16.09.1943
Efri deild: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í C-deild Alþingistíðinda. (3024)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Flm. (Brynjólfur Bjarnason) :

Við umr. á Alþ. fyrir skemmstu um uppbætur á landbúnaðarafurðir í sambandi við frv. ríkisstj. um hækkun álagningar á tóbaksvörur kom í ljós, að allmikill ágreiningur var um, hvernig skilja bæri ákvæði það, sem felst í 4. gr. l. um dýrtíðarráðstafanir frá 13. apríl s. l., þar sem svo er mælt fyrir, að ríkisstj. sé heimilt að ákveða verðhækkun á einstökum vörutegundum gegn framlagi úr ríkissjóði. Ríkisstj. leit svo á, að samkv. þessu hefði hún leyfi til að verja ótakmörkuðu fé til þessa úr ríkissjóði til lækkunar á hverjum innlendum afurðum, sem vera skyldi. En af hálfu þm. kom gagnstæður skilningur fram, að ríkisstj. hefði ekki heimild til slíkra fjárveitinga án samþykkis Alþingis í hvert skipti. Meðal þm. held ég enginn ágreiningur hafi um það verið, hvað sem lögfræðingum kynni að sýnast um bókstaf laganna, að tilgangur löggjafans hafi ótvírætt verið sá, að samþykki Alþingis þyrfti til fjárveitinganna. A. m. k. voru allir sammála um, að meðan Alþ. situr, sé óumflýjanlegt, að samþykkis þess sé leitað. Þetta litla frv. er borið fram til þess að gera ákvæði l. um þetta alveg ótvíræð. Ég geri ráð fyrir, að mikill meiri hluti Alþingis sé því samþykkur, að svo verði gert. Sú skoðun hefur komið fram í bréfum, er þingflokkarnir hafa sent ríkisstj. um þessi mál. Og þar hafa a. m. k. þrír þeirra lýst sig andvíga því, að stjórnin verði að Alþ. fornspurðu fé því, er fengist með auknum arði tóbakseinkasölu, til verðlækkunar, en ríkisstj. hefur síðan lýst yfir, að sú sé þó fyrirætlun sín.

Ég vildi spyrja ríkisstj., hvort hún teldi sig hafa rétt til að verja þeim tekjuauka þannig. Mér er kunnugt um það, að ríkisstj. telur sig hafa lagaheimild til þess að verja þessu fé þannig, en hins vegar féllst ríkisstj. á það við umr. um verðhækkunina á tóbakinu að birta yfirlýsingu um það, að hún mundi ekki nota sér þessa heimild, að því er tekjurnar af tóbakinu snerti, án þess að tryggja sér áður samþykki meiri hluta Alþ. En nú hefur mér skilizt af þeim skrifum, sem síðan hafa farið á milli þingflokkanna og ríkisstjórnarinnar, að þingflokkarnir geti ekki fallizt á meðferð ríkisstj. á þessu fé. Mér skilst því og, að ríkisstjórnin hafi þarna gengið á bak orða sinna og ekki haldið það loforð, sem af þingsins hálfu var skilyrði fyrir því, að það samþ. frv. til l. um verðhækkun á tóbaki. Ég sé, að nú er enginn ráðh. hér viðstaddur, svo að ég mun ekki fá svör við þessari fyrirspurn minni nú, en ég vænti þess að fá greið svör við henni hið bráðasta.

Að lokum legg ég til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn.