16.09.1943
Efri deild: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í C-deild Alþingistíðinda. (3025)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Það varð þegar ljóst, að um þetta mál mundu verða allmiklar deilur, og það er því bezt, að Alþ. gangi þannig frá því, að ekki þurfi að leita dómsúrskurðar á því, við hvað hér er átt í lögunum.

Ég er sammála hv. flm. um það, að þessu þurfi að breyta, en ég tel, að breytingin þurfi að vera skýrari. Mér hefur dottið í hug, að gr. yrði orðuð eitthvað á þá leið, að ríkisstj. væri veitt þessi heimild þann tíma, sem Alþ. situr ekki.

Mér sýnist og, að ríkisstj. þessi hafi gefið tilefni til þess að ákveða þetta þannig, og er þeim mun meiri ástæða til þess, þar sem þessi ríkisstj., sem nú situr, hefur ekki meiri hluta þingsins að baki sér. Ég tel það eðlilegan gang málsins, að ríkisstj. hafi þessa heimild þann tíma, sem Alþ. situr ekki, en að á meðan Alþ. situr, þá þurfi hún að leita heimilda hjá Alþ. fyrir þessum fjárveitingum eins og öðrum. Ég mun ekki á þessu stigi málsins flytja brtt. við frv. um þetta, en ég vildi beina þessu til þeirrar n., sem kemur til með að fjalla um málið, og ég mun verða fylgjandi málinu á þessum grundvelli.