30.09.1943
Efri deild: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í C-deild Alþingistíðinda. (3123)

73. mál, hverasvæðið í Ölfusi

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. Það skýrir sig sjálft ásamt því, sem í grg. segir. Það er borið fram í því skyni að tryggja skynsamleg yfirráð ríkisvaldsins yfir eignum, sem ríkið sumpart hefur keypt, sumpart ráðgert að kaupa. Gert er ráð fyrir framhaldi og aukningu á þeim skólarekstri, sem þarna er hafinn með garðyrkjuskólanum á Reykjum og skólaseli Menntaskólans í Rvík, og stendur til stækkun á því útibúi skólans. Þarna eru ýmis gæði, sem sennilega eru vel fallin fyrir sjúkrahús og ýmsar slíkar stofnanir. Það hefur komið til orða hjá nokkuð áhrifamiklum mönnum í læknamálefnum að reisa þarna spítala. En með því að það er þeirra mál, skal ekki farið út í það. Það er nokkuð óheppilegt, ef engin stjórn er yfir vexti slíks staðar, sem þetta er, nema sískiptandi ríkisstjórnir. Jafnvel hefur það komið fyrir, að látnar hafa verið lóðir til töluverðs tjóns fyrir garðyrkjuskólann. Ríkið hefur ákveðið með l. frá 1942 að kaupa landið, sem Hveragerði stendur á. Það hefur aðeins frestast vegna hins óeðlilega verðlags, sem nú ríkir. Oddviti hreppsins var hér nýlega á ferð til að ýta því máli áfram. Þorpið þarna fer hraðvaxandi, en það er partur af stórum hrepp, sem hefur að vonum meiri áhuga á ýmsu öðru en skipulagi þess og stjórn eða framkvæmdum í þess þágu, enda margt, sem hindrar, þangað til einn landeigandi verður að öllu svæðinu og þorpsbúar geta tekið málin í sínar hendur. Ég legg til, að málinu verði vísað til menntmn. og 2. umr.