10.12.1943
Efri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í C-deild Alþingistíðinda. (2984)

3. mál, eignaraukaskattur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki misnota mér velvilja hæstv. forseta, en ég leyfi mér að taka til máls um eitt atriði, sem mér virðist ekki hafa komið nægilega fram í umr., og þykir mér slæmt, að hv. 3. landsk. (HG) er ekki við, en hv. 5. þm. Reykv. (BrB) getur tekið það til athugunar.

Ég vil biðja hv. flm. að athuga ákvæði þessa frv. í 2. gr., að þetta eigi að vera á eignaaukningu frá 1940 til 1944 og hvort það stríðir ekki beinlínis á móti skattal. frá 1941, þar sem eru ákvæðin um tapsfrádráttinn fyrir árin 1931–1939, að hann skuli vera skattfrjáls. Það var ákveðið hér á Alþingi, að sá gróði, sem kæmi á árunum 1940–1941, mætti ganga til þess að greiða töp frá árunum 1931–1939, án þess að greiddir væru skattar af því. Nú er ætlazt til, að þessi gróði sé skattlagður, og gegnir það furðu. Vil ég nú sýna með dæmi, hve ranglátt það er. Ef fyrirtæki skuldar 12 milljónir 1939 og græðir 24 millj. og notar helminginn af því til þess að greiða skuldir sínar, þá á skatturinn ekki að reiknast af 24 millj. Ég hygg, að þetta stafi af misreikningi á hinum áætluðu tekjum, sem mþn. í skattamálum hefur fengið upp gefnar frá skattstofunni, því að það stendur á bls. 14 í nál. mþn. í skattamálum 1943, með leyfi hæstv. forseta, að samkvæmt upplýsingum, sem n. hafi borizt frá Skattstofunni í Reykjavík, nemi skattskyld eignaaukning hér í bænum kr. 28.383.300.00 og eignaskatturinn af því kr. 5.126.513.00. Það er sjáanlegt, að Skattstofan miðar aðeins við þá eignaaukningu, sem orðið hefur á skattskyldum eignum, en það er ekki miðað við töp, sem búið er að greiða og ekki á að greiða skatta af. Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að nýlega gekk í gegn hér í þessari d. að afnema skattfrelsi iðnaðarfyrirtækja, sem höfðu fengið skattfrelsi til 3 ára, og var það afnumið með þessum l. Eitt iðnaðarfyrirtæki fór í mál og taldi sig ekki skyldugt til að greiða þessa skatta, og hæstiréttur leit svo á, að því bæri ekki að greiða skattinn, því að l. verkuðu ekki aftur fyrir sig. En ef þetta er rétt, að ekki megi taka eftir á skatta af fé, sem hefur verið skattfrjálst, virðist mér það gerbreyta öllu málinu, og mun ég leyfa mér að bera fram brtt. við 3. umr., að það sé alveg ótvírætt í l., að ekki sé hægt að reikna skattinn af töpum áranna 1931–1939.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða meira um þetta atriði, en vil leyfa mér að benda á, að hér fyrir Alþ. liggur, í Sþ., þáltill. til athugunar, og fer hún fram á, að útgerðarmönnum og þeim, sem eiga útgerðarfyrirtæki, sé leyft að reikna fyrningu eftir allt öðrum reglum en leyft er í skattal. Fjmrn. hefur látið í ljós umsögn um málið; og í því bréfi er skýrt tekið fram, að rn. sjái þess mikla þörf að leyfa, að þeir menn, sem hafa orðið að byggja á þessum dýru tímum, fái sérstaka heimild eða verði reiknaður fyrningarfrádráttur eftir sérstökum reglum, en sjái ýmsa agnúa á því, hvernig þessu verði fyrir komið. Í þessu bréfi rn. er fullkomin staðfesting á því, að taka beri tillit til þeirra erfiðleika, sem framundan eru, þegar allt verðlag lækkar í landinu. Ef þetta verður að l., mundi það í mörgum tilfellum íþyngja skattgreiðendum, því að það gæti verið, að þeir borguðu ekki svo litla upphæð samkvæmt þessum l., því að það eru margir, sem eiga eignir með stríðsverði vegna þess, að mat þeirra er eftir kostnaðarverði þeirra. Ég vildi aðeins taka þetta fram, áður en málið kemur til atkv.