku skrifað undir nál. um, að þetta frv. verði fellt.

Ég hef þó ekki gert till. um að beina því til hæstv. forseta að láta athuga, hvort hér sé um skatt að ræða eftir skilningi stjskr. Undanfarin 8 ár hefur verið farið mjög rúmt með hugtakið skattur, en þetta flæðir vissulega út yfir öll takmörk. Ég sé ekki annað en hér sé um beint eignarnám, „konfiskation“, að ræða. Það eru um 100 menn, á landinu, sem á að skattpína á þennan hátt. Þegar ég segi hér „skattpína“ eða tala á annan hátt um skatta í sambandi við þetta frv., þá á ég alltaf við, að orðið skattur sé innan gæsalappa, því að þetta er ekki skattur. Þetta frv. er afsakað með því, að fé þetta eigi ekki að vera eyðslufé fyrir ríkissjóð, heldur eigi að verja því til sérstakra framkvæmda og til þess að tryggja afkomu þjóðfélagsins, sem allir eru sammála um, að nauðsynlegt sé. En það breytir engu í þessu sambandi. Ef byggja á upp fyrir þjóðfélagið, þá er sjálfsagt að gera það á venjulegan hátt. Það verður þá að spara á öðrum sviðum það, sem er síður nauðsynlegt. En það verð ég að segja, að með því að fara inn á þessa braut, er komið inn á braut, sem er meira en hál.

Ég get hugsað mér, að það geti komið fyrir, að hagur þjóðfélagsins verði þannig, að það þurfi að grípa lengra niður í vasa einstaklinga en nú er gert. En það verður þá að liggja eitthvað alveg sérstakt við, hrun þjóðfélagsins yrði þá að standa fyrir dyrum, og þá ætti hver og einn að rétta glaður fram sinn skerf til þess að afstýra því og rétta við hag þjóðfélags síns. Í þessu frv. er farið fram á að leggja minnst 20% og upp í 30% eignaaukaskatt á þá, sem hafa sparað saman fram yfir 100 þús. kr. frá því, sem skattframtal frá 1939 segir til. Ég bið menn nú að gæta þess vel, að eignaaukning verður til á tvennan hátt. Önnur ástæðan er sú, að menn hafa meiri tekjur en þeir eyða og geta þannig lagt fyrir, en hin er sú, að verðgildi krónunnar lækkar. Nú hefur það lækkað stórkostlega og er alltaf að lækka, og þannig hafa eignir manna ekki orðið verðmætari, heldur seljanlegri fyrir hærri krónutölu. Ef menn hafa svo selt eignir sínar með þessu hækkaða verði, þá hafa þeir þegar borgað tekjuskatt af eignaaukningunni og það svo háan, að hann er ósambærilegur við önnur lönd, sem eiga þó í ófriði og þurfa að taka af þegnum sínum allt það, sem tiltækilegt þykir.

Hér er því ekki verið að tvískatta, heldur þrískatta þessa menn, það er verið að refsa þeim, sem hafa sparað, og einmitt það, hve takmarkið er lágt á eignaaukaskattinum, sýnir það, að hér er um beinar refsiaðgerðir að ræða og þær eiga að ná til sem flestra.

Annars verð ég að segja það um þá, sem hafa selt eign sína fyrir hærri krónutölu en matsverð 1939, að ég get bent á mörg dæmi þess, að þeir hafa ekki grætt, heldur tapað, því að í dag geta þeir ekki keypt eignina fyrir sama verð og þeir seldu hana fyrir, svo að í dag hafa þeir raunverulega tapað, þótt framtalið sýni nú reikningslegan gróða. Ég skal taka t. d. hús, sem ég seldi í fyrra og ekkja átti. Húsið var metið á 40 þús. kr., en var selt á 140 þús. kr. Við skulum gera ráð fyrir því til þess að gera dæmið auðveldara, að ekkjan hafi átt 100 þús. kr. fyrir. Hún gæti nú ekki fengið húsið keypt aftur fyrir 250 þús. kr., svo að í dag hefur hún ekki grætt 100 þús. kr., heldur tapað 100 þús. kr. Hvað seinna kann að verða, vita hvorki hv. flm. né ég, en svona stendur dæmið í dag. Nú hefur hún tapað. Það var líka embættismaður utan af landi, sem flutti til Reykjavíkur. Hann seldi ágætt hús, sem hann átti, fimm sinnum dýrara en það var metið á við síðasta fasteignamat. Hann er nú að krónutölu 120 þús. kr. ríkari en hann var fyrir 4 árum, en þetta fé ætlar hann að nota til þess að kaupa hér hús, en það er vafasamt, hvort hann fær það. Þessum manni á að refsa með 24 þús. kr. skatti fyrir það, að hann á eign, sem að verðmæti nægir ekki til þess að bæta honum upp það verðmæti, sem hann lét af hendi.

Svo skal ég taka aðra menn, sem hafa ekki selt eignir sínar, en þær hafa hækkað í verði. Segjum t. d., að ég eigi hús, sem metið er á 30 þús. kr. við síðasta fasteignamat. Ég tek þetta aðeins sem dæmi, því að ég á ekki húsið. Nú gæti ég selt þetta hús á 150 þús. kr., en ég vil það ekki. Miðað við þessa menn, sem ég gat um, er ég nú áreiðanlega 120 þús. kr. ríkari, en mér á ekki að hreyfa við.

Ég get ekki séð, að nokkur skynsamleg rök mæli með því að taka svona eignaaukaskatt af mönnum. Í grg. fyrir frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Flm. eru þeirrar skoðunar, að stríðsgróðinn, gróðinn, sem ekki er hægt að halda fram, að nokkur einstaklingur hafi sérstaklega aflað með eigin atorku eða fyrirhyggju, og er umfram nauðsynlega sjóði til endurnýjunar og starfrækslu gagnlegra fyrirtækja, sbr. nýbyggingarsjóði, sem lagt er til, að verði undanþegnir skattinum, eigi í raun réttri að vera sameign almennings.

Ég veit ekki um nokkurn einasta mann, sem hefur ekki einmitt eignazt fé vegna sinnar eigin fyrirhyggju eða vegna þess, að hann hefur haft fyrir því að afla þess, og hefur þannig notað eigin atorku. Yfirleitt er það þannig, að menn þurfa að leggja á sig til þess að afla sér fjár, þeir þurfa annaðhvort að vera gleggri í hugsun eða inna af hendi meira starf en almennt gerist. Fyrir þetta á þjóðfélagið að virða menn og lofa þeim að halda fé sínu að undanteknum eðlilegum sköttum, en það á ekki að reyna að ná því af þeim og refsa þeim fyrir dugnað sinn.

Tökum t. d. útgerðarmennina hér. Ég vil halda því fram, að þeir hafi eignazt fé sitt vegna eigin verðleika. Hefðu þeir ekki haft dugnað til þess að halda úti skipum sínum, oft á versta tíma og oft vitandi það, að þau mundu ekki afla nægilegra verðmæta til þess að reksturinn gæti borið sig, þá hefðu þeir ekki heldur notið ágóðans, þegar vel gekk. Þegar verst stóð á fyrir útgerðinni, bauð ríkið fram styrki og lán til þeirra, sem vildu halda skipum úti, og ég man ekki betur en að Alþfl. væri að bisa við að koma á fót útgerðarfélagi með slíkum styrkjum og lánum, en tókst ekki. Í þeim hópi voru ekki til menn, sem vildu leggja sparifé sitt í slíka hættu, þeir vildu eiga allt sitt á þurru, sem kallað er. Svo voru það aðrir, sem með lítið fé brutust í því að koma framleiðslunni í gang. Þeir hafa hagnazt á því núna, og af þeim á nú að taka, — mér liggur við að segja eins og í biblíunni, — jafnvel það, sem þeir eiga ekki. Þetta finnst mér fjarri öllu viti og sanngirni. Það er verið að tala um það í 1. gr. frv., að það eigi að taka 20% af fyrstu 100 þús. kr., sem eru fram yfir 100 þús. kr. Hvar liggur nú þessi eignaauki? Ég man eftir því, að fyrir nokkrum árum kom hingað til landsins duglegur maður og hann keypti hér fyrirtæki, sem heitir „Svanur“. Honum vegnaði það vel, að félagið græddi 50 þús. kr. á ári. Þá var skattaránið svo mikið, að fyrirtækið átti að borga 36 þús. kr. í skatta og útsvar. Þessi 50 þús. kr. gróði lá í auknum vörubirgðum, í útistandandi skuldum og öðru slíku, en skattana átti hins vegar að greiða í peningum, og það var því ekki hægt að greiða skattinn á árinu. Þá var hins vegar hægt að draga frá skattaframtali næsta árs þau opinberu gjöld, sem búið var að greiða fyrir áramót. Þar sem félagið hafði ekki getað greitt skattinn fyrir áramót, fékk það hins vegar engan frádrátt fyrir næsta ár, og til þess að það yrði ekki gjaldþrota, varð það að skipta ágóðanum upp á milli viðskiptamanna, annars hefði hann allur farið í skatta og félagið orðið gjaldþrota þrátt fyrir gróðann. Ef greiða á 20 þús. kr. af 100 þús. kr. í skatta, þá er það engin smávegis blóðtaka, og ég efast um, að þeir, sem hafa fengið þennan pappírsgróða, séu færir um það. Af 200 þús. til 1 millj. kr. eignaaukningu á að greiða 25% og svo 30% af því, sem er þar yfir. Ég hef það ekki fyrir framan mig, en mig minnir, að það hafi verið lagt fyrir fjhn. Nd. í fyrra, hve miklir varasjóðir og nýbyggingarsjóðir útgerðarinnar voru þá. Þar sést, að eignaaukning stærsta útgerðarfyrirtækisins í Reykjavík hefur verið 2,9 millj, kr., og af þessu eru 2 millj. kr. í nýbyggingarsjóði. Hvað er þetta? Fyrir þetta er engin leið til þess að smíða 1/3 hluta af þeim skipum, sem félagið á og vitað er, að eru orðin gersamlega úrelt, jafnskjótt og stríðinu lýkur. Það er líka vitað með ýmis verzlunarfélög, að eignaauki þeirra, ef svo skyldi kalla, liggur í vöruleifum, og ég efast um, að það fé, sem farið er fram á, að tekið verði af þeim með þessum skatti, mundi nægja til þess að mæta nauðsynlegum afskriftum af vörunum, þegar fyrirsjáanlegt er, að stríðið er að verða búið. Verðlækkun á vörunum kemur jafnvel fyrr hér en á erlendum markaði, því að þegar séð er fyrir, að hún muni koma er lendis, þá draga kaupendur sig heldur til baka frá innkaupum í von um, að lækkunin komi þá og þegar. Eftir því, sem reiknað hefur verið út, þá eru það einir 100 skattgreiðendur hér í Reykjavík, sem koma til með að greiða þennan skatt, en það munu verða um 5 millj. kr. eða um 5% af heildarupphæð fjárhagsáætlunarinnar nú. Það munar þannig litlu fyrir þjóðarheildina, en það munar miklu fyrir einstaklingana, sem eiga að greiða það. Ég er á þeirri skoðun, sem Gladstone hélt fram, að hver eyrir væri betur kominn í vasa einstaklingsins en í fjárhirzlu ríkisins, ef ríkið gæti með nokkru móti án hans verið. Við höfum ekki enn borið fram brtt. við þetta frv., en ef það verður samþ. til 3. umr., sem ég á bágt með að trúa, þá er nógur tími til að koma þá fram með brtt. Það er þó eitt atriði í 4. gr., sem ég vildi benda á, en það er um nafnskráningu verðbréfa. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „. . . og skal þar m. a. setja ákvæði til tryggingar réttum framtölum, svo sem með nafnskráningu verðbréfa . . .“ Ég held, að hér sé farið inn á svo stórhættulega og hála braut, að menn ættu að hugsa sig tvisvar um, áður en það verður gert. Það hefur komið í ljós, að veðdeildarbréf og ríkisskuldabréf eru seljanlegust af öllum verðbréfum, og svo er einnig í öðrum löndum. Hér hjá okkur mundi umstangið við að hafa hvert bréf nafnskráð verða svo mikið, að það mundi draga stórkostlega úr sölu bréfanna. Að setja l. um slíka nafnskráningu verðbréfa mundi því draga mikinn dilk á eftir sér. Ég bendi sérstaklega á þetta vegna þeirra útlendinga, sem eiga hér allmikið af verðbréfum, en þeir munu ekki skilja þessar reglur.

Eins og ég sagði í byrjun ræðu minnar, þá æski ég eftir, að hv. forseti vildi athuga, hvort þetta frv. er samrýmanlegt stjskr.

Ef seilast á svo langt sem hér er gert inn á jafnóeðlilegt svið, þá er það því aðeins verjandi, að það sé liður í kerfi til að halda dýrtíðinni niðri í einhverju vissu marki. En það er ekki verjandi með það fyrir augum að afla tveggja milljóna til alþýðutrygginganna og annars eins til verkamannabústaða og svo framvegis.